Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 12:18:42 (388)


[12:18]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Lýsing hv. 4. þm. Norðurl. e. á því að við í þinginu séum sjaldnast að samþykkja lög sem feli í sér mikið eftirlit er ekki rétt. Ég held að við höfum samþykkt á síðasta þinginu óteljandi fjölda laga sem fela í sér hið ólíklegasta eftirlit. Af því að hv. þm. nefndi skatteftirlitið þá veit ég að hann sem sat í efh.- og viðskn. Alþingis gæti farið yfir það í örstuttu máli, eins og honum er lagið, hvernig við vorum að auka skatteftirlitið í landinu, hvernig við vorum að auka eftirlit með þeim sem aka um á dísilbílum, svo ég taki dæmi, og þar fram eftir götunum.
    Þetta er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er það að ég var alveg sammála því að mér finnst þessi áhersla á eftirlit vera að ganga út yfir allt. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé yfirþyrmandi vandamál að fylgjast með róðrardögunum. Ég held að það sé ekki þetta stóra vandamál. Hins vegar geri mér grein fyrir því að við stöndum frammi fyrir því að við verðum að eyða tortryggni margra í þjóðfélaginu og þess vegna verðum við að reyna að útbúa kerfi sem menn telja nokkurn veginn helt. Ég held að það sé ekki flókið. Ég er orðinn sannfærður um að sú tækni er til staðar sem dugir til þess að eyða þessari tortryggni og þá eigum við bara að fara í það verk, ljúka því sem fyrst og innleiða kerfi róðrardaga sem ég trúi ekki öðru en að við séum alveg sammála um í þinginu að sé meginmarkmiðið og hefur verið og er meginmarkmið Landssambands smábátaeigenda og þeirra smábátaeigenda sem ég tala við á degi hverjum.
    Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að ágreiningur okkar þegar allt kemur til alls sé ekki þessi stóri mikli. Við erum sammála um það að vilja stefna inn í róðrardagakerfi. Við teljum að núverandi banndagakerfi eins og það er í dag vegna þess að við sáum ekki fyrir aðstæðurnar fyrir ári síðan sé stórhættulegt. Við verðum að komast út úr því. Þetta frv. er tilraun til þess og aðalmálið í því sambandi er ákvæðið um róðrardagana. Þar er ekkert verið að skrifa eitthvað í skýin, það er verið að lögfesta skylduna um að koma því á.