Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 12:21:05 (389)


[12:21]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er gott að við erum sammála og þá er þetta ekki andsvar hjá hv. þm. heldur einhvers konar meðmæli eða stuðningur. ( Gripið fram í: Samsvar.) Þetta er líklega samsvar. En eftir stendur að sú leið er valin í frv. að lögfesta ekki róðrardagakerfið heldur er sett inn ákvæði til bráðabirgða sem setur það algjörlega í hendur sjútvrh. hvenær eða hvort hann tekur það upp. Ef sjútvrh. verður aldrei ánægður með framþróun gervihnattaiðnaðarins þá getur hann bara frestað því ad infinitum. Það er þannig. Það er hin formlega staða málsins samkvæmt lögum.
    Nú er þetta allt hið sérkennilegasta eins og hv. þm. bendir á því hér er verið að ýkja þennan eftirlitsþátt mjög upp. Það er alveg ljóst að við setjum iðulega lög þar sem við vitum að jafnvel þrátt fyrir eftirlit verða einhver undanbrögð að því að þeim sé í 100% tilvika framfylgt. Það vita allir menn hvort sem heldur er boð og bönn í sambandi við áfengismál, skatta eða annað því um líkt. Við setjum oft lög þar sem ljóst er að afar erfitt er að hafa eftirlit en þá er það ætlað mönnum sem heiðvirðum borgurum að þeir leitist við að fara eftir lögunum og þeim er ekki ætlað annað fyrir fram en að þeir geri það almennt séð. En hér virðist allt í einu sönnunarbyrðinni algjörlega vera snúið við. Það er reiknað með því að menn brjóti lögin nema hægt sé að koma í veg fyrir það með einhverju gífurlegu eftirliti. Þetta hefði einhvern tímann verið kallað lögregluríkishugsun og er sérkennilegt hverjir standa fyrir henni hér, stuðningsmenn núverandi stjórnarflokka.
    Kostulegast af öllu er svo þegar það eru endalausar fréttir um það að eftirlitskerfið sé þegar til, bæði í formi landstöðva og gervihnatta. Var ekki öll þjóðin að fylgjast með því í vor þegar álftirnar komu frá Bretlandi og menn vissu nákvæmlega á hvaða þúfu í Þykkvabænum þær settust. Ég sé ekki annað en þá hafi gervihnattakerfið verið fyrir hendi.