Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 13:07:38 (394)


[13:07]
     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég kunni ágætlega við mig í sambúðinni með hæstv. sjútvrh., en ég verð að fallast á það að ég kann ekkert síður við mig í því nýja hlutverki sem ég gegni um þessar mundir sem er aðallega formaður heilbr.- og trn. Það er hins vegar rangt hjá hæstv. sjútvrh. að ég hafi hrósað mér af því að hafa sett upp þetta aflahámark eða banndagakerfi eins og það var gert. Ég kann að hafa hrósað mér af því að hafa staðið í ístaðinu og staðið í slag við hæstv. sjútvrh., en ég hrósaði mér aldrei af þessu vegna þess að ég skammaðist mín fyrir það. Staðreyndin var einfaldlega sú, eins og ég hef margsinnis viðurkennt, að ég komst ekki lengra með hæstv. sjútvrh. heldur en þetta. Hann var bara það öflugur þá. Hann er enn öflugri núna. Ég komst þó nógu langt, hæstv. sjútvrh., eins og þú manst frá kvöldinu þegar þú skelltir frv. um að setja alla smábátana á kvóta fram á skrifborðið. Það fór aldrei lengra heldur en á skrifborðið. Svo dróstu það upp núna þegar þú varst orðinn sjútvrh. með einhverjum allt öðrum mönnum sem þú hefur miklu betur tök á heldur en þeim ágæta manni sem þú áttir þá í höggi við.