Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 13:10:48 (397)


[13:10]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Herra forseti. Ég þakka hv. 15. þm. Reykv. fyrir skemmtilega og afar ljóðræna ræðu, en ég kann hins vegar ekki við það í ræðu hans að hann mistúlki orð hæstv. forsrh., sameiginlegs vinar okkar, þegar hann gefur í skyn að hann hafi lofað 10 þús. tonnum til viðbótar við afla krókabátanna. Auðvitað vitum við það öll að 10 þús. tonn munu ekki skipta sköpum við fiskveiðistjórnunina. En 10 þús. tonn til krókabátanna, 10 þús. tonn til smábáta á aflamarki, 10 þús. tonn til vertíðarbátanna, 10 þús. tonn til ísfisktogaranna og 10 þús. tonn til frystitogaranna, þegar það allt kemur saman þá mun það skipta sköpum um fiskveiðistjórnunina.
    En þar sem hv. þm. eyddi nærri 40 mínútum í það að fara yfir víðan völl og skoðanir annarra þingmanna á þessu frv., þá sleppti hann því að nefna það nokkuð hvernig hann eða hans flokkur mundi taka á málinu ef okkur hefði borið sú gæfa að vera áfram saman í stjórnarmeirihluta. Og þar sem hann kvartaði yfir því að hann hefði ekki haft nægan tíma hér áðan til þess að gera grein fyrir því, þá vil ég biðja hann um að gera það í andsvari.