Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 13:57:12 (405)


[13:57]
     Hjálmar Árnason :
    Herra forseti. Okkur nýjum þingmönnum lærist senn ýmislegt sem gerist á hv. Alþingi. Eftir umræður morgunsins eru okkur smám saman að lærast þau boð og þær vinnureglur sem gilda hjá mörgum hv. stjórnarandstöðuþingmönnum. Formúlan virðist vera m.a. samsett af því að í ræðum þeirra skal skemmtigildið hafa ákvæðið vægi og það segja mér reyndir menn að því fleiri áhorfendur sem eru á þingpöllum þeim mun meira vægi skuli skemmtigildið hafa. Þá verður þess nokkuð vart að í málflutningi stjórnarandstöðu skuli krydda skemmtigildið með einföldun mála, heppilegum útúrsnúningum og því að gera mönnum upp skoðanir. Síðan bætast við nokkrar málefnalegar umræður. Þetta er mjög lærdómsríkt fyrir okkur nýja þingmenn.
    Þá hefur okkur líka lærst að fas manna breytist við að fara úr því að sitja sem stjórnarþingmenn og gerast stjórnarandstöðuþingmenn. Verður það öllu kærulausara, ábyrgðarminna virðist vera, þegar þingmenn hafa gengið yfir til stjórnarandstöðu og þeim mun meir breytist fasið hafi menn gegnt ráðherrastöðu áður.
    Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir þá ofurtrú sem hann hefur tekið á framsóknarmönnum í Reykjanesi og er gott til þess að vita að við eigum hauk í horni þar sem Össur er. Þá vil ég líka nota tækifærið og þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir stílfræðilegar rannsóknir, þær sem hann kynnti okkur í morgun. Ég þakka honum fyrir þær heimildarannsóknir sem hann hefur stundað og kynnt okkur í morgun. Ég þakka honum fyrir þá sálusorg og umhyggju sem hann sýnir þingmönnum Reykjaness og Vestfjarða og ég þakka honum siðbótartalið. En ég sakna málefnalegrar umræðu um sjávarútveg og þykir mér ástæða til að hún sé tekin upp með málefnalegri hætti og með minna skemmtanagildi því hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða.
    Það má ljóst vera að gildandi lög um fiskveiðar eru svo viðkvæm að engu skiptir hvað gert er eða hvað ekki er gert. Viðbrögð munu ávallt verða hörð. Þróun síðustu tveggja vikna ber þess og merki. Það hefur mátt lesa í fjölmiðlum, það hafa upplýst okkur nokkrir hv. þm. í ræðum sínum í morgun. Og vissulega er innan stjórnarflokkanna beggja ágreiningur og vissulega er ágreiningur á milli flokka og innan flokka hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Það má spyrja: Hvers vegna skyldi þessi ágreiningur vera? Hvers vegna skyldu vera uppi svo margar ólíkar skoðanir og mörg ólík sjónarmið? Það skyldi þó ekki vera vegna þess að þingmenn koma úr ólíkum áttum, ólíkum kjördæmum þar sem hagsmunir eru ólíkir.
    Því miður virðist mikil togstreita og á stundum fjandskipur ríkjandi á milli þessara hagsmunahópa. Þar nægir að nefna krókakarla sem við Reyknesingar ekki síður en aðrir höfum rætt við marga. Þeir hafa margar skýrar skoðanir og afdráttarlausar á því hvað hentugt er við fiskveiðar og stjórnun fiskveiða. Hitt vitum við að togarajaxlar margir kynna allt önnur sjónarmið og báðir þessir hópar telja hinn á stundum óalandi og óferjandi. Skyldu vera mjög lík sjónarmið hjá togaramönnum sem veiða með flottroll á stærð við fótboltavöll í opnun og netamanna eða línumanna? Hér hafa verið kynnt m.a. af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að sjónarmið Reyknesinga, sjónarmið Vestfirðinga, Sunnlendinga og fulltrúa einstakra landshluta eru mjög ólík. Við vitum að afstaða fiskvinnslunnar innbyrðis og til sjómanna er nokkuð misvísandi. Við vitum að afstaða manna til þess hvort skipa skuli upp öllum afla á markaði eða ekki er ólík og um það er nú tekist í harðri sjómannadeilu.
    Það er líka mikið áhyggjuefni að á milli fiskifræðinga og sjómanna ríkir miki togstreita og fjandskapur. Enginn dregur í efa menntun fiskifræðinga og enginn dregur í efa þá reynslu og þekkingu sem sjómenn hafa af hafinu og lífríki þess. En það hlýtur að vera áhyggjuefni að nánast fjandskapur skuli ríkja á milli þessara hópa og hlýtur að vera verðugt viðfangsefni að leiða þessa hópa saman sem í raun eru samherjar en ekki andstæðingar.
    Svona má áfram telja en þessir ólíku sjónarmið endurspegla þingmenn og því er von að ólík sjónarmið komi fram meðal þeirra innan þingflokka, milli þingflokka, milli stjórnarflokka og stjórnarandstæðinga. En þetta eru viðkvæm mál og það er skylda okkar að ræða þau af fullri alvöru en beina skemmtigildinu út á aðra staði, þorrablót eða því um líkt.
    Umræðan núna snýst um tvennt: Hún snýst í fyrsta lagi um aðgerðir gagnvart krókabátum. Hún snýst í öðru lagi um það að bæta þeim bátum, hinum hefðbundnu vertíðarbátum, sem hafa orðið fyrir mestri skerðingu í aflamarki. Og í þriðja lagi, sem lítið hefur verið rætt um og lítið gert úr einkum af hv. stjórnarandstæðingum, aðgerðir til lengdar. Það ætti hv. stjórnarandstæðingum sem hér hafa talað að vera kunnugt að kjörtímabil er fjögur ár og það eru þess vegna nokkuð fljótfærnislegar ályktanir að kveða upp salómonsdóm núna þrátt fyrir að í verkefnaskrá hæstv. ríkisstjórnar komi fram yfirlýsingar um aðgerðir til lengdar. Við erum fyrst og síðast að tala um í dag nauðsynlegar breytingar á lögum um fiskveiðar vegna

þess að málið er aðkallandi gagnvart krókabátum og vertíðarbátum. Útgangspunkturinn er sá að fisk vantar í sjóinn. Væri meiri fiskur í sjónum þá fengju líklega allir bátar nóg og þá trúi ég því að þeir ágætu krókakarlar sem hér voru á þingpöllum í morgun væru frekar á sjó en að hlusta á ræður þingmanna. Meginmarkmiðin eru tvö, annars vegar það að vernda fiskstofna gagnvart ofveiði þannig að afkomendur okkar geti líka nýtt þá. Hitt markmiðið er hámarksnýting þeirra stofna sem eru í sjónum. Það er með öðrum orðum verndunarsjónarmið og hámarksnýting.
    Á þessu sviði í alþjóðaumræðu teljast Íslendingar vera til fyrirmyndar. Við þurfum ekki annað en líta til þess sem hefur gerst á grunnmiðum við Færeyjar. Það nægir að nefna hvað gerst hefur við Nýfundnaland, það nægir að nefna það sem hefur gerst við Eystrasalt og þannig má áfram telja. Það hefur orðið hrun fyrst og fremst vegna þess að stjórnvöld í þeim löndum hafa ekki borið gæfu til að ná stjórn á fiskveiðum.
    Aðrar þjóðir líta til verndunaraðgerða okkar Íslendinga en við vitum það, sem þeir hugsanlega vita ekki, að þær eru og hafa verið sársaukafullar en það er ljós í myrkrinu, má segja, og nýlegar fréttir í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun benda til þess að við séum nú að ná okkur upp úr því sögulega lágmarki sem við höfum verið í um hríð einkum hvað varðar þorskstofninn. Þeir tala jafnvel um að innan fárra ára, jafnvel tveggja ára, þá geti þorskveiðikvótinn orðið um 200 þús. tonn og trúi ég því að þá muni verða annað hljóð meðal sjómanna og þess fjölda fólks sem starfar við fiskvinnslu. Spurningin er um það að þrauka.
    Ef við lítum aðeins á það ákvæði frv. sem snertir krókabáta sérstaklega þá er rétt að hafa það í huga að verði ekkert að gert þá standa gildandi lög og þá munu banndagar nálgast 300 og þar með er rekstrargrundvöllur fyrir þá krókabáta horfinn. Það hefur ekki gengið að halda uppi eftirliti. Sá pottur sem þeim var ætlað að veiða er kominn langt fram úr eðlilegum afla að því er fiskifræðingar telja. Grundvöllurinn fyrir þessu kerfi virðist með öðrum orðum brostinn og við því þarf að bregðst. Það þarf að bregðast við því þannig að sjómenn á krókabátum geti stundað sína atvinnu af nokkru öryggi, bæði rekstrarlegu öryggi og líka hvað varðar líf þeirra.
    Þá er það spurningin um leiðir og það er þar sem málið fyrst og fremst veldur deilum. Það hefur komið fram í umræðum hér og það hefur komið fram í fjölmiðlum að upphaflegar hugmyndir fólu í sér að setja alla krókabáta á aflamark. Ýmsir stjórnarþingmenn gátu ekki sætt sig við það, það má öllum vera ljóst, og færðu fyrir því ýmis rök, ekki síst rök sem krókakarlar sjálfir hafa kynnt. Þau ber að virða.
    Þá hefur líka verið uppi það sjónarmið að setja krókabáta á róðrardagakerfi sem og er vilji þeirra. Það er hið æskilegasta form að flestra mati. En það eftirlitskerfi sem róðrardagarnir þurfa að byggjast á virðist ekki vera tilbúið hvort það er handstýrt, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi hér áðan, eða hvort það fer um gervihnött. Það sem málið snýst um er að þrauka, vil ég líta á, þar til eftirlitskerfið er tilbúið. Það má búast við að það verði tilbúið innan árs og jafnvel í haust og hvað gerum við þangað til?
    Frv. felur í sér að siglt sé milli skers og báru, þess að fara á róðrardagakerfi og þess að setja á banndagakerfið, að menn megi velja. En ég vil vekja athygli á því, sem ekki hefur komið fram, að frv. á að fela í sér að kvóti er ekki framseljanlegur eins og áður hefur reyndar verið kynnt. Frv. felur í sér bæði kosti og galla og það eru þeir kostir og gallar sem munu verða ræddir í sjútvn. Ég vil nefna nokkra vankanta sem menn hafa kynnt.
    Hvað varðar aflamarkið þá eiga bátar að hafa þess kost að velja tvö af bestu bestu þremur aflaárum. Þar hefur réttilega verið bent á að Austfirðingar eiga engin tvö góð ár af síðustu þremur jafnvel þó lengra væri leitað þannig að aflamarksleiðin hentar þeim afskaplega illa. Menn hafa bent á ákveðna tortryggni við að setja alla báta á aflamark og benda m.a. á reynslu úr öðrum tegundum veiðiskipa, fækkun þeirra. Menn hafa jafnvel gerst svo djarfir að tala um útrýmingu trillubáta. Það er ekki markmið frv. og tel ég að enginn þingmaður gangi með þær hugmyndir.
    Á það hefur verið bent að samkvæmt frv. og miðað við reynslu yfirstandandi fiskveiðiárs geti banndagar orðið allt að 229 og menn benda á að þar með bresti rekstrargrundvöll fyrir mörgum bátum og það þýði gjaldþrot þeirra fjölskyldna sem að þeim standa. Á það hefur líka verið bent í gagnrýnisskyni að meðan beðið er eftir eftirlitskerfi sé óeðlilegt að mönnum sé gert að taka afstöðu til þess núna að fara yfir á aflamark en eiga ekki þaðan afturkvæmt þegar eftirlitskerfið er tilbúið. Vissulega eru það nokkuð haldgóð rök og má segja að forsendur hvað þetta snertir séu hæpnar.
    Menn hafa bent á það og ugglaust nokkuð réttilega að ekki hefur verið haft nægjanlegt samráð við þá sem þessa atvinnugrein stunda, en því má til svara að hv. sjútvn. hefur þegar fjallað um það á fundi sínum í gærmorgun að boða til sín m.a. fulltrúa frá Landssambandi smábátaeigenda.
    Þannig má áfram telja. Grundvallaratriðið er það að við ætlum að reyna að halda stjórn á fiskveiðum, binda pottinn 21.500 lestir og síðan er það spurningin um útfærsluna. Ég trúi því að það sé spurningin um að þrauka í eitt ár og koma þá veiðistjórn sem snertir sérstaklega krókabáta í fastar skorður því að á því má vekja athygli að nauðsynlegt er koma á festu í þessu kerfi sem öðrum kerfum, festu sem skapar öryggi fyrir þá sem veiðarnar stunda og festu sem skapar rekstrargrundvöll og rekstrarskilyrði fyrir útgerðir þessara smábáta. Útfærslan er ekki einföld. En það er verkefni sjútvn. að skoða þessa útfærslu nánar.

    Ég vil þá víkja aðeins að hinu meginatriðinu í frv. og það eru bættar heimildir til handa aflamarksbátum. Það þarf ekki að útskýra þær nánar, það hefur verið gert hér í morgun, en ég vil vekja athygli á því að gert er ráð fyrir því að enginn bátur fái meira en nemur 10 tonnum. Það felst einmitt í því að koma til móts við vertíðarbáta og vil ég vekja athygli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar á því að bátur og bátur er sitt hvað. Framsóknarmenn í Reykjanesi töluðu einmitt um það að auka veg báta, bæði smábáta og ekki síður hinna hefðbundnu vertíðarbáta sem skipta miklu máli í sjávarútvegi margra byggða. Það er akkúrat það sem verið er að gera með þessu ákvæði um úthlutun 5.000 smálesta og binda þær við hámark 10 tonn. Þannig mun það nýtast best þessum hefðbundnu vertíðarbátum. Þetta eru þau tvö meginatriði sem auðvitað eiga eftir að koma til frekar umræðu í sjútvn.
    En mér þykir ástæða til að benda á aðra þætti sem hafa ekki komið fram í umræðunni. Það má á stundum halda að umræða um sjávarútvegsmál snúist eingöngu um krókaveiðar en í umræðunni í morgun hefur aldrei verið minnst einu orði á tengsl útgerðar, fiskveiða, við fullvinnslu sjávarafla, við vinnsluna. Það hlýtur að þurfa að skoða fiskveiðar í þessu samhengi. Aflinn kemur úr sjónum, hann fer á land og hvað verður um hann þar? Það er einföldun að líta einungis til eins þáttar af mýmörgum sem tengjast sjávarútvegi, bæði fiskveiðum og fiskvinnslu. Það hefur ekki verið rætt hér enda ugglaust ekki ætlunin en það er eitt af langtímaverkefnum hæstv. ríkisstjórnar.
    Það hefur heldur ekki komið fram hér að sum byggðarlög í landi okkar byggja afkomu sína nánast eingöngu á ísfisktogurum. Aflaheimildir sumra þessara ísfisktogara eru minni en aflahæstu krókabáta og alvarlegast er að útgerð þessara ísfisktogara hefur verið rekin með tapi um árabil. Hvað felur það í sér? Hvaða hætta felst í því að á sama tíma og ísfisktogarar eru reknir með tapi árum saman, undirstaða í nokkrum sjávarútvegsplássum, eru frystitogarar reknir með hagnaði? Felst ekki einmitt ákveðin hætta í því að útgerð þessara ísfisktogara leggist niður og aflaheimildir þeirra færist yfir til frystitogara? Þar með er verið að færa úr landi atvinnu, þar með er verið að leggja niður undirstöðu að tilveru ýmissa sjávarplássa hér á Íslandi. Á þessu þarf að taka, á þetta hefur ekki verið minnst einu orði í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram. Hvert stefnir með þessu? Það er verkefni þess þings, sem á eftir að koma saman í haust að skoða sjávarútvegsmálin í víðara samhengi heldur en er til umræðu hér á stuttu vorþingi. Umræðan ber þess merki og mun bera þess merki að hagsmunir eru afskaplega ólíkir.
    Rétt er að undirstrika að krókabátar eiga tilverurétt, m.a. vegna þess að mörg byggðarlög í landinu byggja tilveru sína á krókabátum. Það er líka rétt að árétta það að ísfisktogarar og hefðbundnir vertíðarbátar eiga sama tilverurétt en áherslan á þessar ólíku tegundir veiðiskipa er ólík eftir byggðarlögum og eftir kjördæmum. Sé ætlunin að leggja af byggðir á Íslandi eiga menn einfaldlega að setja það markmið skýrt fram. Ég trúi því ekki að nokkur hv. þm. hafi vilja eða löngun til þess að leggja af byggðir á Íslandi. Sé svo eiga menn að hafa þann kjark að koma og segja þá skoðun sína úr þessum ræðustóli. En sé það ætlunin að verja byggðir landsins þarf að skoða tilverurétt allra tegunda veiðiskipa en ekki að hampa endilega einni tegund umfram annarri í einhverju vinsældum. Það þarf að virða tilverurétt þeirra allra. Það er meginverkefni okkar. Það er það verkefni sem sjútvn. mun fjalla um og það er það verkefni sem hv. Alþingi ber að fjalla um. Það gera menn ekki með útúrsnúningum. Það gera menn ekki með því að láta skemmtigildið ráða en menn þurfa samt ekki að gerast leiðinlegir og trúi ég seint að hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerist leiðinlegur.