Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 14:19:01 (406)


[14:19]
     Kristín Halldórsdóttir :
    Herra forseti. Eftir öll stóru, þungu orðin sem féllu í nýliðinni kosningabaráttu, eftir allar heitingarnar sem skyldu nú afla atkvæða og gerðu það áreiðanlega er erfitt að velja orð yfir þann bastarð sem hér er til umræðu. Kannski var óþarfi að búast við öðru en einhverju í þessa veru. Kannski er það borin von að menn geti náð samkomulagi um vitræna niðurstöðu þegar svo ólík sjónarmið vegast á, þá verður niðurstaðan málamiðlun sem enginn er í rauninni sáttur við.
    Svo mikið er víst að lítið sér hér stað þeirra djörfu sjónarmiða sem hinir ungu, fersku frambjóðendur kynntu í kosningabaráttunni eins og frambjóðendur Framsfl. í Reykn. kynntu sig gjarnan á fundum með kjósendum. Þær hugmyndir, sem þeir kölluðu nýjar áherslur í sjávarútvegi, voru óneitanlega talsvert á skjön við það sem forustan hefur aðhyllst og þrátt fyrir litla hrifningu á þeim bæ fengu hinir ungu, fersku frambjóðendur að halda sínu fram nokkurn veginn óáreittir og uppskeran í Reykjanesi varð í samræmi við það í kosningunum. Árangurinn verður hins vegar ekki séður í þeim þingmálum sem eru til umræðu hvernig sem svo reynt er að klóra í bakkann. Því miður því að mér leist vel á ýmislegt í hugmyndum þeirra enda voru þær býsna nálægt stefnu Kvennalistans og miklu nær henni en stefnu Framsfl. En það gildir svo sem einu því að nú eru þessar hugmyndir komnar undir stól. Eða hvað er orðið af hugmyndunum um að ýta togurum lengra frá landi, banna flottroll, fækka togurum, skylda allan afla á markað, efla rannsóknir? Þetta og ýmislegt fleira átti að styðja raunhæfa þróun í sjávarútvegi Íslendinga eins og það var orðað. Þingmenn Framsfl. í Reykjanesi hafa nú fengið að reyna að sitthvað er kosningabarátta og þingmennska og má kannski segja um það eins og hv. síðasti ræðumaður sagði um muninn á því að vera í stjórn og stjórnarandstöðu.
    Umræðan um fiskveiðistjórnun snýst oftast og mest um smábátaútgerðina. Það sannar reynslan enda

á hún stöðugt í vök að verjast og enn er verið að taka á þeim vanda. Sú áhersla er að mörgu leyti eðlileg því að sú mikla kvótaskerðing, aðallega í þorski, sem orðið hefur á undanförnum árum, hefur bitnað harkalega á smábátasjómönnum sem geta ekki sótt á fjarlæg mið eða í nýjar tegundir á sama hátt og sjómenn á stærri skipum. Á þetta hafa kvennalistakonur ítrekað bent og viljað taka aukið tillit til aðstæðna smábátasjómanna. Ástæðan er auðvitað ekki eingöngu sú að smábátaútgerðin á ekki sömu kosta völ og stórútgerðin og hún er heldur ekki sú að smábátaeigendur eru dálítið háværir og ötulir í hagsmunagæslu sinni en það eru reyndar fleiri í hinum ýmsu greinum sjávarútvegsins.
    Margar ástæður eru fyrir því að við kvennalistakonur teljum rétt og skynsamlegt að tryggja og efla hag smábátaútgerðar. Ég ætla að nefna nokkrar.
    Í fyrsta lagi skila smærri bátarnir, og þá fyrst og fremst dagróðrarbátarnir, yfirleitt mjög góðu hráefni á land og líklega jafnbesta hráefni sem á land berst. Nú þegar Íslendingar eru loksins farnir að átta sig á mikilvægi gæða fremur en magns í sjávarútvegi sem og öðrum greinum þá ætti ekki að þurfa að hafa fleiri orð um þann þátt.
    Í öðru lagi tryggja veiðarfæri smábátanna betri umgengni um auðlindina en hin mikilvirku, botndregnu veiðarfæri stærri skipa og þetta er mjög mikilvæg ástæða og kannski sú almikilvægasta. Það hlýtur að vera meginmarkmið með stjórnun fiskveiða að vernda þá auðlind sem sjávarútvegurinn hvílir á. Það verður því ekki ofmælt um þetta atriði og það er ekki síst af þeirri ástæðu sem er brýnt að ýta skipum yfir ákveðnum stærðarmörkum og með stórvirk veiðarfæri af grunnsjávarmiðunum. Það er jafnframt brýnt og nauðsynlegt að stórauka rannsóknir á áhrifum stórvirkra veiðarfæra á lífríkið en það er mörgum áhyggjuefni hversu lítið er vitað um þau áhrif. T.d. er spurning hvort ástandið á humarmiðunum, sem er nú mörgum áhyggjuefni, megi ekki rekja til óvarlegrar umgengni af þeim toga sem hér var nefnt.
    Í þriðja lagi má færa rök fyrir því að smábátaveiðar séu fjárhagslega hagkvæmari. Fastur kostnaður við veiðar er meiri hjá stórum skipum en litlum og smábátaútgerð er þannig hagkvæmari þegar lítið er til skiptanna. Einnig má minna á það atriði þegar byggð og þróun byggðar hvílir nánast á einu atvinnutæki, einum togara og einu frystihúsi. Ef þau atvinnutækifæri bregðast, sem lítið eða meðalstórt byggðarlag hefur byggt sína lífsafkomu á, og atvinnutæki eru seld burtu er það mikið áfall fyrir fólkið sem stendur eftir atvinnulaust. Hér gildir það enn eina ferðina hversu óskynsamlegt er að hafa öll eggin í sömu körfunni. Það er betra að hafa fiskiskipin fleiri en færri og helst af ýmsum stærðum og gerðum.
    Í fjórða lagi má færa rök fyrir því að smábátaútgerðin skapar meiri og stöðugri atvinnu og meiri möguleika á fjölbreyttri vinnslu.
    Við skulum heldur ekki gleyma mannlegu hliðinni. Smábátaútgerðin fellur um margt betur að félagslegum þörfum og ræktun fjölskyldulífs og mannlífs almennt. Það er því á margt að líta og margvísleg rök sem hníga að því að taka ríkulegt tillit til smábátaútgerðar, jafnvel á kostnað stórútgerðar sem hefur reyndar allt aðra og fleiri möguleika til að bæta sér upp aflaskerðingu, betri möguleika að sækja á önnur og fjarlægari mið og nýjar tegundir.
    Nú eru átta ár síðan við kvennalistakonur settum fram stefnu okkar um byggðakvóta sem fáir tóku reyndar undir í fyrstu en æ fleiri hafa hallast að á síðari árum. Það er bjargföst skoðun mín að ýmislegt væri öðruvísi í sjávarútvegi núna ef á þau sjónarmið hefði verið hlustað og tekið undir þau fyrr. Við erum enn þá þeirrar skoðunar að veiðiheimildir beri að tengja byggðarlögum, a.m.k. að hluta og það verður að horfa til sjálfbærrar þróunar og byggða- og atvinnuþróunar í landinu þegar veiðistjórnunin er skipulögð.
    Auðvitað hefur margt gerst á þessum átta árum og hugmyndir okkar hafa breyst og þróast. Við teljum að skipta eigi miðunum í grunnsjávarmið og djúpsjávarmið þar sem grunnsjávarmiðin væru nýtt af íbúum nærliggjandi svæða og skip með stórvirk veiðarfæri fengju ekki leyfi til að veiða á grunnsjávarmiðum. Það þarf að rannsaka áhrif veiðarfæra á fiskimiðin og fiskstofnana og það þarf að ýta undir veiðar með vistvænum veiðarfærum. Reyndar vitum við ekki einu sinni nóg til þess að geta fullyrt að tiltekin veiðarfæri séu vistvænni en önnur en þar eru að vísu krókarnir undanskildir. Þá er mjög nauðsynlegt að gera tilraunir með friðun þekktra hrygningarstöðva í nokkur ár og hefur því miður lítið verið komið inn á þau mál hér núna.
    Þetta eru svona í örfáum stórum dráttum þær áherslur sem við hefðum vijað sjá og ég lýsi miklum vonbrigðum með það metnaðarleysi sem birtist í þeim þingmálum sem eru til umræðu. Niðurstaðan er eiginlega hvorki fugl né fiskur eða kannski réttara sagt bæði fugl og fiskur því að hér er verið að bjóða mönnum að velja um það hvort þeir verði skotnir eða hengdir. Eins og hér hefur verið bent á gerir það málið ekki auðveldara að hér er ávísað með óljósum hætti á róðrardagakerfi sem kunni að vera mögulegt innan einhvers tíma. Þetta er að mörgu leyti hugnanlegra kerfi en banndagakerfið og erfitt að skilja að það þurfi að vera eitthvað flóknara. Það er það ekki.
    Ég hef áhyggjur af því ef niðurstaðan verður sú að krókabátarnir verða nánast neyddir yfir á aflamarkskerfi fyrst og fremst af þeim orsökum að aflamarkskerfið hefur í sér fólginn þann stóra galla að það hvetur til að fiski sé hent. Það er stórvandamál í þessu kerfi og það bætir ekki úr skák ef krókabátarnir verða skyldaðir til þess að fara á aflamark.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði þessara þingmála. Þar eru ákveðin atriði sem eru vissulega til bóta, t.d. í sambandi við vertíðarbátana. Kvennalistinn á reyndar ekki aðild að hv. sjútvn. en við höfum farið fram á áheyrnaraðild þar og sú ósk hefur fengið jákvæða afgreiðslu í nefndinni. Ég hef

reynt að lýsa í mjög stuttu máli fyrst og fremst því sem ég sakna úr þessum niðurstöðum af samningum stjórnarflokkanna og skil það út af fyrir sig að það hafi verið erfitt að komast að niðurstöðu sem allir eru sáttir við, en þessari niðurstöðu sem ég leyfði mér að kalla bastarð í upphafi máls eru menn ekki mjög sæmdir af.
    Ég hef lokið máli mínu að sinni. Ég bíð með eftirvæntingu eftir ræðum og útskýringum þeirra hv. þm., einkum af Vestfjörðum, sem mestar heitingar höfðu uppi um nauðsyn breyttrar stefnu en hafa nú beygt sig fyrir ofureflinu.