Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 14:35:36 (409)


[14:35]
     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. segir að banndagakerfi svonefndra krókabáta verði tekið til endurskoðunar og að skapað verði svigrúm til að rétta hlut þeirra aflamarksbáta sem harðast hafa orðið úti vegna minnkandi þorskafla. Þetta er hvort tveggja mjög aðkallandi og því fagnaðarefni að frv. um þetta mál skuli koma fram á vorþinginu. Sérstaklega finnst mér það ánægjulegt að hér skuli tekið nokkuð á vanda aflamarksbátanna strax á yfirstandandi fiskveiðiári en þeir hafa farið verst allra út úr þeim mikla samdrætti sem orðið hefur á þorskaflanum á undanförnum árum því flestir þeirra, þ.e. þeir minni, hafa ekki haft möguleika á að snúa sér að veiðum á öðrum tegundum eða sókn á fjarlægari slóðir eins og stærri skipin hafa sem betur fer getað gert með þokkalegum árangri.
    Í ákvæði til bráðabirgða I í þessu frv. er gert ráð fyrir að á yfirstandandi fiskveiðiári skuli úthluta sérstaklega til jöfnunar þeim hluta aflahámarks vegna línutvöföldunar sem ekki nýttist við línuveiðarnar í nóvember til febrúar í vetur, en hér er um að ræða 4.850 lestir af þorski og ýsu miðað við óslægðan fisk eins og fram kemur í athugasemdum með frv. Þá skal úthluta 5.000 lestum af þorski á ári í sama skyni næstu fjögur fiskveiðiár.
    Ég er ekki fyllilega sáttur við það með hvaða hætti á að úthluta þessum viðbótarkvóta. Gert er ráð fyrir að úthluta honum til allra aflamarksskipa nema þeirra sem leyfi hafa til fullvinnslu um borð. Þetta þýðir að tæplega 600 skip koma til með að skipta þessum 5.000 tonnum á milli sín og hámarksúthlutun til hvers skips verður 10 lestir. Ég tel eðlilegra að viðbótarkvótinn komi eingöngu til báta upp að einhverri ákveðinni stærð, t.d. 100--150 tonn og að sá viðbótarkvóti sem kemur á yfirstandandi fiskveiðiári verði óframseljanlegur og komi eingöngu til þeirra báta sem veiða þennan afla í sumar. Það er ástæðulaust með öllu að nota þessa viðbót til að auka kvóta þeirra sem nota hann sem söluvöru. Ég vona að þetta sjónarmið verði skoðað þegar hv. sjútvn. fjallar um málið. Vissulega skiptir það minnstu aflamarksbátana nokkru að fá l0 lesta viðbót við kvóta sinn en fyrir báta af millistærð gerir það minna gagn. Yrði stuðst við þá aðferð sem ég nefndi hér að framan þá gætu þessir bátar hugsanlega fengið 30--50 lesta úthlutun sem gæti

skipt sköpum fyrir rekstur þeirra í sumar.
    Annað meginviðfangsefni þeirrar verkefnaáætlunar sjútvrn. sem samþykkt var við myndun ríkisstjórnarinnar er að tryggja stöðu þeirra sem hafa haft lífsviðurværi af krókaveiðum. Menn hafa á því skiptar skoðanir með hvaða hætti þetta verði best gert. Sumir vilja kvótasetja krókaflotann, þ.e. setja aflahámark á hvern einstakan bát á grundvelli aflareynslu síðustu ára. Aðrir, þar á meðal sá sem hér stendur, telja farsælast að stjórna veiðum þessara báta eingöngu með róðrardögum og benda á að kvótasetning leiði til þess að fiski verði hent í stórauknum mæli og að viðmið við aflareynslu síðustu ára verði í mörgum tilfellum mjög ósanngjarnt, t.d. í þeim tilfellum þar sem menn hafa keypt nýja báta og eins varðandi kaup á notuðum bátum þar sem kaupandi hefur að sjálfsögðu ekkert spáð í aflareynslu enda hefur hún engu máli skipt í því kerfi sem gilt hefur.
    Í þessu frv. er reynt að samræma þessi sjónarmið með því að menn geti valið um það að fara á aflamark eða áframhaldandi banndagakerfi með stórfjölgun banndaga. Ég tel að hv. sjútvn. verði að skoða þennan þátt frv. mjög vandlega og leita svara við ýmsum spurningum. Ég hef t.d. spurt að því og ekki fengið svar: Hvað þýðir það ef t.d. þeir 200 bátar sem mesta aflareynslu hafa velja allir aflamarkskerfi? Hversu mikið taka þeir þá af þeim 20 þúsund tonnum sem veiða má og hvað mikið verður þá eftir handa þeim 900 bátum sem eftir eru? Við þessu verður auðvitað að fást svar.
    Vandamálið varðandi krókaleyfisflotann er náttúrlega að það eru allt of margir að veiða allt of lítið þrátt fyrir að þorskafli þessara báta hafi fjórfaldast frá árinu 1989 og tvöfaldast frá árinu 1991. Það er augljóst að þau rúmlega 20 þúsund tonn sem lögin um stjórn fiskveiða leyfa þessum 1.100 bátum að veiða er allt of lítið, enda útlit fyrir að þeir veiði 75% umfram heimildir á þessu ári.
    Ég hef ekki áhyggjur af því þótt smábátar veiði nokkur þúsund tonnum meira heldur en ætlað er og tel að það skipti ekki sköpum, ekki síst þar sem fiskigengd á grunnslóð er einhver sú mesta sem verið hefur í háa herrans tíð. En það er náttúrlega augljóst að þeir sem búa við aflamarkskerfi og hafa þurft að taka á sig miklar skerðingar á undanförnum árum sætta sig ekki við að ein tegund útgerðar fái að veiða nánast ómælt. Afkastageta krókaflotans hefur vaxið gífurlega að undanförnu. Margir nýir og öflugir bátar hafa komið í stað annarra hálfónýtra. Bátar hafa verið stækkaðir og vélarorka aukin. Allt hefur þetta leitt til þess að þessi floti er miklu öflugri en hann var fyrir 1--2 árum. Margir þeirra báta sem stunda krókaveiðar eru mjög afkastamiklir sem sést á því að sumir þeirra veiða 200--300 tonn á ári og jafnvel á fjórða hundrað.
    Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að herða mjög endurnýjunarreglur krókabáta jafnframt því sem samhliða þessu frv. er flutt frv. um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins þar sem gert er ráð fyrir að eigendur krókabáta öðlist rétt til að sækja um úreldingarstyrk fyrir bátana. Þetta hefði þurft að gerast fyrr, t.d. fyrir ári þegar lögum um stjórn fiskveiða var breytt. Þá mátti öllum ljóst vera að sá floti sem þá var til staðar var allt of stór til að veiða þau rúmlega 20 þús. tonn sem þessum bátum var heimilað að veiða.
    Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að banna veiðar smábáta í desember og janúar. Það er reyndar óbreytt frá núgildandi lögum en ég tel að þetta tímabil mætti gjarnan lengjast um hálfan til einn mánuð. Það er nú svo að þegar þarf að takmarka veiðarnar eins mikið og frv. gerir ráð fyrir þá sýnist mér ekki mikið vit í því að vera að sækja sjó á þessum litlu bátum á erfiðasta tíma ársins. Af því er veruleg slysahætta eins og dæmin sanna. Og talandi um slysahættu þá skapar þetta banndagakerfi tvímælalaust meiri slysahættu en róðrardagakerfi þar sem hver einstaklingur velur sína sjóferðadaga.
    Í athugasemdum með frv. og eins og kom fram í ræðu hæstv. sjútvrh. þá segir að slíkar hugmyndir séu óframkvæmanlegar eins og sakir standa þar sem nauðsynleg eftirlitstækni sé ekki tiltæk, en gert ráð fyrir að taka þetta kerfi upp þegar gervihnattasamskipti geri það mögulegt.
    Ég held að það hljóti að vera hægt að fylgjast með róðrardögum þessara báta án gervihnatta. Annað eins er eftirlitið orðið í höfnum landsins. Ég tel reyndar að flestir þeir sem gera út þessa báta séu strangheiðarlegir menn og þó að auðvitað finnist einn og einn sem væri til í að svindla á dagafjöldanum þá held ég að mætti einfaldlega koma í veg fyrir það með ströngum viðurlögum.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta frv. við 1. umr. Ég ætla líka að stilla mig um að tala almennt um þá miklu vankanta sem eru á því fiskveiðistjórnunarkerfi sem við búum við, kerfi sem leiðir til þess að æ meira af fiskvinnslunni flyst út á sjó, kerfi sem leiðir til þess að óseldur fiskurinn í sjónum er orðinn verslunarvara í stórum stíl, kerfi sem skammtar mönnum upp á kíló hvað þeir mega koma með mikinn afla á land og allt miðast við að heildarafli flotans sé ákveðið mörg tonn af hverri tegund, en aflinn er auðvitað miklu meiri því að kerfið leiðir til þess að menn draga helst að landi verðmesta fiskinn en henda í stórum stíl smáfiski, dauðum netafiski og öðrum verðminni fiski. Einn höfuðkostur krókaleyfanna er að þar koma menn með allan fisk að landi og gera úr honum verðmæti. Ekki síst vegna þess er ég ósammála þeim sem vilja kvótasetja alla krókabáta. Það mundi tvímælalaust leiða til þess að fiski yrði hent í stórauknum mæli og er ekki á það bætandi.
    Í lokin verð ég að lýsa ánægju minni með síðustu mgr. 2. gr. frv. þar sem mönnum er enn heimilt án sérstaks leyfis að stunda fiskveiðar í tómstundum til eigin neyslu og býst ég við að það hljóti að fara fyrir brjóstið á helstu aðdáendum kerfisins. En frv. fer til hv. sjútvn. sem leitar væntanlega svara við ýmsum spurningum sem hafa komið upp í umræðunni. Þá er auðvitað nauðsynlegt að nefndin ræði ítarlega við Landssamband smábátaeigenda og hlusti grannt á tillögur þeirra um stjórn veiðanna. Það hlýtur að skipta miklu máli hvernig þeir sem starfa í greininni vilja standa að því að veiða þann afla sem er til skiptanna.