Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 14:46:01 (410)


[14:46]
     Svanfríður Jónasdóttir :
    Virðulegi forseti. Í stefnuræðu forsrh. kom fram að í nýafstöðnum kosningaslag hefði þingmönnum gefist fjölmörg tækifæri til að eiga skoðanaskipti við fjölda kjósenda. Eins og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Við tókum eftir því að nokkurs óróleika gætir um skipan sjávarútvegsmála víða um landið. Það þarf ekki að koma á óvart að farvegur óánægju og gagnrýni í þessum mikla málaflokki sé margslunginn. Skoðanir eru mjög skiptar og fara eftir aðstæðum á hverjum stað, nálægð við fengsæl mið hefur áhrif á afstöðu manna svo og með hvaða hætti uppbyggingu skipaflota og vinnslu í landi er háttað.
    Ríkisstjórnin leggur áherslu á að sjávarútvegurinn búi við festu í starfsskilyrðum og þar sé ekki tjaldað til einnar nætur. Á hinn bóginn verður leitast við að bregðast við þeirri gagnrýni og þeim umkvörtunarefnum sem mest bar á í kosningabaráttunni.``
    Þegar verkefnaskrá sjútvrn. var síðan birt held ég að við hljótum öll að hafa ályktað sem svo að þar væri að finna eitthvað af þeim svörum sem ríkisstjórnin vildi veita við þeirri gagnrýni eða þeim spurningum sem höfðu komið fram í kosningabaráttunni. Vissulega er þar eitthvað af svörum eða einhver drög að svörum en betur má ef duga skal. Þær spurningar og sú gagnrýni á kerfið sem ég heyrði í nýliðinni kosningabaráttu var af ýmsum toga. Það var gagnrýni á fiskveiðistjórnunarkerfið, sem er alltaf viðvarandi, en þegar grannt var hlustað var fólk ekki endilega að gagnrýna aflamarkskerfið heldur miklu fremur framkvæmd þess varðandi einstaka þætti. Það var að gagnrýna agnúa sem hafði ekki verið tekist á við og hafa e.t.v. ekki mikið með aflamarkskerfið að gera. En það var jafnframt afar hávær gagnrýni á þann hluta kerfisins sem er ekki hluti af aflamarkskerfinu. Gagnrýni sem var mjög hávær og áberandi var sú að fiski væri hent. Í 20. gr. reglugerðar um veiðar í atvinnuskyni segir, með leyfi forseta, ,,að skylt sé að koma með allan afla að landi sem markaður er fyrir``. En jafnframt kemur fram í lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla að greiða skuli sérstakt gjald fyrir veiðar eða viðskipti með ólögmætan sjávarafla. Það hefur verið svo að menn hafa mátt sæta refsingum ef þeir hafa álpast til þess að veiða fisk sem var ekki í þeirra kvóta eða passar ekki því sem lög og reglur mæla fyrir um. En auðvitað viljum við leita leiða til að allur fiskur komi að landi. Það er alveg ljóst að gagnrýni á það að fiski sé hent verður æ háværari eftir því sem þrengt er að okkur varðandi veiðiheimildir. Eftir því sem afli minnkar verður umræðan um umgengni um auðlindina meiri, hún verður ákafari og kröfur fólks um að allur afli komi að landi verða háværari. Þá hljótum við að leita annarra leiða en þeirra sem þegar hefur verið leitað vegna þess að ef það er svo að fiski er enn hent þrátt fyrir þær leiðir sem þegar hafa verið reyndar eru þær einfaldlega ekki nógu góðar.
    Virðulegi forseti. Ég held að við verðum að reyna að laða fram samstarf við sjómenn í þessu efni. Við verðum að umbuna mönnum með einhverjum hætti fyrir það að koma með afla að landi. Sjómenn vinna ekki kauplaust frekar en aðrir og við hljótum að spyrja hvar markaðurinn fyrir fiskinn sé. Það er alltaf afstætt hvar markaður er fyrir fisk, það er alltaf afstætt hvað er markaður og hvar hann er fyrir tegundir sem menn koma ekki með að landi. Það var ekki markaður fyrir grálúðu meðan menn komu ekki með hana að landi, á meðan hún kom í rækjutroll og var hent, og einu sinni var ekki heldur markaður fyrir humar. Svo var auðvitað um ýmislegt fleira.
    Ég held að þetta mál verði að taka til mjög alvarlegrar skoðunar. Í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar eða sjútvrn. réttara sagt stendur, með leyfi forseta: ,,Haldið verði áfram vinnu við að bæta umgengni um auðlindir sjávar í samvinnu við sjómenn og útvegsmenn og sett löggjöf til að tryggja ábyrga umgengni um auðlindina.``
    Ég vænti þess að þegar kemur að útfærslu þessarar greinar verði haft um það víðtækt samráð hvernig verður farið í það til þess að niðurstaðan gæti orðið önnur en sú sem við höfum því miður orðið vitni að.
    Það er reyndar svo að menn greinir mjög á um það hversu mikið þetta er en öll umræða er þess eðlis að hana ber að taka alvarlega. Ég heyrði líka aðra gagnrýni í kosningabaráttunni og hún var varðandi eignarhaldið á auðlindinni, varðandi braskið með hina sameiginlegu auðlind. Menn töluðu um veiðileyfagjald sem væri réttlætismál, veiðileyfagjald til að undirstrika eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni og til að ná sátt um kerfið. Já, ýmsir meta það sem svo að það sé réttlætismál sem mundi draga úr deilum um fiskveiðistjórnunarkerfið enda hafa ýmsir útgerðaraðilar þegar komið auga á það.
    Í verkefnaskrá sjútvrn. kemur fram að vilji er til að kanna möguleika á að koma á sveiflujöfnun í sjávarútvegi. Ég vil því ítreka þá spurningu sem ég varpaði fram í umræðum um stefnuræðu forsrh.: Er þar verið að gefa fyrirheit um enn aukna ríkisforsjá í atvinnulífinu með verðjöfnunarsjóð að gamla laginu eða hyggst ríkisstjórnin koma á veiðileyfagjaldi og láta þá sem nýta auðlindina greiða fyrir afnotin? Með góðri útfærslu getur slíkt gjald dregið úr sveiflum og hamlað gegn óæskilegri hækkun raungengis en það

er væntanlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um hagstætt raungengi.
    Ég heyrði líka gagnrýni á að kvóti flyttist á milli byggðarlaga. Að sjómennirnir séu tortryggnir gagnvart útgerðaraðilum og óttist að vera hlunnfarnir. Talað er um mismunandi kjör og verðmyndun og allt þetta sjá menn opinberast í þeim átökum sem eiga sér stað á milli útgerðarmanna og sjómanna. Þar snýst málið um verðmyndun og þar endurspeglast í rauninni sú tortryggni sem hefur verið að grafa um sig varðandi þá verðmyndun sem viðhöfð hefur verið í sjávarútvegi þar sem menn hafa alls ekki setið við sama borð.
    Í verkefnaskrá sjútvrn. er í 4. lið fjallað um verðmyndun á sjávarafla og þar er talað um að hún verði tekin til endurskoðunar og metið hvaða leiðir séu færar til að leiðrétta það misgengi sem orðið hefur innbyrðis á launakjörum sjómanna. Því væri fróðlegt að vita hvort það mat hefur farið fram, hvort sjútvrn. hefur séð ástæðu til þess nú í yfirstandandi vinnudeilu. Það hlýtur að vera einhvers virði fyrir þá sem þar eigast við að vita hver skoðun ríkisstjórnarinnar er í málinu. Ekki er hægt að lesa það út úr 4. liðnum en vissulega eru þarna gefin ákveðin fyrirheit um það að menn ætli sér að athuga þessi mál og menn ætla að gera það með einhverja sanngirni í huga.
    Það er alveg ljóst að sjómenn hafa farið fram á það að allur afli færi á markað. Vissulega leysir það ýmsa þá ágalla sem menn tala um í sjávarútvegi í dag, það leysir ýmist þau vandamál sem eru uppi, vandamál sem menn kenna kvótakerfinu um. Enda þótt ýmislegt megi finna því til foráttu er það nú svo að það er ekki hægt að kenna því um alla hluti, t.d. ekki það hvers konar verðmyndun er hér á sjávarafla. Ef fiskur yrði seldur um fiskmarkaði mundi það vissulega leysa ýmis þau mál sem gagnrýnd voru í nýliðinni kosningabaráttu, þ.e. þau mál sem valda nú erfiðleikum í sjávarútvegi.
    Það vandamál sem menn ræða gjarnan um, að kvóti flytjist á milli byggðarlaga, að farið sé á svig við forkaupsréttarákvæði það sem sveitarfélögunum er helgað í lögum, að sveitarfélögunum sé stillt upp við vegg, mundi leysast með því að fiskur væri seldur um fiskmarkaði. Við hljótum að spyrja: Er ekki verið að veiða fisk eða afla fiskvinnslu hráefnis til fiskiðnaðar? Er ekki verið að afla hráefnis til matvælavinnslu?
    Það væri mjög mikils virði að þeirri kvöð yrði létt af sveitarfélögunum að leggja svo og svo mikið fé í útgerð og kvótakaup. Sala um fiskmarkaði gerir það nefnilega að verkum að það skiptir ekki höfuðmáli hvar skrásetningarnúmer skipsins er, hvort það er skrásett á Suðurnesjum eða á Austurlandi. Það sem skiptir máli er hvaða fiskvinnsla er nógu öflug til að kaupa þann afla sem er til sölu er. Fiskur er fluttur landshorna á milli með bílum. Það hefur verið gert mjög lengi, það var gert fyrir kvótakerfið og það er gert í enn auknum mæli og það verður gert áfram. Skráning skips í tiltekna höfn tryggir því ekki endilega fiskvinnsluna á staðnum. Ef menn treystu sér til þess að taka upp fiskmarkaði sem meginreglu varðandi viðskipti með fisk, ef menn treystu sér til þess að gefa fyrirheit um slíkt að það yrði gert í áföngum mundi það breyta miklu. Það tryggði eðlilega verðmyndun og sú tortryggni sem gætt hefur undanfarin ár í samskiptum sjómanna og útgerðarmanna minnkaði. Sú markaðstenging sem menn hafa verið að þreifa sig inn í hefur fært sjómönnum einhvern ábata í launum en er afskaplega takmörkuð lausn vegna þess að það er alveg ljóst að fiskvinnsla sem ekki getur sérhæft sig í vinnslu hefur heldur ekki efni á því að kaupa dýran fisk. Það verður að haldast í hendur að menn taki upp sérhæfingu og hafi í leiðinni efni á því að greiða hærra verð fyrir fiskinn.
    Auk þess mundu fiskmarkaðir tryggja betri nýtingu hráefnis og þeir eru mikilvægir fyrir nýsköpun í vinnslu sjávarafurða. Það verður aldrei of oft undirstrikað að sérhæfing er nauðsynleg í fiskiðnaði til að auka arðsemi og bæta starfskjör rétt eins og í öðrum iðnaði. En fiskmarkaðir eru ein af forsendum þess að sérhæfing aukist. Auk þess eru fiskmarkaðir trygging fyrir því að nýliðar í fiskvinnslu hafi einhvern aðgang. Það er dálítið merkilegt að þeir sem virðast vera sem mest á móti því að afli sér seldur um fiskmarkaði eru einmitt þeir útgerðarmenn sem fengju hæst verð við slíka breytingu. Þegar okkur finnst svo augljóslega að hagsmunir gangi ekki upp vegna þess að við lítum þannig á að það hljóti að vera hagsmunir útgerðar að fá sem hæst verð fyrir sinn fisk veltum við því auðvitað fyrir okkur hvaða aðrir hagsmunir séu þá á ferðinni.
    Hvaða aðra hagsmuni er þá verið er að verja? Við höfum í forundran undanfarið fylgst með átökum sölusamtakanna, sem skammstöfuð eru með ÍS og SH, átökum varðandi það að öðlast fótfestu með eignarhaldi í hinum ýmsu fiskvinnslufyrirtækjum. Eru þau þannig að tryggja sér aðgang að auðlindinni, aðgang inn í kvótann? Er það e.t.v. skýringin á því að það má ekki breyta fyrirkomulagi varðandi verðmyndun eða verslun með fisk? Er það skýringin á því að menn eru svo mjög á móti því að það sé verslað með fisk um markaði? Riðlar það einhverju valdakerfi sem ekki má hagga?
    Eins og ég gat um áðan var sá hluti fiskveiðistjórnunarkerfisins sem ekki er kvótakerfi gagnrýndur harðlega en það er banndagakerfið, hvernig það kom út og hverjar aðstæður þeirra manna voru sem bjuggu við banndagakerfi en gátu aldrei róið þegar það mátti. Þar erum við komin að því frv. sem hér liggur fyrir og er til umræðu vegna þess að sú gagnrýni virðist strax hafa náð eyrum ríkisstjórnarinnar.
    Þegar farið er að skoða það frv. þá blasir margt merkilegt við. Þegar við lesum frv. yfir og byrjum á 1. gr. þá hljótum við að velta fyrir okkur af hverju þessi áhersla er lögð á að stjórna skipastærð og skipagerð fyrir útgerðarmenn á aflamarki. Er það ekki aflamarkið, eru það ekki veiðiheimildirnar sem eiga að ráða því hversu mikið er sótt og er það þá ekki viðkomandi útgerðar að meta það með hvernig skipi hagfelldast sé að sækja þann afla að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru vegna öryggis, hreinlætis eða

annars sem lýtur að aðbúnaði manna og meðferð afla? Er ekki hér um ofstjórn eða miðstýringaráráttu að ræða sem er leifar af sóknarstýringarkerfinu? En nú búa menn við aflamarkskerfi og verða að treysta útgerðarmönnum til að vinna í því. Ég vil hér lýsa þeirri skoðun að ef menn telja breytinga þörf þá sé eðlilegast að þetta fari alfarið út úr lögunum. Það er hins vegar mun eðlilegra að menn reyni að takast á við stækkun eða reyni að hemja stærð þess flota sem er inni í sóknarstýringarkerfi eins og banndagakerfinu því það ásamt dagafjöldanum er virkasta stýritækið. En er aflamarkið ekki stýritækið í aflamarkskerfinu? Þarf að ráða fleiru fyrir útgerðarmenn? Geta þeir ekki sjálfir ákveðið með hvernig skipum er hagfelldast að sækja þann afla? Eru menn hér ekki búnir að gleyma sér í stjórnun á hlutum sem aðrir eiga að taka ákvarðanir um og eru áreiðanlega mun betur til þess fallnir en stjórnmálamenn?
    Virðulegi forseti. Mín skoðun er sú að þetta ákvæði laganna væri best geymt á þeim ruslahaug sögunnar sem merktur er ofstjórn og ríkisforsjá.
    Þegar komið er að 2. gr. frv., og þar vil ég í leiðinni fjalla um ákvæði til bráðabirgða I sem lýtur að aflamarksbátunum, þá eru þar tilraunir til leiðréttinga. Þar eru settir upp tilteknir kostir og mönnum er gefið þar samkvæmt orðanna hljóðan ákveðið val um það í hvers lags kerfi þeir vilja vinna. Það er þá ljóst miðað við frv. eins og það liggur fyrir nú að það val getur ekki legið alls kostar fyrir þar sem enn er ýmislegt á floti varðandi það hvaða kostir það muni verða sem menn eigi eða geti tekið tillit til.
    Ég hygg að flestir séu sammála um það sem segir í athugasemdum við lagafrv. á bls. 4, með leyfi forseta:
    ,,Ljóst er að niðurskurður veiðiheimilda og þá sérstaklega þorskaflaheimilda hefur skapað mikla erfiðleika í sjávarútvegi, sem sjávarútvegurinn hefur þurft að takast á við með margvíslegum hætti. Í þeirri glímu hefur atvinnugreinin sýnt mikla aðlögunarhæfni og frumkvæði og í heild náð að styrkja stöðu sína við þessar erfiðu aðstæður. Það hefur tekist á þeim grundvelli sem ríkjandi fiskveiðistjórnun hefur skapað.
    Það hefur þó sýnt sig að mismunandi greinar útgerðarinnar hafa átt misjafnlega auðvelt með að nýta sér þau sóknarfæri sem hafa skapast, svo sem eins og veiðar á öðrum tegundum en þeim sem bundnar eru aflamarki og veiðar á fjarlægum miðum. Hefur einkum verið bent á erfiðleika minni aflamarksbáta og skipa í þessu sambandi.``
    Eins og ég sagði, virðulegi forseti, hygg ég að flestir geti tekið undir þetta.
    En við getum velt því fyrir okkur hvort þær hugmyndir --- ég leyfi mér að nefna það svo --- sem fram eru settar í 2. gr. frv. og ákvæði til bráðabirgða I í frv. eru nægjanlegar til að mæta þeim erfiðleikum sem þarna er lýst. Það er alveg ljóst að þessar hugmyndir eru góðra gjalda verðar en það vantar dæmi, það vantar í rauninni að menn sjái hvernig þetta muni virka til þess að hægt sé að taka til þess afstöðu. Það er þó ljóst að það kerfi róðradaga sem fjallað er um er það sem ég vildi gjarnan geta stutt og það er ekki búið að sannfæra mig um að það séu slík vandkvæði á eða það kosti svo mikla peninga að ekki sé hægt að koma því á. Jafnvel þó að menn séu að tala um 100--200 millj. sem kostnað þá vil ég segja að það hefur öðru eins verið til kostað í íslensku atvinnulífi af minna tilefni.
    Virðulegi forseti. Ég held að við hljótum að kosta kapps um að gera það kerfi, sem við ætlum nú að láta taka við af því banndagakerfi sem menn eru greinilega búnir að sammælast um að jarða, verði þannig að það verði viðunandi umgjörð fyrir þá sem það kjósa. En eins og ég sagði, eins og þetta liggur fyrir í frv. er erfitt að taka til þess afstöðu. Af því að hér er um tæknilega útfærslu að ræða, þá vantar í rauninni þau dæmi og þá vinnu sem þarf að fara fram áður en að hægt er að taka til þess afstöðu.
    Það sem vakti hins vegar óskipta athygli mína þegar ég las frv. áfram var ákvæði til bráðabirgða II. Það er að nú á Byggðastofnun að fara að úthluta veiðiheimildum. Þegar það bætist við að landbrn. er farinn að fjalla um tolla þá hljótum við að velta fyrir okkur hvernig íslenska stjórnskipunin er að þróast. Ég hlýt líka að spyrja, virðulegi forseti: Er hér einn jólasveinasjóðurinn enn, eða hvað? Hvaða klastur er hér á ferðinni? Er þetta ekki áreiðanlega, virðulegi forseti, frv. um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða?
    Ég hlýt að spyrja: Hvað með framsal ráðuneytisins á úthlutunarrétti? Og í framhaldi af því: Hvað næst? Á hvað er verið að opna? Getur ráðuneytið framselt úthlutunarvaldið með þessum hætti? Og ég hlýt þá að spyrja einnig: Er þá eðlilegt að það sé framselt í hendur pólitískt kjörinnar stjórnar þar sem meiri hluti hefur jafnan verið skipaður starfandi alþingismönnum og ætla má að svo verði áfram? Að framkvæmdarvaldið með þessum hætti afsali úthlutunarréttinum í hendur stjórnar sem er skipuð aðilum sem fyrst og fremst voru kjörnir til að gegna löggjafarstörfum og munu væntanlega verða hluti þeirra sem samþykkja þetta frv. hér ef að lögum verður.
    Samkvæmt 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða er það markmið laganna að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu auðlindarinnar og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Nú er það svo að það er alltaf í gangi, og það er eilíft viðfangsefni og í rauninni ákveðinn drifkraftur bæði í umræðunni og þróun atvinnugreinarinnar, sú togstreita sem er um það að hve miklu leyti við reynum að tryggja hámarksafrakstur því hér er jú um okkar undirstöðuatvinnugrein að ræða og við verðum að gera til hennar ríkar kröfur og að hve miklu leyti við tökum tillit til einstakra byggða eða atvinnusjónarmiða.
    Samkvæmt þeirri grein sem ég vitnaði til áðan er klárlega tekið tillit til þess í lögunum að menn kynnu að vilja grípa til aðgerða til hliðar við þau fiskveiðistjórnunarkerfi sem við alla jafnan beitum vegna

þess að þær aðstæður kynnu að skapast sem réttlættu slíkt í sjálfu sér og þess vegna í lagi að hafa viðlagaákvæði í lögunum sem yrði virkt við einhverjar þær kringumstæður sem réttlættu slík frávik. Ég vil þar vísa í 9. gr. laga um stjórn fiskveiða þar sem eru eins konar viðlagaákvæði varðandi þau 12.000 þorskígildistonn sem til ráðstöfunar eru til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda. En það á þá að vera á ábyrgð sama aðila og önnur stjórn fiskveiða í landinu. Annars eru menn farnir að sullast of ógætilega með fjöreggið. Því eins og ég spurði áðan: Hvað næst? Verður það félmrn. vegna þeirra sveitarfélaga sem ekki hafa efni á að neyta forkaupsréttar og horfa eftir skipum til skrásetningar í öðrum byggðarlögum? Eða e.t.v. biskupsstofa svona sem lið í að efla kristindóminn í landinu þar sem hugsanlega yrði úthlutað samkvæmt því kerfi sem praktíserað var í víngarði drottins þar sem allir fengu jafnt hversu seint sem þeir mættu til leiks. ( Sjútvrh.: Postularnir voru nú fiskimenn.) Rétt. En þeir voru ekki mikið að störfum í víngarðinum. En alla vega er þessi aðferð mjög hættuleg hvað það varðar að skapa tortryggni gagnvart greininni, tortryggni gagnvart úthlutun veiðiheimilda og enn frekari deilur og gagnrýni á okkar fiskveiðistjórnun. Ég held, virðulegi forseti, að það væri mikils virði að við reyndum að vinna að þessum málum þannig að við a.m.k. gerðum okkur ekki leik að því að búa til þess háttar ákvæði sem til þess eru beinlínis fallin.
    Nei, ég held að hér verðum við að stöðva við og athuga okkar gang. Það er klárt hver það er samkvæmt lögunum sem gefur út reglugerðina um veiðar. Það er ljóst hvaða stjórnvald á að bera hér ábyrgð og það á að vera ljóst áfram.
    Ég endurtek að það er eðlilegt og sjálfsagt að menn hafi viðlagaákvæði í lögunum um stjórn fiskveiða. Það er eðlilegt að menn geti gripið til ráðstafana. Við þekkjum það öll í okkar fámenna samfélagi að ef hlutir þróast með þeim hætti þá viljum við geta gripið inn í en það á að vera alveg ljóst á hvers forræði það er. Hverjir gefa góð ráð eða eru með leiðbeinandi reglur, það getur verið annað mál en það á ekki að vera í lögunum um stjórn fiskveiða.
    Virðulegi forseti. Menn tala um það að stjórnkerfið ráði fiskveiðiarðinum og það er mikilvægt fyrir okkur, þjóð sem hefur fiskveiðar og fiskvinnslu sem undirstöðuatvinnugrein að við stjórnum okkar fiskveiðum þannig að það sé sátt um það fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum, að við gerum hlutina þannig að menn eigi auðvelt með að vinna innan kerfisins, að menn geti náð þeim hámarksafrakstri af greininni sem við þurfum að ná vegna þess að hér er um okkar undirstöðuatvinnugrein að ræða og við þurfum þess vegna að vanda okkur. Það er líka mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að breytingar á þessu stjórnkerfi geta og hafa leitt til flutnings á hlutdeild í afla og milli þeirra sem hafa fengið rétt til þess að veiða og ein málsgrein í svona frv. getur líka haft áhrif á búsetuþróun eða samsetningu á stærð fiskiskipaflotans án þess að menn hafi endilega ætlað sér þær breytingar þegar verið var að fjalla um viðkomandi lagafrv. eða samþykkja sem lög. Einfaldlega vegna þess að eins og margoft hefur komið fram eru íslenskir útgerðaraðilar og íslenskir sjómenn afskaplega ötul, dugleg og hugmyndarík stétt eða hópur og menn hafa með undraverðum hraða á hverjum tíma náð að aðlagast breytingum á kerfinu, vinna með þeim sér í hag. Þess vegna þurfa reglurnar helst að vera einfaldar og gegnsæjar. Og menn ættu að varast að gata kerfið um of því við það glatar það þeim möguleikum að þjóna markmiði sínu sem er, eins og ég gat um áður í 1. gr. laganna, að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu fiskimiðanna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.