Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 15:43:24 (413)


[15:43]
     Einar Oddur Kristjánsson :
    Hæstv. forseti. Eins og margsinnis hefur komið fram í þessari umræðu í dag þá eru þau frv. sem hér liggja fyrir grunduð á þeirri vinnu sem stjórnarflokkarnir lögðu á sig í upphafi þeirra stjórnartímabils, þar sem segir að fjögur atriði séu þannig vaxin að þau þoli enga bið. Það sé rétt að taka á þeim núna á vordögum. Þessi fjögur atriði koma fram í frv. og það er rétt að taka það fram að í flestum atriðum er ég þeim mjög sammála. Þó eru þar atriði sem orka dálítið tvímælis, þ.e. eins og menn sjá þegar þeir lesa 2. gr. frv. eru þar valkostir sem mættu vera skýrari. En í ákvæði til bráðabirgða III segir að ráðherra geti sett upp nýjar reglur um róðrardagakerfið.
    Ég tel að frá því þetta frv. var prentað og frá því var gengið hafi enn bæst við verulegar upplýsingar sem gefa til kynna að þetta sé mjög vel framkvæmanlegt og því held ég að ég geti alveg tekið undir með hv. 4. þm. Norðurl. e. um að það væri æskilegt að frv. sneri öðruvísi, þ.e. valkosturinn væri róðrardagakerfi en til bráðabirgða væri þá sett inn ákvæði þar sem ráðherra væri heimilt að framlengja banndagakerfið ef einhverjir tæknilegir örðugleikar reyndust á því að framkvæma hitt. Hann er eins og alþjóð veit formaður sjútvn. svo það ættu að vera hæg heimatökin að athuga í nefndinni hvort ekki næst samkomulag um að hafa þetta á þennan veg. Ég er alveg viss um það að fyrir sjómenn, fyrir þá sem standa frammi fyrir valinu er miklu betra að hafa þessa kosti alveg skýra. Það er val á milli þess að vera í banndagakerfi áfram með þaki eða fara inn í róðrardagakerfið. Vonandi næst um þetta samkomulag, við skulum vona það og ég tek undir hans orð um þetta.
    Það má öllum vera ljóst að þeir kostir sem krókaleyfisbátar hafa í þessari stöðu eru allir vondir. Þeir eru allir mjög vondir. Mér hafa fundist ummæli manna um það hvernig eigi að bregðast við dálítið skondin og næ því ekki alveg og átta mig ekki alveg á því hvern veg menn vildu annan fara en þann sem kemur hér fram af þessum breytingum sem ég sagði frá áðan.
    Ég held og hef haldið því fram lengi að það væri alveg skelfilegt ef það henti okkur að fara inn í næsta vetur með þetta banndagakerfi verði lögunum ekki verið breytt sem við skulum vona að gerist núna. Með óbreyttum lögum held ég að þetta hefði orðið óbærilegt. 90--100 nýir banndagar hefðu orsakað slíka

skelfingu í sókninni að ég held að enginn vilji á því bera ábyrgð. Ég er viss um það. Þess vegna skil ég ekki alveg þegar menn fordæma þessar tillögur, telja þær einskis verðar. Ég tel þvert á móti að þessar tillögur séu þó tilraun til þess að leysa þennan vanda, veruleg tilraun, sérstaklega ef okkur tekst að setja róðrardagakerfið á nú þegar í haust. Róðrardagakerfið gefur mönnum allt aðra möguleika og það er allt annað við þetta að fást ef við losnum við vetrarsóknina hjá smábátunum. Það er allt annað um að tala.
    Menn hafa gagnrýnt það líka að verið sé að setja aflamark á smábátana. Menn hafa fundið þar fingraför formanns LÍÚ o.fl. Ég skal ekki segja hvort það eru hans fingraför en mönnum þótti það rétt í þeim samningum sem gerðir voru að gefa mönnum kost á þessu. Eins og segir í samþykktinni í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar átti að reyna að varðveita afkomu þeirra sem helst hafa atvinnu sína af þessu.
    Nú á ég von á því að menn velji og þá er kannski ekkert við því að segja þó að einhverjir telji hag sínum betur borgið með því að velja banndagana með þakinu en hitt. Þá er það þeirra eigin val, þeir eru þannig að tryggja sinn hag betur. Enda er það verulegur áfangi frá því sem áður var í lögunum að það er bara verið að tala um hámark á þorsk. Aðrar tegundir eru frjálsar en í óbreyttum lögum er gert ráð fyrir að þorskígildin orsaki fleiri banndaga árin á eftir. Þetta er veruleg breyting.
    Það má öllum vera ljóst að þessi fjögur atriði sem tekin eru hér fyrir eru hin minni mál, þó þannig vaxin að menn vildu ekki geyma þau til haustsins, þau voru þess eðlis. Stóru málin bíða. Þau bíða til haustsins þegar menn telja sig hafa til þess tíma að ræða þau. Þar á meðal, eins og þeir sem hafa fengið verkefnaskrána geta séð, er endurskoðun á heildarlöggjöfinni um fiskveiðarnar.
    Mér þykja því sérstaklega ummæli hv. 15. þm. Reykv. nokkuð óþörf vegna þess að hér er ekki verið að taka á þeim hlutum nema örfáum smáatriðum. Bæði honum og öðrum hefði mátt vera ljóst að á þessu vorþingi ætlaði enginn að fara að ræða fiskveiðistefnuna til hlítar. Það hefði aldrei verið tími til og stóð aldrei til hjá nokkrum manni. Hitt get ég sagt honum líka að það liggur fyrir, og geta allir fengið aðgang að því, hvað vestfirskir frambjóðendur Sjálfstfl. lögðu til fyrir þessar kosningar. Þá var það gert að leggja fram heilsteypta stefnu um það hvað skyldi gera í fiskveiðimálum. Í stað þess að halda áfram aflamarkskerfinu þá skyldum við hverfa frá því því að okkur þótti sýnt að það kerfi sem hefur núna verið í 11 ár og ég held fimm eða sex ríkisstjórnir, eftir því hvernig við teljum þær, hafa stutt hefur leitt að okkar dómi til hins mesta ófarnaðar. Og ég veit ekki betur en hv. 15. þm. Reykv. hafi verið ráðherra í síðustu ríkisstjórn, staðið að þeim lagasetningum sem þar voru gerðar, m.a. þessu banndagakerfi hinu skelfilega og hann hældist svo mjög um. Hann var þar, hann var meira að segja ráðherra í þeirri ríkisstjórn, umhvrh., og lagði gjörva hönd á margt þar þó fræg sé friðun hagamúsanna.
    Ég tel rétt að bíða með það til haustsins að ræða í heild fiskveiðistefnuna, en vil þó vekja á því athygli að ég hef ekkert látið deigan síga í baráttunni gegn þessu kerfi. Það er af og frá. Ég nota hvert tækifæri til þess að sýna mönnum fram á hvaða voði er á ferðinni, hversu mikil sóun hér er á ferðinni. Og ef hann spyr mig um stefnu hæstv. sjútvrh., Þorsteins Pálssonar, þá get ég sagt honum það að við höfum þekkst lengi, við Þorsteinn, og það hefur aldrei farið milli mála að við höfum verið mjög ósammála hvern veg við ættum að ganga í stjórn fiskveiða, geysilega mikið ósammála. Það hefur aldrei farið neitt á milli mála. En ég hélt að það þyrfti ekki að vera að ég bæri ekki fullt traust til hæstv. ráðherra. Ég get t.d. rifjað það upp fyrir hv. 15. þm. Reykv., sem ég man ekki hvað er búinn að vera lengi í þessum alkunna, eina sanna jafnaðarmannaflokki, en í sögu þess flokks er dæmi þess að eitt sinn var þar vaskur foringi sem hét Gylfi Þ. Gíslason. Í 12 ár sat hann í svokölluðum viðreisnarríkisstjórnum. Allan tímann reyndi hann af fremsta megni að leiðrétta stefnuna í landbúnaðarmálum, hélt ótrauður áfram, varð lítið ágengt en það var aldrei spurt að því hvort hann styddi ekki ríkisstjórnina. Ég held að það sé alveg klárt. Hann var aldrei spurður að því og ég held að í sögu Alþfl. verði engar slíkar vífilengjar eða efasemdir um það að hann hafi skort kjark eða verið maður ekki heill vegna þess að hann hefði aðra skoðun í mjög mikilsverðu máli en studdi þó þá stjórn.
    Það mega allir vita að baráttunni fyrir því að opna augu manna í fiskveiðimálunum, hversu óskaplega mikið er hér um að vera, verður haldið áfram. Í mínum augum var það svo að þetta banndagakerfi sem við vorum núna að taka fyrir var skelfilegt og það er aðalmálið að reyna að hugsa til framtíðar. Það er verið að gera það í þessu frv. sem hefur ekki verið gert áður.
    Öllum mátti vera það ljóst fyrir tíu árum hvert stefndi. Enginn tók á málinu. Það hefur verið látið viðgangast allan tímann að sóknarmáttur flotans væri að aukast í hverjum mánuði, hverri viku. Enginn hefur gert neitt í því. Þegar samþykkt voru ný lög um Þróunarsjóðinn fyrir ári síðan og ákveðið að láta milljarða til þess að brjóta niður skip og minnka fjárfestinguna í sjávarútvegi þá var krókaleyfið undanskilið. Hvar var þá hv. 15. þm. Reykv.? Kom hann þá með tillögur um að breyta þessu? Kom hann með tillögur um það að reyna að stoppa afkastaaukninguna? Ég veit það ekki, hann segir mér frá því.
    Það er rangt sem menn eru að segja að hér sé verið að fara inn á hættulegar brautir. Ráðuneytið hefur hingað til litið þannig á orðið ,,sambærilegt`` í lögunum í framkvæmd og reglugerð að þeir hafa tekið rúmmál á móti rúmmáli. Nú er gert ráð fyrir því, eins og ég skil þessi lög, að það sé ótvírætt að ráðherranum sé heimilt að setja nánari reglur um endurnýjun skipa sem hljóta þá að vera innan ramma laganna um að sambærilegt skip sé á ferðinni. Og eins og menn vita þá hefur ráðuneytið einmitt verið að vinna að því með tæknideild Fiskifélags Íslands að meta það og setja upp stuðla fyrir því.
    Ég bendi mönnum á að ekki er nóg að segjast vera á móti því að setja upp þessa stuðla. Það er

ekki nóg að hneykslast á því að það eigi að brjóta niður skip eða kaupa upp skip í úreldingarsjóðnum. Hvað vilja menn þá? Vilja menn halda áfram og það þrengi endalaust að þeim mönnum sem eru að gera út á krókaleyfinu? Hvar endar þetta? Er það á 100 dögum, 50 dögum, 10 dögum? Nei, þetta stefnir í það. Ef við erum að vinna raunhæft að þessu máli hljótum við að vera að vinna að því að þessir menn hafi lífsrými þannig að þeir geti stundað sína útgerð. Þess vegna erum við að reyna að úrelda. Þess vegna erum við að reyna að hefta innstreymi skipa með mikinn sóknarmátt.
    Við ætlum ekki að blanda þessu saman við karp manna um hvað menn voru að segja fyrir kosningar. Hér er um alvarlega hluti að ræða sem verður að koma í veg fyrir að þessum lögum, eins og ýmsir hældu sér af fyrir ári síðan að fengju fram að ganga, var nauðsynlegt að breyta. Hitt er svo annað mál að það er allt í lagi að ræða það hvað gerðist fyrir kosningar. Við sjálfstæðismennirnir sögðum frá því á Vestfjörðum að við ætluðum að berjast fyrir því innan okkar flokks að reyna að breyta stefnu Sjálfstfl. í þessum málum. Þá var það svo að þar var í framboði hv. 4. þm. Vestf. sem því miður er ekki staddur hér núna. Honum fannst þetta hörmulegt hlutskipti hjá aumingja sjálfstæðismönnunum að eiga eftir að berjast fyrir því í Sjálfstfl. að breyta stefnunni. Það var munur fyrir frambjóðendur jafnaðarmannaflokksins. Þeir þurftu ekki að gera það því að Alþfl. væri búinn að þessu, hann væri hættur að styðja kvótakerfið. Okkur öllum á Vestfjörðum þótti þetta hin mestu tíðindi og nú bíðum við þess annaðhvort í vor eða haust að sá stóri sannleikur komi fram.
    Ég tók eftir því að 15. þm. Reykv. gat ekkert um málflutning vopnabróður síns og svarabróður af Vestfjörðum þannig að ég vildi bæta hér um . . .


    ( Forseti (GÁ) : Háttvirtur.)
    Háttvirtur. Ég biðst afsökunar, ég er óvanur ýmsu hér. Það kemur vonandi. Og við erum meira að segja svo bjartsýnir, hv. 15. þm. Reykv., að við ætlum að halda þessari baráttu áfram og þó að hæstv. sjútvrh., Þorsteinn Pálsson, sé ötull maður og hinn besti þá erum við ekki það miklir svartsýnismenn að það sé mælikvarði á að hann sé ósigrandi að Össur Skarphéðinsson, 15. þm. Reykv., hafi ekki haft hann undir.