Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 16:10:54 (416)


[16:10]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 15. þm. Reykv. fyrir undirtektir við mína ræðu og vil að sjálfsögðu vekja athygli á því að það þarf ekki nokkrum undrum að sæta að hér komi fram athugasemdir, ábendingar og hugmyndir til hv. sjútvn. Til þess erum við í þinginu að ræða málin þó að hér sé stjfrv. sem er verið að fara yfir og nefndir þingsins eru til þess að skoða málið og kalla til þá sem best þekkja í þjóðfélaginu þannig að við getum síðan komist að þeirri bestu niðurstöðu sem völ er á. Ég vona svo sannarlega að alþýðuflokksmenn og þar á meðal hv. 15. þm. Reykv. liggi ekki á liði sínu við að þetta frv. nái fram að ganga og lögin verði sem allra best úr garði gerð. Mér heyrðist að hv. þm. væri vissulega reiðubúinn til þess að styðja stjórnarflokkana í því.