Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 16:12:11 (417)


[16:12]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Við myndun þessarar ríkisstjórnar kom það fram sem mikið áhersluatriði allmargra þingmanna að það væri nauðsynlegt að setja fram með skýrum og afmörkuðum hætti í verkefnaskrá þegar við myndun ríkisstjórnarinnar hvaða leið menn vildu stefna í sjávarútvegsmálunum. Þetta var m.a. gert af biturri reynslu margra þingmanna sem máttu lúta því í tíð síðustu ríkisstjórnar að samkomulag var þannig milli stjórnarflokkanna að okkur tókst ekki að finna neina niðurstöðu í neinu máli sem sneri að fiskveiðistjórnuninni fyrr en liðnir voru að ég held nokkur hundruð dagar frá því að ríkisstjórnin var mynduð, mig minnir um 1.000 dagar frá því að ríkisstjórnin var mynduð þangað til að lögin voru að lokum samþykkt. Við máttum lúta því að búa við þetta ástand mánuðum og árum saman. Þess vegna var það ekki óeðlilegt að við myndun þessarar ríkisstjórnar væri sett fram skýr verkefnaskrá til viðbótar við hinn knappa stíl stefnuáætlunarinnar þar sem fram komu helstu atriði í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi í sjávarútvegsmálum.
    Hér sjáum við eingöngu afrakstur lítils hluta þessarar verkefnaskrár vegna þess að verkefnaskráin gerði ráð fyrir því annars vegar að farið yrði í að endurskoða fjóra þætti löggjafarinnar um stjórnun fiskveiða og síðan hitt að öll önnur og stærri mál hlytu að bíða betri tíma. Það sjá það allir sem vilja sjá að auðvitað gat það ekki orðið öðruvísi á þessu vorþingi en að við tækjum á málum sem væru sérstaklega knýjandi og þyrfti að breyta áður en næsta fiskveiðiár gengi í garð. Það er það sem við erum að sjá hér og verkefnaskráin gerir bókstaflega ráð fyrir því að tafarlausar breytingar eigi sér stað í fjórum málaflokkum.
    Í fyrsta lagi með því sem hér hefur komið fram og mér finnst skipta öllu máli. Það er að það er verið að endurskoða reglur um endurnýjun fiskiskipa. Eins og fram kom í máli hv. 3. þm. Vestf. er vandinn sem við er að glíma ekki síst núna í krókaleyfinu m.a. sá að þar hefur átt sér stað mikil sóknaraukning án þess að við værum að auka heildaraflann sem til skiptanna er hjá þessum skipum. Þetta er sá vandi sem við er að glíma, sá vandi sem við tókum ekki eðlilega og þess vegna var þetta svo þýðingarmikið atriði.
    Hér hefur verið talað töluvert um þetta atriði málsins og menn hafa látið í ljósi áhyggjur yfir því að það sé verið að ganga of langt í úreldingu, ganga of langt í því að reyna að draga úr sóknarmarki þessa hluta fiskiskipaflotans. Ég er ekki þeirrar skoðunar og ég deili ekki þeim áhyggjum með mönnum. Ég vil verja krókaleyfishópinn, ég vil verja þennan hóp skipa en það verður bara einfaldlega ekki gert nema við sköpum lífsrými fyrir atvinnumennina í þessum fiskiskipaflokki. Það er verið að tala um það í verkefnaskránni að tryggja stöðu þeirra sem hafa haft lífsviðurværi af krókaveiðum og við gerum það ekki nema við drögum úr heildarsóknarþunga þessa bátaflokks. Svo einfalt er það. Ef við lítum yfir aflareynslu þessara skipa á síðustu árum þá sjáum við að hér gæti mjög auðveldlega leyst úr læðingi stóraukinn sóknarþungi sem mundi bitna á þeim sem núna eru starfandi í þessari grein. Það er þetta sem menn eru að reyna að koma í veg fyrir með þeim ákvæðum sem eru í frv. og hafa verið gerð að umtalsefni.
    Ég sé það ekki sem sérstakt vandamál þó það dragi úr þessum sóknarþunga. Öðru nær. Mér finnst það frekar vera til vitnis um það að við erum að skapa nýtt svigrúm og nýtt rými fyrir þá sem eru starfandi í þessari grein. Mér finnst að það sé fullmikil svartsýni þegar einstakir hv. þm. eru að tala með þeim hætti að fyrr en síðar verði sú staða uppi að þessi floti minnki nánast niður í ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég held að staðan sé einfaldlega sú núna að það ríður á að þessi aðlögun flotans gerist tiltölulega hratt til þess að styrkja grundvöll þeirra skipa sem eru að vinna í þessum flokki. Það er ekki flóknara en þetta. Ég trúi ekki öðru en að um það geti tekist bærilegt samkomulag í þinginu, að menn séu sammála um það að reyna að verja þessa gerð skipa og þessar veiðar með því að draga úr sóknarþunganum með þeim hætti sem hér er verið að leggja til. Það getur vel verið að það þurfi að rýna aðeins betur í þennan lagatexta. Það er einfaldlega verkefni þingsins hverju sinni að gera það og það er verkefni þingnefnda að gera það. En það breytir ekki aðalatriðinu að þetta er gert til þess að reyna að búa til svigrúm og rými fyrir þá sem nú eru starfandi í þessari grein.
    Eðlilega hafa menn hvað mest rætt um krókaleyfisflotann af ástæðum sem öllum eru kunnar. Og hvert er markmiðið með því frv. sem hér er verið að ræða? Markmiðið er það að forða því að menn stefni eins og núna lítur út fyrir lóðbeint inn í óbreytta banndaga. Ég sá það í andsvari í morgun að enginn okkar sem stóðum að lagasetningunni fyrir rúmu ári síðan gerði sér grein fyrir því að þetta mundi bresta á með þeim hætti sem núna blasir við í haust. Við hefðum einfaldlega ekki, hvorki ég né hv. 15. þm. Reykv., staðið að þessari lagasetningu ef okkur hefði órað fyrir því að þetta mundi leiða til þess að hér yrðu á þriðja hundrað banndaga á næsta fiskveiðiári. Þetta kom aldrei til tals að það yrði þvílíkur fjöldi banndaga. Ég fór að vísu yfir umræðurnar frá því þegar við vorum að ræða þetta og ég fann satt að segja ekki ræður hv. 15. þm. Reykv. ( EgJ: Hann þagði.) sem hefur væntanlega þagað við lok þessara umræðna þannig að ég átta mig ekki á því hvort hv. þm. hefur haft uppi orð um áhyggjur sínar af þessu en ef hann hefur gert það þá hefur hann gert það svo hæversklega að það hefur farið fram hjá sennilega flestum og því

trúi ég tæplega, virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Ég var að nefna umræðurnar, hv. þm., en ég veit það hins vegar að hv. þm., eins og ég, var giska ánægður með það að hafa getað varið þennan hóp skipa með því að ætla þeim banndagakerfi í stað þess að setja þá á aflamark, framseljanlegt aflamark, eins og hafði raunar þó verið niðurstaða Alþfl. í síðustu ríkisstjórn, ekki vegna kröfu hæstv. núv. sjútvrh. sem var ekki í þeirri ríkisstjórn, --- ég skal þó ekki þræta fyrir það að það hafi verið vegna kröfu Kristjáns Ragnarssonar að Alþfl. hafi lagt þetta til. En alla vega var það svo að Alþfl. samþykkti lagasetningu á árinu 1990 sem gerði það að verkum að smábátarnir voru að stefna inn í kvóta ( Gripið fram í: Hann var ekki í Alþfl. þá.) upp á 2.896 þorskígildi. (Gripið fram í.) Nei, það er rétt að hv. þm. var ekki í Alþfl. þá. ( ÖS: Ekki heldur í Alþb. þá.)
    ( Forseti (ÓE) : Ekki samtal.)
En kannski varð þessi málatilbúnaður Alþfl. til þess að laða hann að flokknum. Það er ný tilgáta stjórnmálafræðingsins að þetta hafi orðið til þess að laða hugsjónamanninn, hv. 15. þm. Reykv., að þessum stjórnmálaflokki. ( Gripið fram í: Af hugsjónaástæðum.) Af hugsjónaástæðum. En ekki vil ég þó ætla það með vissu.
    En aðalatriðið er þetta að við erum að stefna inn í mikla ófæru með núv. óbreyttu banndagakerfi, ófæru sem ég held að enginn vilji í raun og veru kalla yfir okkur. Ég ætla að vekja athygli á því að í þeim umræðum sem hafa farið fram í dag og ég hef a.m.k. haft tækifæri til að hlýða á hefur ekki verið krafa um það að auka úthlutaðan afla eða auka úthlutaðar aflaheimildir til þessara bátagerða sérstaklega. Þær hugmyndir hafa ekki verið settar hérna fram til þess að leysa þennan vanda þannig að menn eru væntanlega að tala um lausn á vandanum á grundvelli úthlutaðra aflaheimilda til krókaleyfisbáta upp á 21.000 tonn eða þar um bil. Þetta skulum við hafa í huga. Og það setur þessu máli miklu harðari og erfiðari skorður. Það væri miklu auðveldara að leysa þetta mál ef við værum að deila út 20.000 tonnum til viðbótar. En það er bara ekki sú staða sem er uppi í málinu. Þess vegna erum við að tala um miklu harðari og erfiðari kosti.
    Stóra málið í því sem hér hefur verið að gerast núna er að í þessari lagasetningu er gert ráð fyrir því að það sé verið að bjóða upp á nýjan valkost, valkost róðrardagakerfisins. Það sem hefur gerst á síðustu dögum hefur sannfært mig og marga fleiri um það að þessi leið er miklu nær okkur heldur en við höfðum áætlað. Þessi hugmynd um róðrardagakerfið er ekki ný af nálinni, hún var t.d. sett fram í áliti Landssambands smábátaeigenda sem það lagði fyrir sjútvn. Alþingis við síðustu endurskoðun þessara laga. Þá hins vegar, einhverra hluta vegna, treystu menn sér ekki til að taka þetta kerfi upp. Nú er verið að leggja það til að það verði tekið upp. Það er einungis spurning um það hversu hratt menn telja sig geta komið kerfinu á. Það er í raun og veru búið að taka hina pólitísku ákvörðun um það að stefna inn í róðrardagakerfið og það er mjög þýðingarmikil niðurstaða. Spurningin er ekki hvort heldur hvenær. Spurningunni hvort, henni hefur verið svarað. Henni var ekki svarað við síðustu endurskoðun, henni hefur verið svarað núna. Og auðvitað skiptir það miklu máli og auðvitað reið það baggamuninn fyrir hvað flesta, að ég held.
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé ljóst að okkur var ærinn vandi á höndum varðandi endurskoðun þessara laga af því einfaldlega að staðan er knöpp og kröpp. Hér er ekki verið að leggja til grundvallarbreytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Það er alveg hárrétt. Í verkefnaskrá sjútvrn., dags. 20. apríl, er gert ráð fyrir því að fara í alls konar aðra vinnu, eins og hv. 3. þm. Vestf. rakti hér áðan, nokkuð sem ég held að skipti mjög miklu máli þar sem m.a. verði gerð úttekt á mismunandi leiðum við fiskveiðistjórnun og bornir saman kostir og gallar ólíkra fiskveiðistjórnarkerfa. Það verður haldið áfram endurskoðun á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem beinist m.a. að togveiðisvæðum. Sú vinna verður mjög mikilvæg fyrir ekki síst bátaflotann sem núna býr á margan hátt við skakka samkeppnisstöðu gagnvart togveiðiflota landsins.
    Ef ég nefni annað dæmi þá er gert ráð fyrir því að auka samvinnu Hafrannsóknastofnunar við sjómenn og útvegsmenn frá því sem núna er, reyna að eyða þeirri miklu tortryggni sem er um fiskveiðiráðgjöfina á milli þessara aðila. Ég veit að mjög margir þingmenn sem hér eru geta verið sammála mér um að það skiptir mjög miklu máli að þessi fiskveiðiráðgjöf geti farið fram í bærilegum friði milli vísindamannanna og sjómannanna, þannig líka að reynsluþekking sjómannanna og útvegsmannanna nýtist til þess að vinna að fiskveiðiráðgjöfinni sjálfri.
    Ég nefndi bara örfá atriði sem munu skipta mjög miklu máli um framhald þessa máls. Svo ég taki nú enn eitt dæmi sem líka er þýðingarmikið þá er gert ráð fyrir í þessari verkefnaskrá að það verði sérstaklega farið í það að efla samanburðarrannsóknir á áhrifum mismunandi veiðarfæra á lífríki hafsins. Mál sem ég veit að ekki síst talsmenn Landssambands smábátaeigenda og smábátaeigendur víða um landið binda mjög miklar vonir við vegna þess að það eru uppi miklar deilur um áhrif einstakra veiðarfæra á lífríki hafsins. Hér var nefnt í morgun sjónvarpsviðtal við stjórnarformann Hafrannsóknastofnunar sem hélt því fram að það væri mikilvægt fyrir viðgang þorskstofnsins að forða því að krókaveiðarnar kæmust í þriggja ára árgang --- var það ekki rétt? (Gripið fram í.) Eða eitthvað í þeim dúr. Ég held hins vegar að athuganir af þessu taginu muni á margan hátt sýna fram á yfirburði hinna kyrrstæðu veiðarfæra við það að verja og vernda og byggja upp fiskstofnana. Reynslan sem við höfum t.d. frá því við Vestmannaeyjar sýnir manni það og sannar að þetta skiptir máli. Það skiptir máli hvernig fiskurinn er tekinn. Það skiptir ekki bara máli að líta á heildartonnaafla, það verður líka að líta á hvernig fiskurinn er tekinn.

    Virðulegi forseti. Allt þetta skiptir miklu máli þegar við erum að ræða þessi mál til lengri tíma. En hér og nú erum við hins vegar að fjalla um tiltekið lagafrv. Ég hef ekki orðið var við það í þessum umræðum að menn hafi lagt fram skýra valkosti gegn þessu sem eru á vissan hátt vonbrigði því auðvitað verður maður að reikna með því að í lagasetningu af þessu tagi séu menn að takast á um ólíkar hugmyndir. Það er tiltölulega lítill vandi að standa hér heldur keikur og lesa upp ,,samlede værker`` einhverra tilgreindra þingmanna sem út af fyrir sig er hin besta skemmtan en hefur kannski ekki mjög mikla þýðingu þegar menn eru að reyna að setja saman lagatexta af þessu tagi og reyna að benda á nýja valkosti.
    Virðulegi forseti. Þetta vildi ég sagt hafa í þessari umræðu. Ég vona það og veit að í sjútvn. Alþingis munu menn reyna að finna sem farsælasta lausn á vanda þeirra báta sem verið er að reyna að finna lausn á fyrir. Það er ekkert létt verk en það skiptir hins vegar mjög miklu máli að reyna að gera það á sem vandaðastan hátt og ég veit að það mun sjútvn. Alþingis gera.