Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 16:28:34 (419)


[16:28]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Allar þær hugmyndir sem ég hef heyrt varðandi róðrardagakerfið ganga út á það fyrst og fremst að stjórna þessum veiðum með sóknarstýringu af því tagi að menn velji sér róðrardaga. Fjöldi róðrardaganna í heild sinni sé ákveðinn til að stýra sókninni. Það sé ekki verið að ákveða, eins og ég hef skilið þetta mál ævinlega, heildarafla á hvern bát. Menn hefðu aflaviðmiðun, heildaraflaviðmiðun en alls ekki þannig að það væri svoleiðis að þegar slíkri viðmiðun væri náð væri skrúfað fyrir veiðarnar. (Gripið fram í.) Ég er ekki handhafi einnar þekkingar í þessum efnum en ég hef ævinlega litið þannig á að sóknarstýring af þessu tagi hlyti í eðli sínu að hafa í för með sér fyrst og fremst að við værum að stýra þessu með sókn. Við erum ekki að stýra þessu með þaki, við erum að stýra þessu með sókn. Það er eðli sóknarstýringarinnar.