Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 16:32:47 (422)


[16:32]
     Jón Baldvin Hannibalsson :
    Herra forseti. Það er athyglisvert að þessi umræða yfir hálftómum þingsal um stærsta hagsmunamál þjóðarinnar, eins og menn orða það gjarnan, fer fram í skugga verkfalls. Flotinn liggur bundinn við bryggju. Menn reikna út hvað verðmætatapið er mikið, en það kemur satt að segja engum á óvart. Það kom til verkfalls fyrir ekki löngu síðan. Það var gerð tilraun til þess að leysa það en hefur ekki tekist í framkvæmd. Þetta rímar sjálfsagt nokkuð við reynslu þingmanna úr seinustu kosningabaráttu frá því að fara um sjávarbyggðir Íslands, leggja við hlustir, ræða málin, að það er dálítil þversögn í því fólgin að annars vegar eru menn sannfærðir um að þeir hafi fundið hið pottþétta kerfi, aflamarkskerfi á skip, sem á bæði að vera hið hagkvæmasta varðandi endurnýjunargetu fiskstofna sem og að því er varðar rekstrarhagkvæmni flotans. En samt sem áður segir hver maður þá reynslu úr kosningabaráttunni og af þessum umræðum --- og menn kveða misjafnlega sterkt að orði --- að það sé grasserandi óánægja, það sé víðtæk óánægja, það sé hörð gagnrýni uppi, jafnvel þeir sem sterkast taka til orða, að það hafi legið við uppreisnarástandi sums staðar í sjávarplássum gegn þessu kerfi.
    Hvernig má það vera ef menn eru svo vissir í sinni sök að aflamarkskerfi, annars vegar heildaraflamark og hins vegar aflamark bundið við skip, fullnægi þessum tveimur meginkröfum sem við gerum til fiskveiðistjórnarkerfa? Að tryggja að ekki sé farið umfram vísindalega ráðgjöf um afrakstursgetu fiskstofna og hins vegar að vissan sem þetta kerfi gefur útgerðaraðilum eigi að tryggja að þeir geti sjálfir tekið ákvarðanir í sínum fyrirtækjum um það hvernig þeir sækja þennan afla og þar af leiðandi gulltryggi kerfið hagkvæmni í rekstri.
    Við höfum reynt þetta kerfi. Fyrst í stað í bland með einhvers konar sóknarstýringu og síðan seinni árin sem nokkurn veginn hreint kerfi fyrir utan trilluflotann. Og menn meta reynsluna afar misjafnt. En sérstaklega er ástæða til að spyrja: Ef það er svo að útgerðaraðilar, ráðgjafarstofnanir ríkisstjórnar, sérfræðingaveldið, bankakerfið, allir þeir, sem þykjast leggja á þetta eitthvert sérfræðilegt mat, virðast vera nokkuð sammála um að þetta sé hagkvæmt kerfi. Og samt er svona grasserandi óánægja. Hvernig má það vera? Sjálfur hef ég ástæðu til að ætla að það sé nokkuð til í þessum röksemdum sem varða hagkvæmnina. Ég held með öðrum orðum að aflamarkskerfið sé alveg sæmilega brúklegt hagfræðimódel. En ég held að það hafi ákaflega lítið að gera með verndun fiskstofna.
    Þegar við hins vegar förum að líta á það á hverju það byggist fyrst og fremst, eða þau rök sem við getum tínt til til þess að sýna fram á hagkvæmnina, þá förum við kannski að skilja betur óánægjuna. Því hagkvæmnin er ekki hvað síst í því fólgin að þeir sem fá úthlutað ókeypis veiðiheimildum geta hámarkað sína hagkvæmni með því að beita markaðsvaldi sínu gagnvart þeim sem annaðhvort fá minna eða ekki neitt, gert þá að leiguliðum, þvingað þá til þess að veiða fyrir sig á undirverði og skilað verulegri hagkvæmni til skamms tíma. Jafnframt er þarna gengið á svig við kjarasamninga sjómanna og komið í framkvæmd kerfi sem felur í sér bæði samþjöppun kvóta, mikið efnahagslegt ofríki gagnvart veikari aðilum í greininni, gríðarlega mismunun í afkomumöguleikum og nánast valdbeitingu til þess að brjóta á bak aftur kjarasamninga sjómanna.
    Þetta eru hinar félagslegu afleiðingar af kerfinu eins og það hefur verið framkvæmt sem valda því að það er grasserandi óánægja. Það er bullandi óánægja. Það er uppi hörð gagnrýni. Og það er verkfall sem snýst ekki hvað síst um þetta: Verðmyndunin sem af þessu hlýst, mismunina sem í þessu felst. Og ég held að það sé nokkuð rétt hjá þeim sem segja: Burt séð frá hagfræðimódelinu, burt séð frá hugsanlega sannfærandi rökum um það að þetta kerfi, ef það er rétt útfært, geti tryggt hagkvæmni, sennilega umfram sóknarmarkskerfið, þá er það framkvæmt með þeim hætti að menn fallast ekki á það. Það er engin sátt um það og þar af leiðandi skilar það ekki þeim árangri sem það gerir á teikniborðinu.
    Í umræðunum um þessi mál eru menn að tíunda hver fyrir öðrum að í þessu hagkvæmnimódeli felist sóun þrátt fyrir allt. Veiddum fiski er fleygt fyrir borð í stórum stíl. Það þýðir ekkert að halda því fram að svo sé ekki. Og það sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson segir hér að gæti numið 40 milljörðum á undanförnum árum, það er ekki lítil upphæð. Svo eru menn að segja að þetta sé hagkvæmasta kerfi í heimi, kerfi sem er þess eðlis að fleygt er verðmætum á nokkrum árum upp á 40 milljarða kr. Haldið þið að það geti staðist? Haldið þið að það geti orðið sátt um slíkt kerfi?
    Það eru lög í landinu um það að auðlindin sjálf sé í eigu þjóðarinnar. Síðan koma menn og segja: Já, já, þjóðin á þetta. En menn mega nú ekki rugla saman annars vegar eignarrétti og hins vegar ráðstöfunar- eða afnotarétti. Það er nú ekkert gagnrýnivert þótt útgerðaraðilar, út á reynslu sína af sjósókn, fái umráða- eða ráðstöfunarrétt. Síðan skref fyrir skref. Nú, fyrst svo er, hafa þeir þá líka rétt til þess að selja eign annarra, sem þeir fengu úthlutað ókeypis? Mega þeir líka leigja öðrum annarra manna eign sem þeir fengu án leigugjalds? Mega þeir líka veðsetja annarra manna eign? Og mega þeir kannski líka láta það ganga í arf til niðja sinna? Finnst mönnum sannfærandi lýsingin sem hæstv. forsrh. tók af húsinu sínu á Lynghaganum og sagði: ,,Reykjavíkurborg á lóðina en ég borga nú leigugjald.`` Halda menn að þetta gangi upp? Það er nefnilega eitt að fara með tölfræðileg eða stærðfræðileg rök um hagkvæmni aflamarkskerfis umfram einhverja meinta sóknarstýringu, en kerfi sem byggir á því að stjórnvöld taka að sér að skammta aðganginn að auðlindinni í nafni þjóðareignar en þeir sem fá, eru viðtakendur þessara gæða, þessara fémætu verðmæta, mega síðan selja, víxla, jafna, veðsetja, leigja, eins og um eign væri að ræða. Og nota þetta efnahagslega vald sem ríkisvaldið færir þeim til þess að knýja veikari aðila í greininni til þess að gerast leiguliðar sínir, knýja sjómenn til þess að sætta sig við það að gerast leiguáhafnir á skipum þar sem þeir fá undirmálsverð fyrir fiskinn. Það gengur ekkert upp. Það er þar sem hnífurinn stendur í kúnni.
    Ég treysti mér ekki til þess að kveða upp einhvern salómonsdóm um hagkvæmasta módelið. Þau kunna að vera fleiri en eitt. En ég veit eitt og það er þetta: Þetta kerfi gengur ekki. Um það verður aldrei sátt. Það er eitt að segja: Yfirburðir aflamarkskerfisins eru slíkir að við skulum reyna að leggja okkur fram um að fá um þetta félagslega sátt. En það hafa þeir sjávarútvegsráðherrar, sem þessu kerfi hafa stýrt, alls ekki fengist til að gera. Þvert á móti. Þeir hafa étið upp eftir Kristjáni Ragnarssyni, einhverjum harðsvíraðasta sérhagsmunaaðila landsins, rökin sem hann hefur tíundað lon og don gegn veiðileyfagjaldinu og verið með sinn ósanna málflutning um að þetta sé skattlagning á sjómenn, skattlagning á landsbyggðina o.s.frv., hræðsluáróðurinn.
    Á meðan þeir gera þetta og á meðan þeir standa eins og hundar á því roði að hægt sé að reka aflamarkskerfi án þess að það komi réttmætt gjald fyrir afnotin af auðlindinni þá verður engin sátt um þetta kerfi. Það þarf ekki að leiða mig fram til vitnis um það, reynslan er þegar farin að sýna það og menn ættu satt að segja ekki að láta mikið meira á það reyna. Það er óviðunandi ástand að bjóða íslensku þjóðinni upp á það að binda í lög sameign þjóðarinnar og að fótumtroða það síðan allt saman í framkvæmd og beita síðan efnahagslegu valdi hinna fjársterku ,,kvótaeigenda`` gagnvart þeim sem höllum fæti standa í greininni og þjóðinni í heild.
    Óánægjuefnin eru þessi. Þau eru þessi gagnvart aflamarkskerfinu. Þau eru djúpstæð gagnvart þessum tvískinnungi eða klofningi um sameignina en hins vegar allt annars konar framkvæmd. Fólk er uggandi um það að hefðarréttur sé að myndast á einkaeigninni smám saman og það sé raunveruleg ætlun talsmanna þessara harðsvíruðu sérhagsmunaafla. Menn hafa af því miklar áhyggjur að umgengnin við auðlindina er með þeim hætti að fleygt er þúsundum tonna metið í verðmætum upp á þær tölur sem hér eru hafðar eftir hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni.
    Deilan um krókaveiðimenn og vistvænar veiðar og um eðlileg hlutföll milli báta á grunnslóð og öflugri skipa eða togara er af svipuðum toga er gamalkunn. Það er alveg ljóst hvað fyrir mönnum vakir hér, það er að koma því sem eftir er undir aflamarkið. Það á að koma trillukörlunum undir aflamark, það er yfirlýst stefna. Það var tilraun hæstv. sjútvrh. í hans upphaflega frv. Og hvort það voru framsóknarmenn eða samflokksmenn hans sem hafa fengið hann til þess að draga það til baka í svona hálfu skrefi, þ.e. að taka upp þetta val, um það skal ósagt látið, ég veit ekkert um það út af fyrir sig. En ég veit hvað fyrir þeim vakir og það er ekki hægt. Það er hreinlega ekki hægt. Það er röng hugsun og vitlaus tillaga. Ekki bara vegna þess að það mundi leiða til fjöldagjaldþrota í greininni hjá þessum trillukörlum. Það er heldur ekki hægt vegna þess að það mundi kalla yfir þann bátaflota það ástand að það yrði verið að fleygja fiski massíft í stórum stíl, líka af smábátaflotanum.
    Ég segi bara eitt um það mál: Ef samstarf gæti tekist milli þeirra sem eru gagnrýnendur núverandi kerfis og stjórnarandstöðunnar um að forða þessu slysi þannig að hægt væri að halda smábátunum áfram utan aflamarkskerfis á bát, en jafnframt tryggja að það kerfi gengi með eðlilegu aðhaldi og eftirliti, væri til nokkurs unnið. Það er að vísu engin lausn á þeim stóru málum sem voru til umræðu í kosningabaráttunni. En við erum nú sósíaldemókratar flestir hérna, og sáttir við að koma umbótum á hægfara og skref fyrir skref, það er heimspekin. Þannig að þótt ekki gerðist nú meira á þessu vori en þetta væri til nokkurs unnið.
    Í raun og veru þarf samt að gera eitt enn og það er mjög brýnt. Það er ekki vegna þess að það sé æskilegt út frá einhverri pólitískri skoðun heldur bara vegna þess að hlutirnir liggja þannig fyrir okkur. Það er verkfall og það verkfall snýst um verðmyndun á fiski á Íslandi í óbreyttu kerfi. Það verður engin sátt og engin niðurstaða nema það takist samstaða um einhvers konar kerfi þar sem menn eru ekki beittir af hálfu ríkisvaldsins rangindum og þvingunum, nema menn sitji við sama borð, að við komum okkur niður á leikreglur sem teljast vera sanngjarnar gagnvart öllum sem þátt taka í leiknum. Sannleikurinn er sá að þar held ég að megi gagnrýna t.d. hæstv. sjútvrh., núv. og fyrrv., fyrir það að hann hafi verið allt of hallur undir sérhagsmunavald hinna fáu í þessari grein. Ekki sýnt frumkvæði að því að reyna að tryggja að þessar almennu leikreglur væru í lagi. Og þess vegna hafa hlaðist upp óánægjuefni sem enda núna í hnút með stöðvun flotans.
    Hv. þingmönnum hafa verið sendar tillögur frá samtökum sem kenna sig við fiskvinnslustöðvar án útgerðar. Yfirlýstur tilgangur þessara samtaka er að leggja fram tillögur um að koma á lögbundnum leikreglum um verðmyndun á sjávarafla sem landað er á Íslandi út frá nokkrum grundvallarsjónarmiðum. Það er ástæða til að íhuga þessar tillögur. Af því að ég á ekki sæti í sjútvn. þá vildi ég vekja athygli hv. þm. og þá sérstaklega sjávarútvegsnefndarmanna á þessum tillögum.
    Grundvallarreglurnar eru þær að markaðsvæðing og heilbrigð samkeppni í þessari undirstöðugrein, ef henni yrði komið á, mundi leiða til þess að sala á frjálsum markaði til hæstbjóðanda mundi hvetja til betri meðferðar á hráefni, auka nýtingu og verðmæti afurða og stuðla að skýrari verkaskiptingu milli fiskvinnslufyrirtækja muni auka framleiðni fyrirtækjanna, samkeppnishæfni þeirra og gæði. Fullvinnsla mundi eflast og atvinnusköpun í greininni yrði þannig að þjóðhagsleg arðsemi fiskimiða væri sem mest. Þetta eru út af fyrir sig allt saman lofsverð markmið. Spurningin er sú: Mundu þær aðferðir sem hér eru lagðar til stuðla að því að ná þessum markmiðum og þar með auknum friði og aukinni sátt milli allra aðila í greininni? Milli sjómanna og útgerðarmanna, fiskkaupenda o.s.frv.?
    Hér er verið að segja: Leiðin er auðvitað sú að fiskur fari um markaði alls staðar þar sem því verður við komið. Það eru ýmsar leiðir til þess. Að því er varðar viðskipti innan fyrirtækis þá er hér reynt að leysa deilumálið með forkaupsréttarákvæðum að því er varðar slík fyrirtæki, að útgerð hafi forkaupsrétt að aflanum á sama verði og tilboðin hljóða upp á hverju sinni.
    Síðan er fjallað sérstaklega um hvernig með skuli fara í viðskiptasamningum milli aðila. Loks er lagt til að sett verði upp samstarfsnefnd sem skipuð verði fulltrúum eftirgreindra aðila: útgerðar, fiskvinnslu, sjómanna, fiskmarkaða, einum frá hvorum, og að auki einum fulltrúa frá Fiskistofu sem ber að úrskurða í deilumálum.
    Ég held að þessar tillögur séu athyglisverðar. Ég tek það ekki sem gott og gilt að aðeins sé hægt að endurtaka ,,ad nauseam``. Hvernig ætlum við að fara að blanda okkur inn í það hvernig aðilar ráðstafa fiski í viðskiptum sín í milli? Við vitum einfaldlega að sú aðferð sem nú er viðhöfð leiðir til mismununar, verulegrar óánægju og kyndir undir stéttarátökum, skapar ekki frið um kerfið. Hvers vegna þá ekki að reyna að hugleiða aðrar leiðir? Sérstaklega þegar veigamikil rök eru færð fyrir því að þetta mundi auka sérhæfingu, stuðla að vöruþróun, auka framleiðni, jafnvel skapa fleiri störf og leiða hugsanlega til friðsamlegra samskipta eða höggva á hnúta sem nú eru í samskiptum helstu aðila.
    Að því er varðar framsalskerfið í aflamarkskerfinu þá segja menn: Ja, aflamarkskerfið getur ekki skilað hagkvæmni nema það sé frjálst framsal. En frjálst framsal á hverju? Jú, frjálst framsal í viðskiptum á annarra manna eigum. Ég kem aftur að því sama. Hér er nefnilega verið að taka undir að frjálst framsal getur ekki farið fram með núverandi hætti. Ég viðurkenni að það er lykillinn að aukinni hagkvæmni en það getur ekki farið fram í óbreyttu kerfi eins og það er nú. Hér er verið að leggja fram tillögur um það að ef ríkisvaldið úthlutar kvótum í aflamarkskerfi sé sala á milli útgerða á veiðiheimildum innan árs óheimil nema skipti á jafnvægum tegundum. Hins vegar verði þau skip eða þær útgerðir, sem nýta ekki aflaheimildir sínar, einfaldlega að skila þeim aftur inn í kvótaþing þar sem þeim er ráðstafað upp á nýtt, þ.e. ekki úthlutað heldur boðnar upp og seldar og tryggt þar með að áhafnir skipa taki ekki þátt í kaupum. Og loks að tekjur sem verða af þessu verði nýttar í þágu greinarinnar eins og hér eru gerðar tillögur um, bæði fiski- og hafrannsókna sem brýn þörf er fyrir.
    Það er með öðrum orðum verið að segja að aflamarkskerfi gengur ekki upp án þess að fyrir komi einhvers konar veiðileyfagjald. Verið er að leggja fram tillögu um það að byrja með þeim hætti að í staðinn fyrir það kerfi sem nú er þá verði slíkum veiðiheimildum skilað og þær boðnar upp. Allur fiskur á markað, ákveðnar leiðbeinandi leikreglur um viðskipti með fisk innan fyrirtækja og kvótaþing þar sem umframveiðiheimildir, sem eru ekki nýttar, eru seldar hæstbjóðanda og tekjurnar nýttar í þágu greinarinnar. Þetta eru tillögur sem ég held að ætti að taka alvarlega. Síðan er loksins samstaða um það að því er varðar trillukarlana núna að forða því slysi að þeir verði settir undir aflamarkskerfi á bát í óbreyttu kerfi, að þeir haldi áfram í sóknarkerfi en undir eftirliti og aðhaldi sem menn eru að fullyrða að unnt sé að koma við með mjög litlum fyrirvara.
    Þetta eru nokkrar af þeim hugmyndum sem ég held að menn ættu að leggja áherslu á að ræða.
    Þegar menn líta á þetta frv. eru efnisatriðin fjögur. Það eru úreldingarreglur sem eiga að ná til smábáta, sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallaði útrýmingarreglur og þóttu ganga of langt. Óþarfi er að ræða mikið um þessar tillögur ef þeir fá að vera áfram í sóknarmarkinu. Reyndar er það svo að aflamarkskerfið kallar ekki svo mjög á úreldingu.
    Það að bæta þeim bátum sem verst hafa farið út úr skerðingunni á undanförnum árum er út af fyrir sig allt hið besta mál og enginn ágreiningur er um það. Hitt verð ég að segja að hvert einasta orð sem hv. þm. Svanfríður Jónasóttir sagði um þá furðulegu tillögu, forundarlegu tillögu, að fara að troða 500 tonnum upp á Byggðastofnun til endurúthlutunar --- þar er ég sammála hverju einasta atriði sem fram kom hjá hv. þm. Satt að segja er dapurlegt þegar þessir tveir flokkar koma hérna saman, þessir tveir framsóknarflokkar, þá enda þeir ævinlega í svona hlutum. Taka nú Byggðastofnun, sem hæstv. forsrh. vildi helst sjá enda ævidaga sína á seinasta kjörtímabili, og gera hana ábyrga fyrir endurúthlutun á einhverjum 500 tonnum í kvótakerfi er náttúrlega fúsk og sjúsk og ætti ekki að líðast. Menn ættu ekki að ljá máls á því. Þarna er verið að setja kjörna þingmenn í dæmigert fyrirgreiðsluapparat, og láta þá valsa með þessi fémæti í kjördæmatogstreitu. Hvaða rök eru fyrir svona fúski? Auðvitað eru þau engin. Þetta er slíkt fordæmi í stjórnsýslu að láta sér detta svona nokkuð í hug. Er verið að kaupa atkvæði einhverra þingmanna með þessu? Hvað á þetta að þýða?
    Efnisatriðin í frv. voru ekki merkilegri en þetta og af þeim er þessi Byggðastofnunartillaga auðvitað fráleit. Að því er varðar útrýmingarreglurnar koma þær ekkert á dagskrá ef það er rétt að hv. stjórnarliðum sjálfum tekst með stuðningi okkar annarra að koma í veg fyrir skyndiákvörðun um að taka smábátaflotann inn í óbreytt aflamarkskerfi.
    Miðað við verkefnaskrána, sem birt var, sem mér skilst að hafi átt að vera einhvers konar sáttargjörð við uppreisnarmennina í þingflokkunum, ekki bara Vestfirðingana því að uppreisnarmennina var víðar að finna, bæði meðal þingmanna Sjálfstfl. á Vesturlandi, framsóknarþingmanna á Suðurlandi og víðar, eru efndirnar sem sjást í frv. heldur rýrar. Samið var um að það ætti að fara í endurskoðun á ríkjandi fiskveiðistjórnun eða löggjöfinni um það strax. Jú, verið er að fitja upp á tiltölulega fáum atriðum en jafnframt er vitað að hún er öll í uppnámi. Verið er að vísa til nefnda sem eru að skoða suma þætti og eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og Einar K. Guðfinnsson hafa sagt var Róm ekki sköpuð á einum degi. Þetta er bara fyrsta skrefið. Sannleikurinn er sá að það ber að flytja hér tillögu um það að taka fiskveiðistjórnunina til heildarendurskoðunar, t.d. fyrir 1997. Rökin um að það skapi óvissu í greininni duga ekki vegna þess að stjórnarmeirihlutinn er búinn að heita því að fara í slíka endurskoðun og það er ekki bara um einstök aukaatriði, það er um grundvallaratriðin sjálf. Ég held að það ætti að vera uppreisnarmönnunum kappsmál að fá slíkt endurskoðunarákvæði inn í löggjöfina vegna þess að ekkert veitir af að hafa það aðhald til þess að láta menn vinna. Þetta er vissulega endurtekning á því sem seinasta ríkisstjórn lenti í en það eru líka öll efnisleg rök fyrir því.
    Eitt af því sem verður að taka til endurskoðunar nú þegar er verðmyndunarkerfi í sjávarútveginum sem hefur endað í allsherjarverkfalli veiðiflotans. Það var reyndar sjötti punkturinn í verkefnaskrá sjútvrn. sem við höfum ekki séð neinar efndir á. Að því er varðar að koma í veg fyrir aflamarkskerfið á krókabátana er aðeins frá því að segja að auðvitað er ekki rétt sem fram kemur í grg. sjútvrn. að það sé bara tveggja kosta völ, annað hvort að setja alla á kvóta eða að sitja uppi með banndagakerfi sem endar í því að enginn komist á sjó. Þetta eru auðvitað ýkjur. Þetta er svarthvít mynd og hún er ekki rétt. Hægt er að beita ýmsum öðrum ráðum til þess að hafa áhrif á sóknina öðrum en þeim sem hér er lýst. Ég nefni t.d. það eitt að það þarf að skoða vandlega hvernig sjómenn eru lögskráðir á smábátana og hvernig tryggingum er fyrir komið því að þeim mun vera nokkuð ábótavant. Þar fyrir utan er hægt að beita ýmsum öðrum leiðum til aðhalds og eftirlits eins og fram hefur komið í máli stjórnarþingmanna án þess að rjúka út úr neyð í þá niðurstöðu að það verði bara að taka upp kvóta á þetta eins og alla aðra.
    Ég tek undir með þeim sem segja: Það þarf að ná niðurstöðu um smábátana á þessu vorþingi, koma í veg fyrir það að þeir verði settir með falsrökum undir aflamarkskerfi. Síðan þurfa menn að gefa sér tíma til þess að taka fiskveiðistjórnunarkerfið til heildarendurskoðunar þar sem stærstu málin eru að sjálfsögðu að ef menn ætla að hafa aflamarkskerfi þá er það veiðileyfagjaldtakan; það er að tryggja það í sessi með því að eignarréttur þjóðarinnar verði bundinn við stjórnarskrá; það er með heildarendurskoðun á verðmyndunarkerfinu, svo nokkur dæmi séu nefnd. En ef það tekst að koma í veg fyrir upphafleg áform hæstv. sjútvrh. um kvótabindingu smábátanna þá er það eitt nægilegt skref til að réttlæta þessa tiltölulega löngu umræðu um frv.