Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 17:02:21 (423)


[17:02]
     Einar Oddur Kristjánsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil endilega leiðrétta eða að minnsta kosti benda hv. þm. Jóni Baldvini á það að í skilningi mínum er það svo að við erum að deila um fiskveiðistjórnun sem er byggð á ákveðnu módeli. Hagfræðingarnir, sem standa fyrir því, fullyrða að módelið gangi upp. Ég er alveg sannfærður um að það er rétt hjá þeim. Það gengur alveg upp í módelinu. Hitt hefur vafist fyrir mér og fleirum að skilja hvernig það gengur upp í veruleikanum og ég tel það sem þeir hafa lagt fram um dagana fái ekki staðist.
    Hitt vil ég benda honum á, en þannig skildi ég ræðu hans, að það geti verið lausn á þessu máli veiðileyfagjald eða einhvers konar skattur á útgerðina. Ég get ekki með nokkru móti séð það og enginn hefur nokkurn tímann sýnt mér fram á það að við værum nokkru nær. Ef við erum með þetta aflamarkskerfi og ef það er rangt, ef sóunin í því, mínusarnir, eru miklu fleiri en plúsarnir er kerfið jafnrangt hvort sem við seljum veiðileyfi eða ekki. Hvort sem við látum borga leigu eða ekki. Ef sóunin í því sem við hendum er hærri upphæð heldur en hugsanlegur ávinningur, af því að kerfið færði sóknina nær. Ef mínusinn er stærri en plúsinn þá erum við að fara aftur á bak. Ef þetta er að gerast þá gerist það jafnt hvort sem við látum á þetta veiðileyfagjald eða einhvers konar skatta. Skattar eða gjöld á útgerðina er alveg sérmál, óháð því hvort við höfum hér sóknunarstjórn eða aflamark.