Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 17:04:03 (424)


[17:04]
     Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég fæ ekki séð að þessi ræða hv. þm. sé leiðrétting á einu eða neinu af því sem ég sagði. Það er hún ekki. Við vorum sammála um að rengja ekki að það er hægt að stilla upp aflamarkskerfinu sem ákaflega hagkvæmu kerfi í módelinu. Hv. þm. hefur eins og ég efasemdir um að það standist í reynd og á þá væntanlega líka við það að þær fullyrðingar, sem eru færðar fram um það að þetta módel tryggi vísindalega umgengnina við auðlindina sjálfa, séu mjög vafasamar. Við förum ekki að ræða þá fiskifræði í andsvörum.
    Að því er varðar veiðileyfagjaldið þá er ég aðeins að segja einn hlut og það eru bara einfaldlega

spurningar um rökvísi. Auðlindin er eign þjóðarinnar, aðgangurinn að hinni takmörkuðu auðlind eru fémæti sem ganga kaupum og sölum. Það gengur ekki upp í þessu kerfi að hafa slíkt aflamarkskerfi nema að fyrir þetta fémæti og fyrir þennan aðgang að takmarkaðri auðlind komi gjald. Það gjald má að vísu nota með einhverjum hætti sem stjórntæki ef menn vilja útfæra það nánar sem slíkt. Dæmið sem ég nefndi eru tillögur um það að veiðiheimildum sem úthlutað er sé skilað inn aftur og þær verði seldar þannig að það komi andvirði til eigandans sem hægt er síðan að nota í margvíslegum tilgangi innan greinarinnar.
    Þetta leysir að sjálfsögðu ekki spurninguna um t.d. hversu miklum fiski er hent. Nei. En það leysir aðra þætti sem skýra hina félagslegu uppreisn sem nú er gegn þessu aflamarkskerfi.