Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 17:06:20 (425)


[17:06]
     Einar Oddur Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er staðreynd að ef við erum að sóa í einu kerfi, eins og ég er viss um að við erum að sóa í þessu aflamarkskerfi, þá eru það aðalrökin gegn kerfinu. Það eru aðalrökin gegn því vegna þess að rentan til þjóðfélagsins hlýtur að skipta okkur höfuðmáli og við verðum að hámarka rentuna þar. Og ef við erum með ranga stjórnun þá er það aðalatriðið að finna aðra stjórnun. Skattlagningin, hvort sem hún er réttlætt með einum eða öðrum rökum, getur átt sér stað í hvaða kerfi sem er ef menn telja það rétt eða finna einhver rök fyrir því yfirleitt að vera með skattlagninguna eða leiguna eða hvað við viljum kalla það. Þeir geta alveg eins sett það inn í aflamarkskerfi eins og í sóknarkerfi. Það er alls staðar hægt að skattleggja greinina ef finnast fyrir því rök. Það er engin spurning um það þannig að þetta eru tveir óskyldir hlutir.