Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 17:07:21 (426)


[17:07]
     Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar) :
    Herra forseti. Veiðileyfagjald, gjaldtaka af hálfu eigandans fyrir úthlutun veiðiheimilda úr takmarkaðri auðlind, er ekki skattlagning. Alls ekki. Það er reginmunur á því hvort þú tekur leigugjald fyrir aðgang að auðlind, hvort þú lætur greiða fyrir þau forréttindi að fá í hendur frá ríkinu fémæti eða hvort þú ert að leggja á skatta. Skattar eru annars konar og þetta þekkja menn alveg.
    Að svo miklu leyti sem hv. þm. sagði er það auðlindarenta að því er varðar hina takmörkuðu auðlind, fiskimiðin, alveg eins og landrenta í hverju öðru hagfræðidæmi þá er svarið þetta: Veiðigjaldið, gjald fyrir aðganginn að hinni takmörkuðu auðlind, tryggir að rentan, sjávarrentan, kemst í hendur hinna réttu eigenda, þjóðarinnar.