Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 17:08:24 (427)


[17:08]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson flutti mjög athyglisverða ræðu sérstaklega í ljósi þess að hann hefur á seinustu fimm árum setið í tveimur ríkisstjórnum sem framkvæmdu heildarendurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni. Í ræðunni var hins vegar margt mjög skarplega athugað en annað var hins vegar óljósara. Það bar hins vegar meira á sjávarútvegsstefnu Alþfl. en í ræðu hv. 15. þm. Reykv. fyrr í dag. Þó var ekki allt jafnljóst og ég vildi gjarnan heyra betur frá hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni hvernig Alþfl. leggur til að vandi krókabátanna verði leystur eins og hann stendur í dag.
    Mig langar jafnframt að minna hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson á það að við síðustu fjárlagagerð samþykkti hann ásamt öðrum þingmönnum þáverandi stjórnarmeirihluta 40 millj. kr. framlag til Byggðastofnunar sem skyldi ráðstafað sérstaklega til smábáta sem hefðu orðið illa úti í aflaskerðingum. Í kosningabaráttunni nú í vor hrósaði frambjóðandi Alþfl. á Austurl., fyrrv. hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, sér sérstaklega af því að hafa átt þátt í þessu máli og að koma þessu máli fram. Þess vegna finnst mér skrýtið að heyra hann tala sérstaklega um það að framsóknarflokkarnir svokallaðir séu að setja peninga í Byggðastofnun og bið hann að skýra hvort það sé einhver eðlismunur á því sem gert var við síðustu fjárlagagerð og þess sem verið er að gera núna.