Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 17:14:08 (431)


[17:14]
     Kristján Pálsson :
    Virðulegi forseti. Eitt mikilsverðasta málefni þjóðarinnar er hér á dagskrá, eins og komið hefur fram, um það hvernig eigi að stjórna veiðinni í fiskstofna landsmanna. Það hefur verið mikið um það í umræðunni að menn hafa rifjað upp áherslur ýmissa frambjóðenda í nýliðinni kosningabaráttu og það heimfært upp á þær tillögur sem hér liggja frammi um breytingar á fiskveiðistjórnuninni. Ég vil vegna þessa rifja lítillega upp þær hugmyndir um sjávarútvegsmál sem ég lagði áherslu á í baráttunni sem fram fór fyrir kosningarnar.
    Eitt af því sem ég og við sjálfstæðismenn höfum lýst stuðningi við, alla vega flestir, er aflamarkskerfið þ.e. svokallað kvótakerfi. Ég hef sjálfur persónulega mikla reynslu af þessu aflamarkskerfi, bæði sem sjómaður og útgerðarmaður, og man þær breytingar sem urðu þegar kerfið var sett á 1984. Þá vorum við að veiða hér við land 360.000 tonn af þorski. Ég sá þær breytingar gerast að netabátar til að mynda sem höfðu róið með 12 og upp í 15 trossur í veiðiferð fækkuðu sínum trossum jafnvel um helming. Ég sá að verðmætamat sjómanna breyttist mjög mikið við aflamarkskerfið þannig að í stað þess að menn væru að hamast við að koma með sem mest að landi reyndu menn að koma með sem verðmætasta fiskinn að landi. Ég hef líka kynnst kerfinu þegar menn reru á svokölluðu skrapdagakerfi sem var eins konar sóknarmarkskerfi og ég kynntist því einmitt í því kerfi hvernig var hægt að ganga um fiskimiðin þrátt fyrir það að aflamarkskerfið væri ekki grunntónninn í kerfinu. Þar var ekki síður kastað afla. Þannig að í sjálfu sér eru öll þau kerfi sem hafa verið reynd við stjórnun fiskveiða á Íslandi gölluð að vissu leyti en hafa eigi að síður mismunandi kosti. Ég hef litið svo á að aflamarkskerfið hafi að mörgu leyti sannað sig sem betra kerfi.
    Auðvitað hefur margt komið á daginn eftir að draga þurfti svo mikið úr sókn í þorskinn að í dag erum við einungis að veiða helming og tæplega það af þeim afla sem leyft var að veiða þegar kerfið var sett á. Þeir annmarkar eru fyrst of fremst þeir sem birst hafa í blöðum og fjölmiðlum, að sjómenn hafa freistast til að henda afla. Fullvinnsluskip sem eru gerð út á sama kerfi hafa einnig leyft sér að því er virðist að velja í aflasamsetningu sína einungis það sem passar inn í vinnsluna. Við höfum líka leyft það, og mér finnst það miður, að veita undanþágu fyrir því að fullvinnsluskip vinni allan þann afla sem kemur um borð. Þá meina ég að þau hafi mjölvinnslu um borð þannig að allur afli verði nýttur. Ýmislegt hefur leitt til þess að menn hafa notað kerfið á annan hátt en til var ætlast í upphafi.
    Eitt af því sem ég ræddi um í kosningabaráttunni var það að bæta svokallað banndagakerfi smábáta. Banndagakerfið var, eins og allir þekkja, talið óalandi og óferjandi í þeirri mynd sem það var þá fyrst og fremst vegna þeirrar miklu hættu sem það skapaði þeim sjómönnum sem sóttu stífast og töldu sig knúða til þess af ýmsum ástæðum. Að auka við banndaga um 100 er í mínum huga algjört bannorð nema til komi

verulegar breytingar í þeim aflaviðmiðunum sem eiga að koma til krókabáta. Ég sé ekki að banndagakerfið gangi upp öðruvísi. Þá er það í huga mínum og ég held mjög margar annarra mannskaðakerfi sem ég persónulega mun ekki bera ábyrgð á. Þess vegna hef ég lagt til í mínum hugmyndum að ef við notum banndagakerfið þá þyrfti að bæta við það ekki minna en 10.000 tonnum af þorski.
    Ég er ekki að segja að það sé nauðsynlegt ef við getum komið til móts við smábátana á þann hátt að þeir fái að velja sjálfir það sóknarmunstur sem þeim passar. Með þessu frv. tel ég að að ýmsu leyti sé komið til móts við það þannig að menn geti sæst á að kerfið sé nýtanlegt án mikillar hættu innan þess vals sem þetta nýja frv. ætti að geta tryggt. Ég tel einnig mjög nauðsynlegt að það komi fram að í þessu frv. hefur að mínu viti verið tryggt að þeir sóknarmöguleikar sem eru í dag í sjávarútvegskerfinu, þ.e. annars vegar aflamarkskerfið og hins vegar línutvöfölduninni og eins í krókakerfinu þar sem eru stórir aflamarkspottar, eru nýttir alfarið hjá vinnslunni í landi. En það finnst mér vera eitt af grundvallaratriðunum í dag að sem mestur afli sem leyft er að veiða fari til þess að auka störf fiskvinnslufólks í landi. Mér finnst að með frv. sé reynt að tryggja það. Tryggja smábátaútgerðina, tryggja það að línutvöföldunin verði áfram við lýði og að hún verði ekki færð sem aflamark á viðkomandi línubáta. Þetta var ein af þeim umræðum sem fóru hér fram.
    Annað er það sem ég hef lagt mikla áherslu á en verður í sjálfu sér ekki til umræðu hér en það er eignarhaldið á fiskstofnunum. Í mínum huga og ég veit margra annarra er gengið út fyrir allt velsæmi þegar þjóðareignin er komin á það stig að stofnarnir séu farnir að ganga í erfðir innan ætta. Það gengur í rauninni gegn mínu hjartalagi að einstakir menn geti átt þjóðareignina sem landsmenn hafa hingað til getað nýtt sameiginlega. Í þessu máli áskil ég mér tíma til að vinna í mínum þingflokki og á þingi á næstu fjórum árum þannig að ég ætla ekki að ræða frekar um það.
    Ég mun heldur ekki eyða miklum tíma í þær hugmyndir sem ég hef haft um verðmyndun á fiski en ég hef alla tíð talið að verðmyndun á fiski væri ekki endilega réttust með því að keyra þetta með tengingu veiða og vinnslu heldur megi opna þetta í áföngum þannig að með tímanum verði allur fiskur boðinn upp á markaði. Eigi að síður verðum við að taka tillit til staðhátta og tryggja að slíkar breytingar séu gerðar í sæmilegri sátt.
    Það sem er hér til umræðu í dag fyrst og fremst er það nýja frv. sem liggur frammi um veiðar smábátanna. Þeir valkostir sem eru um sóknarmark með aflahámarki, banndaga og hugsanlega róðrardagakerfi hafa fengið verulega umræðu hér og margir eru með svipaðar skoðanir í þessu efni. M.a. heyri ég á mörgum mínum samflokksmönnum sem hafa sérstakar mætur á svokölluðu róðrardagakerfi. Ég veit að Landssamband smábátaeigenda hefur einnig lagt mikla áherslu á að þetta væri það kerfi sem að þeirra mati gengi best upp og félli best að hugsunarhætti smábátamanna sem vildu róa þegar best væri og blíðast. Ég tek undir það að þetta er það kerfi sem er mér hjartfólgnast og ég mun vinna að að verði að raunveruleika fyrir haustið.
    Ég sé ýmsa annmarka á banndagakerfinu, eins og ég nefndi áðan, og mun ekki geta varið að það verði sett á að óbreyttu. Sóknarmarkskerfi með aflahámarki er að mörgu leyti gallað. Ég held að menn verði að líta á forsögu þess þegar krókakerfið var sett á, banndagakerfið fyrir smábáta. Þá var þetta kerfi hugsað fyrir lítil skip sem voru á handfærum. Það hefur síðan þróast upp í það að á veiðum innan þessa sóknarmarks eru bátar sem róa með 20--30 bala af línu á dag. Sumir fara jafnvel tvær ferðir á dag. Þeir eru jafnvel að ná í afla úr öðrum skipum og hafa kannski sumir hverjir aflað sér reynslu sem er ekki í neinu samræmi við það sem hugsað var þegar kerfið var myndað. Það er því mjög mikið vafaatriði í mínum huga að hægt sé að láta ákveðna báta fá aflareynslu miðað við þetta kerfi og mismuna þar með fjöldanum öllum af öðrum bátum í verðlagningu í kjölfarið á því. Ég set alla fyrirvara á það að slíkt sóknarmark verði á bátum til frambúðar. Ég hef aftur á móti talið að það mætti velja þarna á milli um tíma. Ég held að menn verði að átta sig á því að það gæti orðið sama útkoman út úr þessu þegar við erum búnir að taka þessa báta og skilja hina eftir eins og komið hefur hér fram. Ég tel því miklu eðlilegra þegar fram í sækir að menn hafi bara ákveðið hámark að fara upp í. Menn hafi aldrei leyfi til að veiða 300--400 tonn á einn lítinn trillubát. Ég held að það sé ljóst að ef menn eru komnir upp í slíkan afla þá eru þeir ekki á handfærum eða á þeim veiðum sem gert var ráð fyrir samkvæmt því kerfi sem sett var á. Ég held að þó svo að menn hafi gert þetta allt innan þeirra marka sem kerfið gerði ráð fyrir þá hafi kerfið ekki verið byggt nógu vel upp á sínum tíma þannig að það hefur orðið ákveðin misnotkun. Ég lýsi því hér yfir að í mínum huga er það róðrarkerfið sem skiptir mig mestu máli og verður það kerfi sem ég mun vinna brautargengi.
    Önnur atriði í þessu frv. sem mig langar aðeins til að ræða er þessi svokallaða endurnýjun á smábátum, þ.e. ef smíða á nýjan bát eða kaupa þá þarf maður að kaupa helming á móti eða 50% af nýju leyfi á móti, það þarf sem sagt einn og hálfan bát á móti gamla bátnum. Þetta getur skapað gríðarleg vandamál fyrir hóp manna sem lenda í áföllum. Það má spyrja sig hvort þetta sé ekki nokkuð langt gengið. Þó menn vilji fækka bátum þá er fullt af mönnum sem hafa þetta að atvinnu sinni af miklum heiðarleika og eiga horn í dag sem þeir vildu gjarnan endurnýja og þess vegna er það mjög innan gæsalappa sú sanngirni að menn þurfi að lúta því að kaupa sér hálfan bát á móti til að geta endurnýjað 3 eða 4 tonna trillubát. Þannig að ég held að við eigum að skoða þetta mjög vel í nefnd. Ég vil taka fram þann skilning minn á þessu ákvæði að þessi 50% regla á einvörðungu við um smábáta. Hún á ekki við um önnur skip á aflamarki. Hún á ekki við um síldveiðiskip, loðnuskip eða nokkur önnur skip sem gerð eru út við Ísland, þetta á einvörðungu við um krókabáta.
    Það sem er gott við þetta nýja frv. er að leiðrétt er misvægi sem kemur upp varðandi svokallaða 100% reglu og 15% reglu eins komið hefur hér fram og ég lýsi yfir ánægju minni með þá breytingu.
    Eins og ég hef sagt þá er nauðsynlegt að ná sátt. Við erum búnir að gera út við strendur Íslands frá landnámi og þróunin á síðustu árum hefur verið einstök og enginn í rauninni getað gert sér grein fyrir því hve sóknarmáttur og sóknargeta íslensks flota getur breyst á örskömmum tíma. Það hafa menn séð kannski ekki hvað síst í krókabátunum og svo í fullvinnsluskipunum. Það er ótrúlegt hvað hægt er orðið að veiða á eitt skip. Við vorum ekki að berjast við þessi vandamál fyrir nokkrum árum síðan. Eins og ég segi eru ekki nema fjögur ár síðan við byrjuðum á þessu krókakerfi sem springur á tveimur árum úr höndunum á okkur. Þannig að ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur og þjóðina að á þessu þingi náist sú sátt um þessar breytingar að við getum talað um varanlegar lausnir en ekki bráðabirgðalausnir. Það verður fylgst með þessu og ég mun leggja mitt af mörkum til þess að allir sem þurfa að lifa eftir þessu kerfi geti viðurkennt það að þingið, Alþingi Íslendinga, þessi virðulega stofnun, hafi tekið á þessu með þeim mannlegu sjónarmiðum sem okkur er einum lagið.