Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 17:31:06 (432)[17:31]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Það er að vonum að nokkuð sé rætt um frv. þau sem eru til umræðu og ráðherra hefur mælt fyrir um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, vegna þess hversu mikla þýðingu sjávarútvegur hefur fyrir landsmenn alla. Í velflestum byggðarlögum snertir sjávarútvegurinn nánast hagsmuni hvers manns. Eins líka í kjölfar þeirrar umræðu sem þessi mál hlutu í síðustu kosningabaráttu. Það sem upp úr stendur í þeirri umræðu er dapurlegt hlutskipti þeirra manna sem gengu öðrum fremur lengra í yfirboðum og töldu kjósendum sínum trú um að þeir hefðu tök á að koma fram með lausnir sem þeir máttu vita, ef þeir vissu það ekki fyrir víst, að engin von var til að næðu fram að ganga. Það hefur einkennt umræðuna að nokkru leyti því þeir sem svo stíf loforð gáfu hafa þurft að reyna að finna vörn fyrir sinn málflutning sem þeir höfðu uppi fyrir nokkrum vikum. M.a. hafa þingmenn Sjálfstfl. af Vestfjörðum þurft að verja stórkarlalegar yfirlýsingar sínar eins og t.d. þær að þeir mundu enga ríkisstjórn styðja sem ekki gerði breytingar á lögunum í átt til sóknarmarks. En það blandast engum hugur um það sem les þessi frv. að menn eru að breyta lögunum í átt til aflamarks frá sóknarmarki. Það getur ekki verið nein deila um það. Ég hef ekki heyrt þessa ágætu þingmenn heldur draga það í efa að leiðin sem þessi frv. boða sé í þessa áttina. Og þeir ganga með hinum þessa leið sem þeir sögðust ekki mundu ganga. Ég bíð enn eftir því að þeir útskýri fyrir kjósendum sínum og þingheimi hvers vegna þeir styðja þessa ríkisstjórn. Hvað er það sem veldur því að þeir styðja þessa ríkisstjórn og hæstv. sjútvrh., Þorstein Pálsson, sem þeir höfðu lýst vantrausti á opinberlega á framboðsfundi?
    Ég hef mínar skýringar á því og velkist ekki í vafa um hverjar þær eru. Þær eru þær að þessir menn eru í grundvallaratriðum sammála, þeir eru sammála um stjórn fiskveiða þegar öllu er á botninn hvolft. Það hefur nefnilega ekki farið fram hjá mér fremur en t.d. ritstjórum Morgunblaðsins að þessir ágætu þingmenn eru sammála hæstv. sjútvrh. um það hverjir eigi að eiga aflaheimildirnar, hvert eignarhaldið á að vera. Þeir eru nefnilega sammála því að það eigi að vera séreignarfyrirkomulag á aflaheimildunum. Tillögur þeirra gera ráð fyrir að um einkaeign sé að ræða og einkaeignaraðgang að fiskimiðunum. Það er sama stefna og Sjálfstfl. stendur fyrir. Því er það eðlilegt að mínu mati að þeir séu í sama flokki því þeir eru báðir sammála um það að einkavæða fiskimiðin. Má nú minna menn á frægt leyfi sem hv. 3. þm. Vestf. hefur í sínum vasa sem er einkaleyfi fyrir afnot af auðlind í sjónum. ( GHall: Er það ekki hið besta mál?) Að hans mati er það sjálfsagt hið besta mál, en það er ekkert sóknarmark á þá auðlind. (Gripið fram í.) Það er einkaeignarfyrirkomulag og um það eru þeir sammála, hv. 3. þm. Vestf. Einar Oddur Kristjánsson og hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson, að það á að vera einkaeignarfyrirkomulag þar sem því verður við komið í sem mestum mæli. Um það eru átökin í þjóðfélaginu. Þau eru ekki um það hvort menn ætla að hafa sóknarmark eða aflamark. Það er verið að kasta ryki í augu fólks og dylja hin raunverulegu átök þegar menn deila um þetta. Það er verið að blekkja fólk. Átökin standa um grundvallaratriðið, eignarhaldið og forræðið.
    Það hefur m.a. komið fram af hálfu Alþb. hvar stefna þess flokks liggur hvað eignarhaldið varðar og nefni ég síðast því til sönnunar frv. sem fulltrúar okkar í sjútvn. fluttu um breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða og lagt var fram á síðasta þingi. Í frv. eru þær tillögur sem við teljum nauðsynlegar breytingar og lýsa afstöðu okkar til málanna í heild.
    Gagnrýnisatriði okkar gagnvart núverandi kerfi er fyrst og fremst hvernig eignarhaldinu er fyrir komið, hvernig það er að þróast, hvernig aflaheimildirnar færast á æ færri hendur og hvernig menn einkavæða jafnvel almenningshlutafélög af því að Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki einu sinni þolað að almenningshlutafélög og aflaheimildir fái að standa heldur verði að koma þeim í hendur einkaaðila og nota ríkisfé til þess að koma því fram. Það er dæmi um hvernig hann framfylgir stefnu sinni um að einkavæða

þessar aflaheimildir, aðganginn að fiskimiðunum. Þarna er um að ræða grundvallarpólitískan ágreining milli Alþb. annars vegar og Sjálfstfl. hins vegar. Það er himinn og haf þarna á milli og menn eiga auðvitað að gera sér grein fyrir því hvar hin pólitísku átök liggja og hvar skurðlínurnar eru en ekki að varpa ryki í augu fólks með því að tala um einhverjar hugmyndafræðilegar deilur um aflamark og sóknarmark því að aflamark er í eðli sínu ekkert annað en partur af sóknarmarki, ein leið til að takmarka sókn skips. Í eðli sínu er aflamark ekkert annað og er því ekki andstæða sóknarmarksins enda vita allir sem hafa kynnt sér löggjöfina um stjórn fiskveiða að stjórn fiskiskipa er byggð að miklu leyti á svokölluðum sóknartakmörkunum þar sem veiðisvæðum er lokað, notkun veiðarfæra er takmörkuð o.s.frv. Sóknarmark er því auðvitað mjög ríkjandi í fiskveiðistjórnunni. En það sem helst veldur deilum á milli aflamarks og sóknarmarks er sú breyting sem varð 1990 þegar menn tóku það upp að gera aflamarkið framseljanlegt. Þá hætti aflamarkið að vera sóknartakmörkun einvörðungu og fór að verða verslunarvara, fór að hafa sjálfstætt hagfræðilegt gildi og fléttast þar með inn í átökin um eignarhaldið því að þar voru menn búnir að skilgreina verðmæti sem eru seljanleg og þá skiptir máli hverjir eiga þau og hverjir njóta afrakstursins af þeim. Þetta er stærsta gagnrýnisatriði okkar á grundvöllinn í þessu, en við nefnum líka í frv. okkar önnur atriði sem eru mjög þýðingarmikil og mikill ágalli á núverandi framkvæmd í stjórnun fiskveiða og þessi frumvörp taka ekki á. Það er að afla er kastað og það er vitað þó að menn deili um það í hve miklum mæli menn kasta afla. Menn landa afla fram hjá vigt og menn svindla. Menn skrá afla undir öðru heiti en hann er í raun. Þetta eru mjög alvarlegir ágallar á stjórnkerfinu sem gera það að verkum að það verður að breyta því. Ekki er hægt að búa við kerfi óbreytt sem hefur þessa ágalla í för með sér. Því miður taka þau frumvörp, sem nú eru rædd, ekkert á þessum alvarlegu atriðum heldur auka frekar vandræðin því að ef eitthvað er mun það auka vandræðin hvað þetta varðar eftir því sem fleiri bátar verða settir undir hámark í afla. Það er líklegra að smábátar sem í dag róa samkvæmt banndagakerfi en munu róa eftir aflahámarkskerfi fari að taka upp það sem þeir gerðu ekki áður, að henda afla, að landa fram hjá vigt eða svindla enda þótt ég ætli ekkert að fullyrða að svo megi vera en það er auðvitað líklegra miðað við ástandið eins og það er.
    Auðvitað er alvarlegt þegar menn gera að mati ríkisstjórnarinnar breytingar á þessu mikla máli, stjórn fiskveiða, sem þarf að taka í gegnum Alþingi með mjög miklu hraði og taka ekki á þessum atriðum. Það segir mér að ríkisstjórnin ætlar ekki að breyta þessum vanköntum með neinu hraði og það er ekki líklegt að hún geri það af neinni festu fyrst þessi mál eru ekki ofar á lista hennar en þetta.
    Því er ekki að neita að breytingarnar eru umdeilanlegar í þessu frv. og fulltrúi okkar alþýðubandalagsmanna í sjútvn. hefur farið yfir einstök efnisatriði og rakið afstöðu okkar til þeirra hvers fyrir sig. Ég nefni aðeins fáein atriði, sem mér finnst að skipti máli, í umræðunni um stjórnun fiskveiða. Það er auðvitað það sem við blasir og menn verða að beygja sig undir þá staðreynd að það eru einfaldlega of fáir fiskar í sjónum. Þess vegna verður að stjórna veiðunum og þegar menn ákveða að stjórna veiðunum og takmarka þar með sóknina í stofninn sem á að veiða úr hlýtur það að koma við einhverja. Það geta ekki allir veitt eins mikið og þeir vilja alltaf. Þegar menn eru komnir inn á þá braut að takmarka sókn er mjög erfitt að halda úti tveimur kerfum þar sem annar aðilinn, aðili undir öðru kerfinu, er takmarkaður miðað við aflahámark á bát en hinn er ekki takmarkaður nema mjög laust svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Þeir sem hafa verið á sóknarmarki hafa ekki búið við neina sambærilega takmörkun á afla sínum og aflamarksbátar hafa mátt búa við í mörg ár. Það er einfaldlega óviðunandi ástand frá sjónarhóli þeirra sem eiga að stjórna þessu, frá sjónarhóli þeirra sem eiga að setja lögin og frá sjónarhóli þeirra sem hafa valið að vera undir aflamarki. Því hljóta breytingar, sem menn gera, að taka á því að takmarka framúraksturinn á sóknarmarkinu. Því var það að mínu viti ábyrgðarlaus málflutningur m.a. hjá frambjóðendum Sjálfstfl. á Vestfjörðum sem og frambjóðanda Alþfl., ég undanskil hann ekki í þessum hópi, að halda því fram að þeir gætu komist fram með það að þeir gætu viðhaft sóknarmarkið í svipuðu formi og það hefur verið undanfarin 1--2 ár. Menn máttu vita að þær fullyrðingar gátu ekki staðist. Menn fullyrtu eitthvað sem menn máttu vita að hlaut að bregðast enda hefur það gengið eftir. Ég hef því verið þeirrar skoðunar af því að ég veit að báðir þeir þingmenn Sjálfstfl. á Vestfjörðum, sem eru inni, eru miklir kunnáttumenn í þessum efnum að þeir hafa vitað það fyrir fram að þeir voru að tala upp í eyrun á mönnum vitandi að þeir gætu ekki staðið við þær væntingar sem þeir voru að gefa. Því fannst mér það mjög merkilegt þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson var að fá fram hjá hv. þm. Einari Guðfinnssyni hvað hann vildi þá með núverandi sóknarmark, hvort hann vildi takmarka afla sóknarmarksbáta við það hámark sem er í lögunum eða hvort þeir ættu að fá að veiða bara áfram. Það kom fram hjá hv. þm. Einari Guðfinnssyni að hann var að tala um að þeir mættu veiða áfram. Þetta er ekki ábyrgur málflutningur. Það er ekki hægt að halda því fram. Þetta er óábyrgt. Þetta kann að vera gott að tala upp í eyrun á mönnum rétt fyrir kosningar en það kemur bara í bakið á mönnum eftir kosningar.
    Ég sé að tíma mínum er að verða lokið og vil segja að lokum að það eru auðvitað ýmsir annmarkar fleiri en ég hef þegar talið upp sem menn standa frammi fyrir og þurfa að reyna að finna lausn á. Stærsti annmarkinn er að núverandi aflamarkskerfi og hlutaskiptakerfið rekast svo illa á að það er eiginlega óviðunandi sambúð. Það skýrir m.a. hin hörðu átök undanfarin 1--2 ár á milli sjómanna og útvegsmanna, að aflamarkskerfið og hlutaskiptakerfið eru að nokkru leyti andstæður, a.m.k. á meðan menn viðhafa framseljanlegan aflakvóta. Það er í gegnum hina framseljanlegu aflakvóta sem óánægja meðal sjómanna rís hvað hæst þegar er verið að þvinga þá til að veiða leigukvóta, tonn á móti tonni og fá lítið fyrir.
    Í öðru lagi er annar annmarki sem er sá að svona markaðskerfi, sem er að verða hagfræðikerfi eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson kom inn á, meira en stjórnkerfi, gengur auðvitað ekki alltaf vel, sérstaklega þegar það er mjög stór þáttur í atvinnusamsetningu þjóðarinnar. Í mörgum byggðarlögum er það sem menn eru að nota sem markaðskerfi, fiskveiðarnar og vinnsla, undirstaða í atvinnunni. Því eru þessi samfélög ákaflega viðkvæm fyrir breytingum sem markaðskerfið leiðir af sér eins og sölu aflaheimilda burt úr byggðarlögum o.s.frv. og núverandi löggjöf tekur ekki á þessu vandamáli. Það þarf að taka upp í lög viðbrögð við þessu. Ég ne fni sem dæmi að menn höfðu um tíma í lögum um Hagræðingarsjóð sett til hliðar veiðiheimildir, sem menn gátu gripið til, til að leggja til í sjávarplássum þegar það gerðist að aflinn hvarf þaðan af einhverjum ástæðum. Að því leyti er ég sammála því sem fram hefur komið um 500 tonnin að það er rétt hugsun í því, menn eru að taka frá afla til að geta deilt út þar í þeim byggðarlögum sem eru svo viðkvæm fyrir skerðingum eða breytingum að þau geti ekki borið það án stórra áfalla og því þarf leiðréttingakerfi. En ég er hins vegar líka sammála því að mér finnst þessi aðferð að úthluta í gegnum Byggðastofnun vera dálítið ankannaleg og satt að segja ekki til fyrirmyndar.
    Ég vil líka benda mönnum á að þegar menn taka upp tillögur eins og gert er í lögunum um stjórn fiskveiða og Þróunarsjóð eru menn auðvitað óbeint að búa til verðmæti úr því sem menn hafa í höndunum. Þegar menn taka upp yfirstuðlakerfi og þegar menn taka upp úreldingarkerfi á smábátana eru menn að færa þeim eigendum verðmæti, búa til söluvöru úr því sem þeir hafa í höndunum sem að sumu leyti eru svipuð áhrif og menn gera með aflamarki. Mér finnst að sumu leyti að menn megi gæta sín í því, sérstaklega þeir sem tala fyrir sóknarmarki og gegn aflamarki að brenna sig ekki á a.m.k. á báðum höndum með tillöguflutningi af þessu tagi. En ég held að öllum hljóti að vera ljóst að menn eru að leggja skatta á sjávarútveginn til að borga úreldingu, til að borga verðmæti til einstaklinga með þessum tillögum og það kann að vera það eina sem menn geta gert. Þetta er það sem menn hafa gert í landbúnaði og þetta sem menn hafa gert að mestu leyti í sjávarútvegi með aflamarkskerfinu, að búa til verðmæti sem menn hafa síðan getað fénýtt til að sleppa skaðlaust frá sínum atvinnurekstri eins og dæmi er um í landinu og ég veit að hv. þm. Sjálfstfl. á Vestfjörðum þekkja betur en margir aðrir.