Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 17:58:56 (437)


[17:58]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér held að það sé rétt að rukka hv. þm. Einar Guðfinnsson betur um afstöðu hans fyrir kosningar. Það var öllum ljóst að banndagakerfið mundi leiða af sér að á næsta fiskveiðiári fjölgaði banndögum mjög mikið vegna þess hversu mikið veiddist. Því voru það margir sem sögðu við stjórnmálamennina: Hvað ætlið þig að gera til að koma í veg fyrir það? Með öðrum orðum var það sem var fyrirsjáanlegt, óbreytt banndagakerfi með fleiri banndögum, mönnum þungbært. Menn sáu fram á að það yrði mönnum ekki hagkvæmt og vildu fá breytingar til þess að staða þeirra yrði betur tryggð en hún yrði samkvæmt núgildandi lögum.
    Ég spyr því: Átti að skilja tillögur sjálfstæðismanna á Vestfjörðum þannig að þeir væru að segja við sjómenn á krókabátunum: Við ætlum að sjá til þess að þið veiðið ekki meira en þessi 20 þús. tonn og þar með verða ekki fleiri banndagar eins þeir eru að biðja um? Nei, þið sögðuð það ekki. Þið sögðuð að

kerfið eins og það verður næsta fiskveiðiár að óbreyttu væri ekki nógu gott. Við ætlum að breyta til að bæta stöðu ykkar. Með öðrum orðum voruð þið að segja, hv. þm.: Við ætlum að leyfa ykkur að veiða meira. Það er alltaf vinsælt að segja það þegar verið er að útdeila skortinum, verið að deila of litlu milli of margra, að segja við hvern og einn: Við ætlum að leyfa ykkur að veiða meira en samkvæmt kerfinu. Þannig geta menn fengið mikið af atkvæðum og orðið vinsælir, en það verður hlutskipti þeirra sem þannig tala að þeir geta ekki efnt sín orð. Það er það sem ég hef gagnrýnt sem ábyrgðarlausan málflutning af því að það máttu þeir sjá fyrir eins og ég og fleiri að var ekki hægt að efna.