Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 18:03:36 (439)


[18:03]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Niðurstaðan sem kemur fram í frumvörpunum er að mönnum er gefinn kostur á að velja um tvennt: Annars vegar að velja um banndagakerfið eins og það er og mun verða á næsta fiskveiðiári með 230 banndögum. Það var ekki það sem Sjálfstfl. sagði við sjómenn á Vestfjörðum að hann ætlaði að gefa þeim kost á að búa við óbreytt kerfi. Hinn kosturinn er að menn geti valið sér aflahámark og tryggt sér þannig hlutdeild í þessum sameiginlega potti. Það sagði Sjálfstfl. ekki heldur við sjómenn á Vestfjörðum að hann ætlaði að bjóða þeim upp á því að hann sagðist vera á móti því. Því eiga þeir eftir að skýra það hvernig þessi niðurstaða mætir þeirra málflutningi. Ég fæ ekki séð að hún geri það og ég á bágt með að sjá að þessi niðurstaða tryggi hlutdeild Vestfirðinga í þessum potti sem væntanlega er það markmið sem menn stefna að, að tryggja það sem best að bátar í sjávarplássum á Vestfjörðun hafi í heildina tekið svipaða hlutdeild úr krókaveiðum og verið hefur vegna þýðingar krókaveiðanna fyrir atvinnulíf í þessum smáu plássum sem hafa lítið sem ekkert orðið eftir af aflamarki sem hefur verið selt í burtu.
    En þingmenn Sjálfstfl. á Vestfjörðum eiga eftir að sannfæra mig og aðra um það að þessar tillögur nái þeim markmiðum sem þeir settu upp, standi undir þeim væntingum sem þeir byggðu upp með málflutningi sínum sem var satt að segja ekkert annað en ábyrgðarlaus yfirboð. Því miður.