Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 18:33:51 (443)


[18:33]
     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. segir að ég er vel að mér í textarýni og það er alveg sjálfsagt að ég taki mér fyrir hendur að rýna í það hvað hv. þm. Alþfl. hafa sagt fyrir kosningar, eftir kosningar o.s.frv.
    Að því er varðar þessar tvær spurningar sem til mín er varpað þá er svar mitt eftirfarandi: Það er ekki rétt að það sé stefna Alþfl. að hafa krókaveiðar frjálsar. Þarna vantar einn staf upp á. Í stefnuskrá flokksins segir: Að gera krókaveiðar frjálsari. Svona er þetta nú í stefnuskrá Alþfl. og má vera það inntak sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur í fórum sínum sé eitthvað illa læsilegt. (Gripið fram í.) Ég fellst hins vegar á það, herra forseti, að þarna skiptir i-ið talsverðu.
    Að því er varðar afstöðu Alþfl. til aflamarkskerfisins þá er það svo að flokkurinn hefur samþykkt ályktun sem efnislega segir það að hann geti ekki sætt sig við kvótakerfið í núverandi mynd enda sé það meingallað. Ég get ekki svarað þessu betur.