Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 18:48:07 (447)


[18:48]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég byrja á að þakka þær málefnalegu og ágætu umræður sem hér hafa farið fram í dag. Auðvitað er það svo að ekki er óeðlilegt að ýmis sjónarmið komi fram þegar svo vandasöm og viðkvæm úrlausnarefni eru til meðferðar eins og hér er verið að fjalla um og ekki síst í því ljósi að hér er einnig verið að fjalla um málefni sem snúa að miklum hagsmunum. Þess vegna gefur auga leið að margvísleg sjónarmið geta komið fram þegar leita þarf úrlausnar um lagfæringar af því tagi sem við fjöllum um hér í dag.
    Umræðan hefur verið jákvæð að því leyti að ég held að langflestir þeir sem hér hafa talað séu því meðmæltir að gera hér á ákveðnar breytingar til úrbóta. Mér sýnist þó að skiptar skoðanir geti verið um sumt að í meginatriðum telji menn nauðsynlegt á þessu stigi að taka á þeim úrlausnarefnum sem frumvörpin, sem hér eru til umfjöllunar, taka til.
    Varðandi fyrirspurn hv. 4. þm. Norðurl. e. um endurskoðun fiskveiðistjórnunarlaganna er rétt að minna á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er skýrt tekið fram að fiskveiðistefnan byggir að mestu á aflamarkskerfi og þar er skírskotað til þess að við búum við þær aðstæður í dag að aflamarkskerfið ræður að stærstum hluta en að því er varðar hluta smábátanna gilda aðrar reglur og engin áform uppi um að gera þar grundvallarbreytingar á. Síðan er tekið fram í starfsáætlun sjútvrn. að áformað er að framkvæma mat á kostum þeim sem koma til greina við stjórnun fiskveiða og gera hagkvæmniathuganir þar á. Ég lít svo á að það sé eitt af viðamestu verkefnum okkar á hverjum tíma að stunda jafnan hagkvæmnirannsóknir á aðferðum við fiskveiðar. Það er álíka mikilvægt og að stunda líffræðirannsóknir sem eru grundvöllur stjórnkerfisins. Og þegar við höfum afgreitt þau mál sem hér eru til umfjöllunar verður það eitt af fyrstu verkum ráðuneytisins að undirbúa þetta starf. Ég vænti þess að þar geti komið að verki fulltrúar hinna ólíku hagsmunaaðila í sjávarútvegi og stjórnmálaflokka.
    Hv. 4. þm. Austurl. vék að því í ræðu sinni að það kynni að vera vandasamt og erfitt fyrir þá sjómenn sem eiga hlut að máli að velja á milli þaks í þorskveiðum eða fjölgunar banndaga eða róðrardagakerfis. Vissulega kann það að vera svo en á hinn bóginn er auðvitað ljóst að engir eru betur til þess fallnir en sjómennirnir sjálfir að taka ákvarðanir hér um. Ég tek undir það með hv. 3. þm. Vestf. að í þessu efni er engir góðir kostir til. Við erum að fjalla um úrlausnarefni í talsvert miklum þrengingum og engar einfaldar lausnir eru til í þessu efni. Þegar menn standa frammi fyrir tveimur meginkostum til úrlausnar er ekki óeðlilegt að gefa sjómönnunum sjálfum kost á að velja því það getur auðvita verið misjafnt hvað hentar hverjum og einum best í því efni og ekki víst að ein allsherjarlausn sé hin eina rétta.
    Hv. 4. þm. Austurl. vék að endurnýjunarreglunum og það gerði einnig hv. 15. þm. Reykv. Í máli beggja kom fram að þeir töldu að of langt væri gengið varðandi kröfur um endurnýjun. Auðvitað er það

svo að hér getur alltaf verið um matsatriði að ræða. Ég tek þó undir með hv. 1. þm. Vestf. að þessar reglur eru hluti af þeirri viðleitni að skapa betra lífsrými fyrir þá sem krókaveiðar hafa stundað og hafa haft af því lífsviðurværi og markmiðið er auðvitað fyrst og fremst að verja stöðu þeirra. Frá mínum bæjardyrum séð eru þessar reglur fyrir sóknarveiði eðlilegar.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. spurði um yfirlýsingar í verkefnaáætluninni um skoðun á sveiflujöfnun í sjávarútveginum. Ég minni aðeins á í því tilefni að núgildandi lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins eru enn í gildi þótt þau hafi verið gerð óvirk þangað til þorskstofninn nær aftur 250.000 lesta veiðimarki. Því er nauðsynlegt að huga að því hvað á að taka við þegar þar að kemur.
    Enn fremur tek ég fram vegna þeirrar umfjöllunar, sem hefur orðið, og komið fram í máli flestra þeirra sem er hafa talað um róðrardagana að það er ætlun ráðuneytisins að hraða þeirri vinnu svo sem frekast er kostur og ég vona að við náum þeim breytingum fram sem allra fyrst. En við viljum auðvitað tryggja að þær geti gengið fram á þann veg að þær skapi eðlilega festu og tryggi að það eftirlit sem er nauðsynlegt með þessum veiðum eins og öðrum geti farið fram með skýrum og skilvirkum hætti.
    Ég ætla ekki hér, herra forseti, að gera að umtalsefni ræðu hv. 9. þm. Reykv. Í ræðu hans kom fram fjölmargt varðandi fiskveiðistjórnunarkerfið og þau sjónarmið sem liggja þar að baki og væri ástæða til að ræða ítarlega en hv. þm. er ekki viðstaddur nú við lok umræðunnar þannig að ég vona að okkur gefist tími til að ræða þau álitaefni síðar. Ég ítreka þakklæti mitt til hv. þm. sem hafa talað fyrir málefnalega umræðu og veit að bæði málin fá vandaða meðferð hjá hv. sjútvn.