Lyfjalög

14. fundur
Miðvikudaginn 07. júní 1995, kl. 13:41:18 (455)


[13:41]
     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Ég taldi að það væri vilji ríkisstjórnarinnar að reyna að greiða fyrir þingstörfum eins og hægt væri. Ég verð hins vegar að segja að ég tel ekki að það sé mikil fyrirgreiðsla við þingið að koma hér inn með mál sem vitað er að deilur munu spinnast um og ágreiningur ríkja um. Og koma með þessi mál á þeim dögum sem við a.m.k. vildum halda að væru síðustu dagar þessa skamma vorþings.
    Herra forseti. Ég hlustaði mjög grannt eftir ræðu hæstv. heilbrrh. til þess að reyna að finna rökin fyrir þessari frestun. Ég hafði líka lesið mjög grannt athugasemdirnar við lagafrv. sem raunar voru uppistaðan í þeim texta sem hæstv. heilbrrh. fór hér með. En mér er fyrirmunað að finna rökin fyrir henni.
    Hæstv. heilbrrh. vísaði til hinnar þverpólitísku nefndar sem sett var á laggir til þess að fylgjast með áhrifum lyfjalaganna sem samþykkt voru á sínum tíma. Þar kom fram að meiri hluti nefndarinnar telur að áhrif laganna muni ekki að fullu koma fram fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári. Það kom hins vegar ekki fram í máli hæstv. ráðherra að nefndin hefði lagt til að þær breytingar yrðu gerðar á gildistöku laganna sem lagt er til í 2. gr. frv. Þess vegna vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra: Er það samkvæmt tilmælum þeirrar lyfjanefndar sem hún vísaði til að þetta frv. er lagt fram? Sannast sagna finn ég ekki rök fyrir því að fresta þeim tveimur köflum sem vísað er til í 2. gr. frv. sem fyrir liggur.
    Um hvað fjalla þessi frumvörp, herra forseti? Í fyrsta lagi er verið að afnema í þeim lögum sem nú eru í gildi löngu úrelt skömmtunarkerfi á lyfsöluleyfum og í öðru lagi er verið að auka frelsi í verðlagningu á lyfjum. Það dylst því engum, herra forseti, að með samþykkt þessa frv. er verið að snúa af braut sparnaðar varðandi kostnað lyfja. Það vekur eftirtekt mína, herra forseti, að þegar ég les greinargerð fjmrn. með þessu frv., þá virðist sem fjmrn. sé í rauninni andsnúið innihaldi frv. og telji að það sé ekki líklegt til annars heldur en að hækka kostnað vegna lyfja. Þannig segir, með leyfi forseta, í fylgiskjali sem hefur að geyma umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. svohljóðandi: ,,Ef frv. verður að lögum er líklegt að ekki náist fram frekari lækkun á álagningu lyfja í smásölu nema stjórnvöld beiti til þess öðrum aðgerðum.``
    Það liggur alveg ljóst fyrir að þegar menn lögðu þessa breytingu til sem var samþykkt með lyfjalögunum á sínum tíma, þá var verið að reyna að auka og örva samkeppni og efla þannig annars vegar þjónustu og hins vegar að lækka álagningu á smásölunni. Og það eru engin rök sem hafa komið fram og alls ekki í máli hæstv. ráðherra eða í greinargerðinni sem fylgir frv. sem rökstyðja að nú eigi enn að fresta um átta mánuði gildistöku þeirra tveggja kafla sem frv. fjallar um.
    Um hvað fjalla þessir kaflar? VII. kafli gildandi laga felur það í sér að forsetaleyfi til lyfjasölu er afnumið og það eru sett ákveðin skilyrði þeim sem vilja fá leyfi til lyfsölu. Þessi skilyrði voru mjög ströng og ég tel að þau hafi hvívetna gætt hagsmuna neytenda. Þau fólu í aðalatriðum í sér að umsækjandi þarf að hafa menntun á sviði lyfjafræði, hann þarf að hafa verslunarleyfi eða samning við aðila sem hefur slíkt leyfi. Jafnframt var gert að skilyrði fyrir veitingu leyfisins að viðkomandi umsækjandi hefði þriggja ára starfsreynslu en þó er vert að geta þess að það var heimild til ráðherra að víkja frá starfsreynsluskilyrðinu ef sérstaklega stóð á og almannahagsmunir voru taldir kalla á það til að mynda í smærri byggðarlögum þar sem lyfsala var ekki fyrir hendi. Þá var líka í lögunum gert ráð fyrir því að samþykki Lyfjaeftirlits ríkisins þyrfti að liggja fyrir áður en starfsemi lyfjabúðar hæfist og með því var auðvitað verið að tryggja að í hvívetna væri rétt staðið að bæði rekstri og búnaði verslunarinnar. Vert er að ítreka að það komi líka fram að í kaflanum er kveðið á um heimild til ráðherrans til að takmarka fjölda lyfjabúða í heilsugæsluumdæmum þar sem fjöldi íbúa var undir 5.000 svo fremi sem ástæða þætti til að ætla að ný lyfjabúð til viðbótar þeirrar sem fyrir var kæmi í veg fyrir að viðunandi lyfjaþjónustu yrði upp haldið. Ég tel þess vegna að lögin hafi verið góð eins og þau voru samþykkt. Þau hafi verið framhald á stefnu fyrri ríkisstjórnar um að hverfa frá braut miðstýringar, frá braut hafta yfir í aukið frelsi. Ég tel að samhliða hafi þetta þjónað þeim tilgangi að lækka kostnað þeirra sem þurfa lyfja með og lækka kostnað ríkisins af lyfjum líka. Ég verð að segja að ég skil ekki að hæstv. heilbrrh. sem æ ofan í æ hefur talað um nauðsyn þess að gæta aðhalds í rekstri heilbrigðiskerfisins skuli koma með þetta frv. Ég bið um rökin. Það er ekki nóg fyrir mig að flutt séu þau rök að ólíklegt sé að áhrif lyfjalaganna komi að fullu fram fyrr en á næsta ári. Það eru engin rök. Ég tæki mark á því ef hin þverpólitíska lyfjanefnd teldi þetta nauðsynlegt en ekki kom fram í máli hæstv. ráðherra að hún gerði það og þess vegna er eftir því spurt hvort hún hafi gert það.
    Þá er líka vert að nefna, herra forseti, að miklar deilur spunnust um frv. á sínum tíma. Það náðist sátt um það og sáttin lá ekki síst í þeirri staðreynd að það varð samþykki heilbr.- og trn. á sínum tíma

að setja gildistöku þessara tveggja kafla við 1. nóv. á þessu ári. Það er alveg ljóst af samtölum við þá sem koma nálægt lyfjaverslun að þeir eru þeirrar skoðunar að frestur til 1. nóv. sé ærið nógur fyrir þá til þess að undirbúa sig og aðlaga þessum breytingum. Ég á líka mjög erfitt með að skilja hvernig hv. þm. Sjálfstfl. geta tekið þátt í að samþykkja svona vegna þess að þetta er augljóslega í andstöðu við stefnu Sjálfstfl., sem a.m.k. í orði kallar sig málsvara frjálslyndis í viðskiptaháttum. Ég skil ekki, herra forseti, hvernig þeir geta stutt þetta. Er það kannski svo að hið nýja andlit Framsóknar, sem dylur auðvitað ekkert annað en gamla afturhaldið þegar kemur að viðskiptum í landinu, er nú að gægjast fram og er að breiða sig líka yfir andlit Sjálfstfl. Mér er raun að því að horfa upp á góða drengi og góðar konur samþykkja svona hluti.
    Herra forseti. Það er eitt af hlutverkum stjórnmálamanna sem setja leikreglur, m.a. ákveðinn ramma fyrir atvinnulífið í landinu, að skapa stöðugleika í því umhverfi sem einstaklingar og fyrirtæki starfa í. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að flestir þeir sem hafa starfað að lyfjaverslun í landinu hafa þegar hafið undirbúning að breytingum starfshátta sinna til samræmis við þær breytingar sem voru gerðar með samþykkt lyfjalaganna 1994. Menn hafa verið að breyta fyrirtækjunum yfir í hlutafélög, menn hafa jafnvel lagt í ærinn kostnað við breytingar á fyrirtækjunum, keypt hús, breytt innréttingum. Ég held því að það sé alveg ljóst að þetta skapar óvissu fyrir starfsemi þessara fyrirtækja. En það sem mestu skiptir er að ég fæ ekki séð að þetta þjóni hagsmunum neytenda og ég fæ heldur ekki séð að þetta þjóni hagsmunum ríkisins. Eins og kemur glögglega fram í áliti fjmrn. mun þetta ekki leiða til lækkunar á lyfjakostnaði eins og menn höfðu þó gert sér vonir um.