Lyfjalög

14. fundur
Miðvikudaginn 07. júní 1995, kl. 13:58:38 (459)


[13:58]
     Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ágætar umræður um þetta stutta mál sem ég lagði fram og ég vona að það lengi ekki tímann á hinu háa Alþingi þó einu máli sé frestað um átta mánuði sem mikill ágreiningur var um á sínum tíma. Hv. formaður heilbr.- og trn. hefur nú vissar efasemdir um málið og spurði spurningar varðandi þá þverpólitísku nefnd sem átti að fylgjast með áhrifum EES-samningsins á lyfjamálin og spurði hvort það væri hún sem hefði þau áhrif að ég mundi fresta þessu máli. Meðal annars er það álit nefndarinnar og ég vil upplýsa hv. formann heilbr.- og trn. sem er nú hvergi nálægur og langar kannski ekkert að hlýða á það hvers vegna þessu máli er frestað enda get ég komið þeim upplýsingum til hans hvenær sem er. Hann er ekki í þingsalnum eins og er. En málið er það að EES-samningurinn varðandi lyfjamálin var miklu umfangsmeiri en við var búist. Það þurfa að koma til níu nýjar reglugerðir til þess að fullnægja samningnum. Það eru ekki komnar fram nema ein af þessum níu.
    Eins og kom fram í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur áðan er það reglugerð um auglýsingar og kynningu á lyfjum og var einmitt rædd mjög mikið á sínum tíma því að við teljum að aukið frelsi til auglýsinga á lyfjum kunni að geta aukið lyfjaneyslu. Á sama tíma og við erum að auglýsa lyf erum við að opna fleiri lyfjaverslanir sem enn og aftur auka neyslu lyfja. Þetta er samhengið í málinu og þetta er það sem við ætlum að skoða þessa átta mánuði þar til lögin taka gildi. Það kann vel að vera að frv. muni taka einhverjum breytingum á þeim tíma en það mun koma í ljós eftir því sem dagarnir líða og áhrif EES-samningsins gera vart við sig.
    Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir spurði hvort þetta mundi hafa aukin útgjöld í för með sér varðandi Tryggingastofnun ríkisins. Svarið er nei og svarið er einnig nei við þeirri spurningu sem kom fram hjá hv. formanni heilbr.- og trn. Frv. hefur engan sparnað í för með sér þó svo að yrði lögum í dag að opna fleiri lyfjaverslanir. En það er ekkert sem sannar að það hafi neinn sparnað í för með sér.
    Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að rekja þetta nánar. Ég tel að það sé mikilvægt að farið sé vel ofan í saumana á þessum málum og þessi tími sé notaður vel vegna þess að á þeim hluta lyfjalaga, sem tók gildi í júní 1994, sem er ekki langur tími, það er akkúrat ár, þurfti að gera fjórar lagabreytingar um það málefni. Það sýnir að málið var náttúrlega ekki nægilega vel unnið á sínum tíma.