Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

14. fundur
Miðvikudaginn 07. júní 1995, kl. 14:02:33 (460)


[14:02]
     Kristín Halldórsdóttir :
    Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að segja nokkur orð um þetta þingmál sem er gott innlegg í nauðsynlega umræðu um starfsemi stjórnmálaflokkanna. Þetta efni hefur verið nokkuð til umfjöllunar hjá Kvennalistanum og við höfum lagt fram þingmál um það eins og hv. 13. þm. Reykv. minnti á í framsögn sinni og ég vísa til þáltill. um fjárframlög til stjórnmálaflokka sem lögð var fram á tveimur síðustu þingum en hlaut ekki afgreiðslu Alþingis. Með leyfi hæstv. forseta hljóðaði sú tillaga þannig:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa níu manna nefnd til að undirbúa löggjöf um fjárframlög til stjórnmálaflokka og stjórnmálasamtaka. Jafnframt verði nefndinni falið að leggja mat á það hvort nauðsyn beri til að setja lög um starfsemi stjórnmálaflokka að öðru leyti. Nefndina skipi fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi, fulltrúi félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, fulltrúi Rannsóknastofnunar í siðfræði og fulltrúi Lögfræðingafélags Íslands auk fulltrúa frá fjármálaráðuneyti sem jafnframt sé formaður nefndarinnar.``
    Tilurð þessarar tillögu má rekja til þeirrar miklu umræðu sem oft og einatt hefur komið upp um fjárreiður stjórnmálaflokkanna og leiddi til þess m.a. að stjórnmálaflokkunum barst erindi frá nokkrum háskólakennurum haustið 1993 þar sem þeir skoruðu á flokkana að beita sér fyrir því að setja skýrar reglur eða lög um fjárframlög til flokkanna til samræmis við lög og reglur í öðrum löndum. Við kvennalistakonur ákváðum að bregðast við þeirri áskorun með því að leggja fram þessa tillögu. Hún var lögð fram þegar á 117. löggjafarþingi og svo aftur á síðasta þingi. Enda þótt hún hlyti ekki formlega afgreiðslu á 117. löggjafarþingi varð hún ásamt öðru til þess að forsrh. gaf fyrirheit um stofnun nefndar til að fjalla um og undirbúa frv. til laga um fjárhagslegan stuðning við stjórnmálaflokka og þá þætti sem slíkum stuðningi tengjast. Þetta fyrirheit var gefið við 3. umr. á Alþingi um frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt í desember 1993 en þá samþykkti meiri hluti Alþingis að framlög fyrirtækja til stjórnmálaflokka væru frádráttarbær frá skatti. Kvennalistinn greiddi atkvæði gegn þeirri tillögu einn þingflokka og taldi eðlilegt að fyrst yrðu mótaðar reglur um starfsemi stjórnmálaflokka og þar með fjárhagslegan stuðning við þá. Síðan varð niðurstaðan að forsrn. óskaði eftir tilnefningu í þessa nefnd og Kvennalistinn tilnefndi fulltrúa í nefndina en hún hefur eins og kom fram í máli hv. frsm. ekki enn þá verið kölluð saman. Nú virðist sem einhver hreyfing sé á því máli og má merkilegt teljast að það þurfi svona mikið til að þessi nefnd fari af stað þrátt fyrir þau fyrirheit sem gefin voru.
    Eins og sjá má af þessari tilvitnun í tillögu okkar þá eru kvennalistakonur þeirrar skoðunar að brýnast sé að setja reglur um fjárframlög til stjórnmálaflokka og stjórnmálasamtaka en ekki jafneinboðið að löggjöf þurfi um starfsemi þeirra að öðru leyti. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð með því þingmáli, sem er til umræðu og samkvæmt því sem við höfðum raunar kynnt okkur, eru sömu viðhorf víðar uppi. Þess vegna varð niðurstaða okkar að vísa þeirri umræðu inn í þá nefnd sem yrði skipuð og kalla eftir rökstuddu áliti þaðan, þ.e. um þörfina fyrir lagasetningu um starfsemi stjórnmálaflokka.
    Ég vil líka geta þess að kvennalistakonur hafa ítrekað lýst þessum viðhorfum í hópi þeirra sem hafa fjallað um skiptingu þess fjár sem veitt er á fjárlögum hvers árs til stjórnmálaflokkanna. Þar hafa menn árlega togast á um það sem til skiptanna er og breytt skiptireglum eftir eigin skilgreindum þörfum. Nú gilda t.d. allt aðrar reglur en fyrir áratug og miklum mun hagstæðari fyrir fjölmennari þingflokkana en þá fámennari. Við höfum marglýst því yfir í þeim hópi að það beri að setja fastar reglur um þessa skiptingu og raunar var settur til þess starfshópur fyrir nokkrum árum en hann gufaði upp eins og svo margar nefndir gera án þess að skila miklu verki til gagns.
    Ég get líka upplýst að þrátt fyrir allt þetta og þrátt fyrir örlög tillögu okkar höfum við kvennalistakonur að sjálfsögðu reynt að viðhafa eðlilegar og góðar reglur við meðferð fjár og greinargerð um það fé sem samtökin hafa haft með höndum. Við höfum upp á síðkastið látið löggilta endurskoðendur fara yfir reikninga okkar og gengið frá öllu slíku í samræmi við góðar skilavenjur. En það er ekkert launungarmál að það kostar fé og það er kannski ein ástæðan fyrir því að ýmislegt hefur þótt á skorta hjá stjórnmálaflokkum í þessu efni. Það er mjög kostnaðarsamt að halda úti þeirri starfsemi sem til þarf í stjórnmálasamtökum ef vel á að vera, þrátt fyrir mikla sjálfboðavinnu sem er í slíku starfi. Sá kostnaður fer sífellt vaxandi og það er ekkert leyndarmál að flestir flokkar og stjórnmálasamtök berjast í bökkum, eða kannski ættum við að segja í bönkum, og eiga við skuldir að stríða og hafa hreinlega ekki bolmagn til vandaðra vinnubragða. Ég held þess vegna að það sé mjög nauðsynlegt að setja um þetta ákveðnar reglur og viðmiðanir og að því laut sú tillaga sem Kvennalistinn bar fram á síðustu tveimur þingum og ég vil lýsa sérstökum stuðningi við þann þátt í þessu frv.
    Ég ætla ekki að fara ítarlega í efni þessa frv. en fagna vissulega framlagningu þess og því tilefni sem það gefur til þess að ræða þetta mál. Frv. er að mörgu leyti efnisminna í sniðum eða ekki eins ítarlegt og ýmis frumvörp sem áður hafa komið fram og flestir viðstaddir þekkja sjálfsagt nokkuð vel. Vísa ég þar fyrst og fremst til þess þingmáls sem var samið af milliþinganefnd í framhaldi af þingsályktun sem

var samþykkt vorið 1976. Aðeins einn hv. núv. þm., Ragnar Arnalds, sat í þeirri nefnd sem Ellert B. Schram stýrði. Í greinargerð með því frv. kemur reyndar fram að menn hafi ekki náð samstöðu um öll ákvæði þess, þ.e. þau ákvæði sem fjalla um fjárhagsmálefni stjórnmálaflokka og hefur svo alltaf verið þegar þessi mál hafa verið til umræðu, m.a. í þeim starfshópi sem ég minntist á áðan. Það er auðvitað ástæðan fyrir því að ekki hefur enn tekist að koma neinum reglum yfir þennan þátt í starfsemi stjórnmálaflokkanna.
    Ég vil aðeins nefna örfá atriði í frv. sem er til umræðu. Í 2. gr. er kveðið á um skyldu stjórnmálaflokka til þess að birta opinberlega lög sín, stefnuskrár og stefnumarkandi samþykktir. Ég vildi gjarnan spyrja hv. 1. flm. að því hvar sú birting ætti að vera, hvort hér væri verið að hugsa um birtingu í Stjórnartíðindum eða einhvers staðar annars staðar eða e.t.v. birtingu í þeim blöðum sem viðkomandi ráða yfir en þá er á það að líta að um það er ekki að ræða í öllum tilvikum. Ég reikna sem sagt með því að hér sé átt við Stjórnartíðindi en þess er ekki getið í skýringu við greinina.
    Varðandi 3. gr. vil ég gjarnan ítreka það sem kom reyndar fram í máli hv. 1. flm. að hvarfli það nú að einhverjum að með samþykkt slíkrar greinar væri starfsemi Kvennalistans orðin eitthvað vafasöm er sá skilningur vitaskuld alrangur. Kvennalistinn er eins og fram kemur í lögum okkar opinn öllum sem styðja stefnu Kvennalistans og mismunar þannig engum. En þetta vil ég taka fram og ítreka vegna túlkunar í útvarpsfréttum af þessu þingmáli sem var reyndar svo góðfúslega leiðrétt.
    Ákvæði 5. gr. er athyglis- og umhugsunarvert og mundi kalla á breytt vinnubrögð, a.m.k. í þeim einu stjórnmálasamtökum sem ég þekki náið. Vinnubrögð okkar í þessu efni hafa reyndar aldrei komið að sök en óneitanlega hafa heyrst sögur um slíkt, jafnvel að menn hafi freistast til að undirrita einhverja yfirlýsingu eða eitthvað slíkt og verið þar með allt í einu komnir á skrá hjá viðkomandi stjórnmálasamtökum eða flokki. Það má því vel vera að rétt væri að setja um þetta ákvæði.
    Ég vil sömuleiðis fagna því sem fram kemur í 8. gr. Ég held að það væri hið besta mál að banna hreinlega slíkar persónunjósnir á kjörstað eins og sumir hafa kallað. Og enn vildi ég nefna 10. gr. og kannski vísa því til hv. 1. flm. um þessa viðmiðun, þ.e. að stjórnmálasamtökum sé heimilt að taka við fjárframlagi eða ígildi þess frá einstökum aðilum, einstaklingum eða fyrirtækjum, þó þannig að fari framlag yfir 300 þús. á hverju reikningsári skal birta nafn styrktaraðila samhliða birtingu ársreikninga. Spurningin er kannski hvers vegna 300 þús., hvernig sú tala var hugsuð, hvers vegna ekki hugsanlega lægri tala, 100 þús. eða eitthvað slíkt. Ég hef ekki raunar neina tillögu í því efni en þætti forvitnilegt að vita hvað liggur þar til grundvallar.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en lýsi ánægju minni með að þingmál af þessu tagi komi inn í þingið og vonast til þess að færi gefist á að fjalla ítarlega um þetta og það leiði til einhverrar niðurstöðu í málinu sem svo oft hefur komið til umfjöllunar í þinginu eða milliþinganefndum án þess að það hafi leitt til neinnar niðurstöðu.