Lánasjóður íslenskra námsmanna

14. fundur
Miðvikudaginn 07. júní 1995, kl. 15:08:09 (467)


[15:08]
     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég harma að hæstv. menntmrh. skuli ekki geta tekið af skarið um það hvort hann vill breyta eftirágreiðslum í samtímagreiðslur námslána eins og allir flokkar lýstu stuðningi við í kosningabaráttunni og sögðust mundu beita sér fyrir. Hitt er þó miklu verra að hann skuli vera haldinn af þessum ranghugmyndum um stöðu Lánasjóðs ísl. námsmanna. Staðreyndin er sú að hún var góð. Eiginfjárstaða hans var góð að mati Ríkisendurskoðunar, jákvæð upp á 8 milljarða kr. Í öðru lagi er það sem er alvarlegt að hæstv. menntmrh. þyrfti endilega að kynna sér að staða sjóðsins versnaði á síðasta kjörtímabili undir stjórn formanns Alþfl. og Sjálfstfl. í þessu máli. Þrátt fyrir stóryrtar yfirlýsingar að þeir væru að bjarga sjóðnum stefndi hann lóðbeint á hausinn ef þeir hefðu haldið áfram með þeim aðförum gagnvart Lánasjóðnum, m.a. í lántökum hans sem þeir hófu á síðasta kjörtímabili.