Lánasjóður íslenskra námsmanna

14. fundur
Miðvikudaginn 07. júní 1995, kl. 15:09:16 (468)


[15:09]
     Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að hv. 8. þm. Reykv. varði nokkrum tíma til þess að rifja upp hvað menn hefðu sagt fyrir kosningar í málinu og tíundaði þá sérstaklega ummæli hæstv. viðskrh. sem gekk reyndar fetinu framar, má kannski segja, en jafnvel hv. þm. Svavar Gestsson í loforðum um breytingar fyrir kosningar. En honum skjöplaðist í einu atriði og það var þetta að hann sagði að allir flokkar nema Sjálfstfl. hefðu heitið því að endurskoða ákvæði um eftirágreiðslur, þ.e. tekið afstöðu til spurningarinnar um samtímagreiðslur að loknu fyrsta námsári þegar menn hefðu sannað sig í námi.
    Ég rifja upp fyrir hv. þm. að á fundi með stúdentum í Háskólabíói, sem var einn af nokkrum slíkum fyrir kosningar, var til svara af hálfu Sjálfstfl. Gunnar Birgisson, formaður Lánasjóðs ísl. námsmanna. Eftir að fjmrh. hafði svarað neitandi þessum spurningum svaraði hann því skýrt og skilmerkilega að það væri stefna Sjálfstfl. að líta það jákvæðum augum að tekin yrði upp samtímagreiðsla að loknu fyrsta námsári. Hann var þá spurður hvort þetta væri einkaskoðun hans eða afstaða Sjálfstfl. Hann lýsti því yfir að það væri stefna Sjálfstfl. Hann var spurður hvort ætti að taka mark á honum eða hæstv. fjmrh. Á sjálfum mér, að sjálfsögðu, var hans afdráttarlausa svar. Það fer því ekkert á milli mála að yfirlýsingar lágu fyrir frá öllum flokkum fyrir kosningar um það að menn hefðu jákvæða afstöðu til þess að endurskoða ákvæðin um eftirágreiðslur, þ.e. að því er varðar Alþfl. og reyndar líka Sjálfstfl. með vísan til þessara ummæla ,,að loknu fyrsta námsári þegar menn hefðu sannað sig í námi`` en það var tilgangurinn með þeim breytingum sem gerðar voru réttilega að mínu mati til fyrri ríkisstjórnar að tryggja það að námslánin kæmu þeim að gagni sem væru í alvörunámi og stæðu við námsframvindukröfur.