Lánasjóður íslenskra námsmanna

14. fundur
Miðvikudaginn 07. júní 1995, kl. 15:57:07 (475)


[15:57]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála því að það á að gera sömu kröfu til allra í þessum efnum. Ástæða þess að ég dró þetta inn í umræðuna í lokin var sú að það má vel vera að nýir þingmenn Framsfl. eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir séu ekki alveg búnir að átta sig á því að það hafi kannski aldrei verið meiningin að efna neitt af því sem Framsfl. sagði í kosningabaráttunni og það sé ástæða fyrir því að þingmanninum hafi orðið svona á í umræðu sl. fimmtudag. Ég var bara að beina því góðfúslega til Alþýðublaðsins að það hefði þá sem eftirfylgni gagnvart öðrum þingmönnum Framsfl., sérstaklega þeim sem ég tel að beri aðalábyrgð á þessu, en þessum nýja hv. þm.
    Ég verð að segja alveg eins og er að þótt þetta misræmi í yfirlýsingum hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur sé ekki gott, finnst mér hins vegar að ef núv. hæstv. viðskrh. ætlar ekki að breyta þessum reglum um lánasjóðinn núna á þessu sumarþingi sé athæfi hans gagnvart íslenskum námsmönnum á undanförnum árum miklu alvarlegra og það sé leitun að dæmi um mann sem hafi hér um áraraðir talið sig vera talsmann námsmanna og fær nú ráðherravald í hendur, ætlar að beita því á fyrstu mánuðum til þess að svíkja þau fyrirheit sem hann og flokkur hans gaf íslenskum námsmönnum. Það verður lengi munað, hæstv. viðskrh., lengi munað.