Afgreiðsla heilbrigðisnefndar á frumvörpum um áfengismál

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 13:36:13 (479)

[13:36]
     Ögmundur Jónasson :
    Hæstv. forseti. Ég tek eftir því að á dagskrá þingsins eru komin frumvörp um breytingar á verslun með áfengi. Þessi frumvörp hafa verið til umfjöllunar í þremur nefndum á vegum þingsins, efh.- og viðskn., allshn. og heilbrn. og úr þeirri nefnd var málið tekið án þess að fyrir lægi skrifleg greinargerð frá hæstv. heilbrrh. en nefndarmönnum hafði verið tjáð að heilbrrh. mundi láta nefndinni í té slíka greinargerð. Vil ég að það komi fram hér að ég ásamt hv. 18. þm. Reykv., fulltrúa Þjóðvaka í nefndinni, mótmælti því að nefndin lyki störfum áður en greinargerðin lægi fyrir eins og um var rætt.
    Tilefni þess að ég kveð mér hljóðs er að vekja máls á þessum vinnubrögðum þingsins. Í fyrsta lagi er mikilsvert að þingmenn séu sjálfum sér samkvæmir og á það við t.d. um hæstv. heilbrrh. sem gefur yfirlýsingar af því tagi sem hér hefur verið vitnað til. Það á einnig við um hv. þm. almennt. Ég vek athygli á því að margir hv. þm. Framsfl. gáfu yfirlýsingar gagnvart kjósendum fyrir kosningar, en virðast nú vera að ganga þvert á þær yfirlýsingar í þessu máli. Við þetta vakna spurningar um hver stýri ferðinni.
    Við munum það öll þegar starfsmaður Verslunarráðsins, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, flutti þjóðinni útvarpsávarp ekki alls fyrir löngu frá höfuðstöðvum Evrópusambandsins í Brussel og tilkynnti þjóðinni á enskri tungu að ekki kæmi til greina að ljúka þingstörfum fyrr en öllu brennivíni væri lokið.
    Nú vitum við það að hagsmunaaðilar verslunarinnar, Kaupmannasamtökin, Verslunarráðið og aðrir sem vilja og ætla að höndla með áfengi og græða á brennivínssölu, eru mjög óþolinmóðir að fá botn í þessi mál, en spurning mín er sú hvort þingið ætli að láta bjóða sér þessi vinnubrögð, hvort þingið ætli að láta duttlunga hagsmunaaðila stýra ferðinni, hæstv. forseti.
    Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hvort ekki sé eðlilegt og heppilegt að taka málið út af dagskrá þangað til fæst betri friður, þangað til umrædd greinargerð liggur fyrir. Það er ljóst að þetta mál er í uppnámi. Það eru að koma til þingnefnda tillögur að lagabreytingum frá degi til dags, frá klukkutíma til klukkutíma. Þessi mál þarf að vinna betur og ég beini því til hæstv. forseta að taka þetta mál út af dagskrá þangað til það liggur ljósar fyrir.