Afgreiðsla heilbrigðisnefndar á frumvörpum um áfengismál

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 13:40:53 (481)


[13:40]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt að það hefur verið mjög gott samkomulag um málin hér að undanförnu í hópi þingflokksformanna og hæstv. forseta og ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa beitt sér fyrir því að halda þannig á málum. Það er hins vegar ljóst að ef það á að takast að ljúka þingi fyrri hluta næstu viku, þá þurfa menn að hafa eins gott samkomulag og mögulegt er á öllum stigum mála, ekki aðeins á vettvangi þingflokksformanna og forseta heldur líka í nefndunum sjálfum og þá er ég ekki að tala

um það að menn nái samkomulagi um efnisatriði málanna, heldur um almenna, þingtæknilega meðferð þeirra.
    Nú barst mér það til eyrna fyrir skömmu að það hefðu orðið veruleg átök bæði í hv. efh.- og viðskn. og eins hv. heilbrn. um meðferð þessara svokölluðu áfengismála og hvernig á þeim hefur verið tekið og m.a. hversu hratt málin hafa verið tekin út úr nefndunum. Það hefur m.a. spurst að inn í hv. efh.- og viðskn. hafi komið brtt. um grundvallarbreytingar á þessum áfengismálafrumvörpum og þessar brtt. hafi mjög lítið fengist ræddar. Ég verð að segja það alveg eins og er, hæstv. forseti, að ef það er í fullri alvöru ætlunin að ljúka þinginu næstu daga, þ.e. fljótlega eftir helgi, þá gengur þetta ekki. Ég vil því leyfa mér að taka undir þau orð hv. 17. þm. Reykv. að þannig verði haldið á málum að þessum frumvörpum sem hann nefndi verði ekki þrýst hér inn á dagskrána að óþörfu í dag nema í fullu samkomulagi við þá aðila sem með þessi mál fara, bæði í þingflokkunum og í viðkomandi nefndum.