Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 14:00:46 (487)


[14:00]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að halda til haga þessum málfarslegu athugasemdum sem ég nefndi við 1. umr. og segja að ég tel umfjöllun nefndarinnar að því leytinu til ófullnægjandi. Í fyrsta lagi vegna þess, svo ég nefni þau atriði sem hv. þm. minntist á þó það væri margt fleira hægt um þetta að segja, að það hefði þurft að endurskrifa allan þennan texta, hann er ómögulegur. Það er eiginlega hneyksli að ganga svona frá þessu þannig að ég mun ekki styðja málið eins og það lítur út. Það er til skammar og mér finnst engin ástæða til þess að Alþingi sé að afgreiða mál með þessum hætti og ég sé engin rök fyrir því heldur að það sé nauðsynlegt. Jafnvel þó þetta sé orðrétt þýðing upp úr ensku eða frönsku þá eru það ekki rök í málinu vegna þess að mönnum hefur jafnvel tekist að koma Biblíunni á íslenskt mannamál þó hún sé þýdd úr fjarlægari málum en þessu. Mér finnast það þess vegna engin rök. Og það er satt að segja þannig að ef Alþingi gefst upp við það að skrifa niður sæmilegan texta í lögum þá er brostin þó nokkur stífla varðandi íslenskt mál og þróun þess og stöðu. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það hugsar enginn um íslenskuna og stöðu hennar fyrir okkur. Það hefur enginn í heiminum áhuga á þessu máli nema við og örfáir fræðimenn. Þannig að ef við höfum ekki metnað til að halda utan um þessa hluti þá gerir það enginn fyrir okkur. Þess vegna tel ég að það sé engin ástæða til að afgreiða þetta mál eins og það lítur út. Ég mun þess vegna sitja hjá við afgreiðslu þessa máls eingöngu af þessum íslenskuástæðum.
    Í öðru lagi varðandi einstök orð sem hv. þm. nefndi. Ég ætla ekki að fara að ræða það mikið en ég tel þetta ekki spurningu um afstöðu Orðabókar háskólans eða skoðun á orðinu launþegi. Orðabók háskólans getur haft einhverja skoðun á því eða einhver stofnun getur haft vísindalega skoðun á því og það er örugglega mjög auðvelt að sýna fram á það hvernig launþegi beygist eins og farþegi í öllum föllum bæði í eintölu og fleirtölu. Það er hægt að renna sér yfir það og hafa mikla speki uppi um þau mál. Sömuleiðis um málfarslegan uppruna orðsins þegi og má fara langt í þeim málum ef menn vilja, aftur í gotnesku ef mönnum sýnist svo. Aðalatriðið er það að orðið launþegi er pólitískt orð. Það er orð sem hefur sætt pólitískum deilum. Þess eru dæmi að frv. hefur verið breytt í þinginu úr launþegi yfir í launamaður eða launafólk af pólitískum ástæðum og Alþingi fallist á þá breytingu.

    Hið sama er að segja um orðið vinnuveitandi. Það er ekki vegna þess að þeir sem gjarnan nota orðið vinnuveitandi eða launþegi séu sammála okkur hinum um það að orðin séu merkingarhlaðin með tilteknum hætti. Það er ekki þess vegna heldur vegna þess að menn hafa viljað hafa sátt um þau orð sem notuð eru. Það er engin sátt um orðið launþegi. Vegna þess að það þýðir fyrst og fremst mann, einstakling, sem þiggur laun burt séð frá því hvort hann lætur vinnu í té að mínu mati og okkar mjög margra.
    Þess vegna þá tel ég að þarna hefði átt að breyta til. Þau lög sem breytt var um heiti á beinlínis af þessum ástæðum eru lögin um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda sem hafa verið hér í gildi lengi, ég hygg frá árunum 1979, 1980, 1981 eða þar um bil. Upphaflega voru þau reyndar sett í tíð Björns Jónssonar félmrh. Ég hygg að það hafi verið 1972 eða 1973.
    Varðandi orðið feðgatali sem er miklu skemmtilegra í þessu samhengi og fyndnara þá geta menn haft hvaða skoðun á því sem þeim sýnist mín vegna en það orð er þannig að þó það sé til í lögunum um landsdóm og öðrum lögum sem hv. þm. nefndi ( KÁ: Erfðalögin.) í erfðalögunum, þá mun það vera þannig að þetta orð er hvergi til í íslensku máli utan lagasafns. Hins vegar er til orðið langfeðgatal og er hversdagslegt orð á íslensku. Það er dálítið skrítið og segir kannski pínulítið um lagasetningarvaldið að það skuli nota orðafar og orðalag sem hvergi er til nema í þessu herbergi, þessari stofnun. Það er nokkuð merkilegt og til umhugsunar. Hins vegar fyndist mér að það ætti að vera til umhugsunar fyrir hv. formann félmn. hvort þetta orð stenst nútímavinnubrögð við það að orða lög. Hér er bara talað um feðgatal en ekki mæðgur eða kvenlegginn, hann er gjörsamlega látinn úti í þessari hugsun. Og ég hygg að þessi dæmi sem hv. þm. nefndi sanni það betur en flest annað að þetta orðbragð er vitlaust. Það gengur ekki. Og ætti að hreinsa bæði lögin um landsdóm og erfðalögin af þessu vegna þess að það er fornöld. Það er fornöld. Því sem betur fer er það nú orðið þannig og hefur verið um áratuga skeið að konur geta tekið arf alveg eins og karlmenn, svo merkilegt sem það nú er.