Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 14:06:32 (488)


[14:06]
     Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það með hv. 8. þm. Reykv. að það stendur enginn vörð um íslenskuna nema við og okkur ber auðvitað skylda til þess. En sannleikurinn er nú sá að hefði átt að koma þessu frv., sem við erum hér að ræða, yfir á það sem ég mundi kalla létt og lipurt mál þá hefði, eins og fram kom í máli hans, þurft að endurskrifa það nánast frá grunni. Það er sá vandi sem við stöndum frammi fyrir og snertir samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði að okkur er uppálagt að gera hér ýmsar breytingar og höfum til þess ákveðinn frest. Og nú er svo komið að það er lögð mikil áhersla á að þessar reglugerðir sem hér um ræðir nái fram að ganga. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því að það er ekki tími til þess að endurskrifa þessi lög sem ég get vissulega tekið undir að ástæða hefði verið til. Það sem kannski kom ekki nógu skýrt fram í mínu máli er það að kannski ekki hvað síst vegna þess flaums af reglugerðum sem við eigum eftir að fá hér inn á næstu árum þá er ástæða til að fara rækilega ofan í það hvaða orð við viljum nota, m.a. yfir launafólk og atvinnurekendur og ýmislegt fleira sem þar kemur við sögu. Það varð niðurstaðan að láta þetta fara svona þó mér sé það ekki sérlega ljúft og hefði viljað leggja meiri vinnu í þetta og kannski er það ákveðin uppgjöf en eigum við bara ekki að lofa bót og betrun og fá fram góða umræðu um málfar á lagatexta sem oft og iðulega mætti vera betri en hann er.