Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 15:37:09 (493)

[15:37]
     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Það eru góð tíðindi að norsk-íslenski síldarstofninn er nú að rétta við. Á sínum tíma var hann u.þ.b. 10 millj. tonna og á þeim árum stóð hann undir gríðarmikilli síldveiði bæði Íslendinga, Norðmanna og raunar annarra þjóða norður og austur af Íslandi. Þegar sú veiði stóð yfir var síldveiðin norður og norðaustur af Íslandi grundvöllur undir u.þ.b. þriðjungi af andvirði útfluttra sjávarafurða frá Íslandi. Uppbygging á Íslandi í mörgum byggðarlögum var að verulegu leyti háð þessum veiðum. Þess vegna eru það góð tíðindi að stofninn er nú aftur farinn að rétta við. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir hjá fiskifræðingum virðist sem hið krítíska magn hrygningarstofnsins sé 2,5 millj. tonna, þ.e., herra forseti, þegar stofninn kemst yfir það mark þá má búast við mjög góðum árgöngum undan stofninum. Nú er það svo að menn telja að stofninn sé kominn í 3 millj. tonna og ég tek undir það með hæstv. utanrrh. að nauðsynlegt er að vernda stofninn eins og hægt er. Hins vegar er ekki sama hvernig það er gert og Íslendingar geta ekki látið bjóða sér hvað sem er.
    Hér liggur fyrir tillaga til þingsályktunar um staðfestingu þess samning sem hæstv. utanrrh. gerði fyrir Íslands hönd við Færeyinga um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum fyrir þetta ár. Hins vegar er óhjákvæmilegt að taka örlítið til umræðu þær samningaviðræður sem Íslendingar áttu líka við Norðmenn í aðdraganda þess samnings sem við gerðum við Færeyinga. Það hefur aldrei komið opinberlega fram, herra forseti, hverjar kröfurnar voru sem Íslendingar settu fram gagnvart Norðmönnum. Hér er hins vegar um lykilatriði að ræða. Nauðsynlegt er að nú þegar stofninn er að stækka setjum við fram af fullri festu og einurð þær kröfur sem geta í framtíðinni dugað til þess að við fáum þann kvóta úr stofninum sem okkur ber söguleg hefð og réttur til. Ég verð hins vegar að segja það, herra forseti, að mér þykir sem hæstv. ríkisstjórn hafi tekist mjög óhönduglega við um samningana. Eins og menn muna, herra forseti, hafði hæstv. utanrrh. um það mörg orð að nauðsynlegt væri að gera þessa samninga og undir það tek ég en það mátti líka skilja mál hans svo að það væri næsta auðvelt mál að ná fram þessum samningum. Síðan fór hæstv. utanrrh. í mörg ferðalög til Noregs og var myndaður í viðræðum við norska ráðamenn en það kom nákvæmlega ekkert út úr þeim samningum. Herra forseti, ég verð að segja að miðað við þær fréttir sem koma frá fjölmiðlum þakka ég guði fyrir að það náðust ekki samningar á þeim grundvelli sem blaðafregnir segja að hafi verið grunnur krafna Íslendinga.
    Herra forseti. Í Morgunblaðinu 10. eða 11. maí er því haldið fram að Íslendingar hefðu upphaflega sett fram kröfur um 100 þús. tonn. Þetta tel ég vera víðsfjarri hagsmunum Íslendinga ef þetta er rétt. Þess vegna verð ég að spyrja hæstv. utanrrh.: Er rétt að kröfur Íslendinga hafi verið u.þ.b. 100 þús. tonn eða innan við 200 þús. tonn? Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir og reyndar líka í ræðu hæstv. utanrrh. að það hafi valdið gríðarlegum vonbrigðum hversu daufar undirtektir voru hjá Norðmönnum við kröfum Íslendinga. Það er nú svo. Af máli hæstv. utanrrh. mátti ráða að Íslendingar hefðu lamið í borðið og sagt: Hingað og ekki lengra, við tökum ekki það sem býðst. Þegar málið er hins vegar skoðað grannt kemur í ljós að í rauninni hefur hæstv. utanrrh. þegið fyrir Íslands hönd úr lófa Norðmanna þann kvóta sem þeir skildu eftir handa okkur. Skoðum málið örlítið, herra forseti. Heildarkvótinn sem Alþjóðahafrannsóknaráðið telur að megi veiða núna úr öllum stofninum er í kringum 900 þús. tonn. Norðmenn tóku einhliða ákvörðun um að veiða 650 þús. tonn. Það liggur því fyrir að fyrir Íslands hönd ákvað hæstv. utanrrh. ásamt Færeyingum að taka það sem eftir er. Okkur er með öðrum orðum skammtað úr hnefa það sem Norðmenn vilja láta okkur fá.
    Herra forseti. Þetta gefur tilefni til að láta rannsaka aðeins söguna og kanna hver er okkar sögulegi réttur. Veiðar úr þessum stofni hafa yfirleitt verið þrenns konar samkvæmt hefð. Það hafa verið vetrarveiðar á síld við vesturströnd Noregs þar sem veidd hefur verið hrygnandi síld og síld á hrygningargöngu. Síðan voru það veiðarnar fyrir norðan og norðaustan Ísland sem Íslendingar, Norðmenn og Rússar og aðrar þjóðir stóðu fyrir. Í þriðja og allra versta lagi og það sem mestar og verstar afleiðingar hafði fyrir stofninn voru smásíldarveiðar Norðmanna. Þetta voru gríðarlegar veiðar og ekki er lengur um það deilt að það voru þessar smásíldarveiðar sem drápu norsk-íslenska stofninn. Í niðurstöðum í fræðiritum norskra sérfræðinga, sem gerðu úttekt á hruni stofnsins og birtu um það fræðigreinar í kringum 1980, kemur fram að það hafi verið veiði Norðmanna á síldarseiðum á aldrinum núll til tveggja ára sem drap stofninn. Síldarárið mikla 1967 var heildaraflinn í kringum 1.700 þús. tonn. Það ár veiddu Íslendingar 690 þús. tonn. Stórsíldarveiði Norðmanna á þeim tíma var í kringum 600--700 þús. tonn og það ár voru Norðmenn að taka u.þ.b. 450 þús. tonn af smásíld.
    Herra forseti. Síldin verður ekki kynþroska og sameinast ekki hrygningarstofninum fyrr en hún er orðin fjögurra ára. En allar götur frá því árið 1950 voru Norðmenn að veiða 300--500 þús. tonn af þessari ungsíld. Á hverju einasta ári veiddu þeir líka 100 þús. tonn af síldarseiðum og slíkar veiðar er ekki hægt að kalla annað en seiðaveiðar. Sum árin eins og í byrjun sjötta áratugarins og sjöunda áratugarins fóru þessar veiðar á seiðum innan við tveggja ára aldur upp í 300 þús. tonn.
    Herra forseti. Mér virðist að þegar við reynum að meta það hvað á að leggja til grundvallar þegar við gerum kröfur okkar um réttmætan kvóta úr þessum síldarstofnum sé ekki hægt að taka tillit til þeirra veiða sem Norðmenn stóðu fyrir úr smásíldarstofninum. En það er einmitt það sem mér virðist mega skilja á kröfugerðinni og líka þeirri staðreynd að við tókum okkur með Færeyingum 250 þús. tonn. Mér virðist sem menn séu að taka tillit til þeirrar veiðireynslu. Ég tek undir það sem Gunnar Flóvenz segir í grein í Morgunblaðinu á síðasta ári að það er fráleitt að rányrkja Norðmanna komi þeim til góða.
    Herra forseti. Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir um veiðar Færeyinga á þessu sumri hygg ég að það megi slá því föstu að sá kvóti sem hæstv. utanrrh. hefur samið um fyrir Íslands hönd sé innan við 20%, sennilega í kringum 15%. Ég tel það allt of lítið. Það er ekki með nokkru móti hægt að rökstyðja að við eigum að fara fram á svo lítinn kvóta. Það er að vísu svo eins og hæstv. utanrrh. sagði í ræðu sinni áðan og kemur líka fram í samningnum og hæstv. sjútvrh. sagði nokkrum sinnum líka í fjölmiðlum að þetta er bráðabirgðasamkomulag sem á ekki að hafa fordæmisgildi inn í framtíðina. Hvaða utanrrh. í öllum heiminum dytti til hugar að taka svona til orða um alþjóðlega samninga? Auðvitað er ekki hægt að gera samninga sem hafa ekki fordæmisgildi inn í framtíðina. Auðvitað er það svo að sá samningur sem liggur fyrir hefur fordæmisgildi. Við höfum nánast sagt það við Norðmenn með þessum samningi að við séum að fallast á það að skerfur okkar af 900 þús. tonnum eigi að vera ásamt Færeyingum 250 þús. tonn, þ.e. skerfur okkar sé einhvers staðar í kringum 180 þús. tonn. Það er einfaldlega allt of lítið og ég vísa því alfarið á bug að með slíkum samningum sé verið að gæta hagsmuna Íslendinga.
    Herra forseti. Það er ýmislegt fleira sem ég gæti sagt um þennan samning. Ég ætla ekki að standa í vegi fyrir því að hann verði afgreiddur en ég vil ítreka að ég tel að kröfur Íslendinga eins og þær hafa komið fram í fjölmiðlum eru allt of lágar og ég tel að hér hafi ekki verið vel á málum haldið frá sjónarhóli hagsmuna Íslendinga.