Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 16:03:52 (496)


[16:03]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Sjávarútvegsmálin teljast ekki til minnar deildar í þinginu en ýmsar spurningar vöknuðu hjá mér þegar ég hlustaði á framsögu hæstv. utanrrh. og ekki síður hv. 15. þm. Reykv. og mig langar til að minna þann þingmann á að síldarsaga okkar Íslendinga er ekki mjög glæsileg hvort sem við horfum aftur til fyrstu áratuga aldarinnar eða tímabilsins rétt fyrir 1970 þegar stundaðar voru miklar ofveiðar, ekki aðeins á norsk-íslenska síldarstofninum heldur líka þeim íslenska sem leiddi til þess að síldveiðar voru nánast algerlega bannaðar hér um árabil þannig að við skulum líta í eigin barm þegar við erum að horfa á nýtingu fiskstofna.
    Það mál, sem er til umræðu, er að mínum dómi angi af miklu stærra máli og máli sem eflaust á eftir að koma margsinnis inn í þingsali á næstu árum en það er spurningin um úthafsveiðar og rétt hinna ýmsu þjóða til þeirra og jafnframt þeirrar spurningar hvernig eigi að nýta sameiginlega fiskstofna þar sem hagsmunir tveggja eða fleiri þjóða rekast saman. Hér erum við auðvitað að takast á við það sívaxandi vandamál hvernig á að nýta takmarkaðar auðlindir og hvernig eigum við, sem eigum allt okkar undir fiskveiðum, að umgangast okkar eigin auðlindir í hafinu og þær sem eru utan okkar lögsögu.
    Þær spurningar sem vakna í mínum huga og ég vil beina til hæstv. utanrrh. eru í fyrsta lagi hvernig talan 250 þús. tonn er fundin. Ég get tekið undir það sjónarmið sem fram kom þegar samningur Íslendinga og Færeyinga var kynntur að hann væri m.a. gerður til þess að koma í veg fyrir óheftar veiðar, en hvernig er talan fundin? Er hún bara út í bláinn eða var hugsunin sú að halda sig innan einhverra marka, einhvers hluta þess sem nú er talið vera veiðigeta stofnsins? Ég vildi gjarnan að hæstv. utanrrh. eða hæstv.

sjútvrh., ef hann er betur til þess fallinn, upplýsi okkur um það hér.
    Ekki síður finnst mér vera spurningin um nýtingu þeirrar síldar sem verið er að veiða, hvað við ætlum að gera við hana og hver stefna stjórnvalda er í þeim efnum. Tekin var ákvörðun að ég hygg fyrir tveimur árum að beina þeim tilmælum til þeirra sem stunda síldveiðar að einbeita sér meira að vinnslu til manneldis, þ.e. gera síldina að verðmætari vöru en hún er sem mjöl eða þegar verið er að bræða hana í lýsi og mér finnst það eigi vera hluti af auðlindastefnu okkar að nýta stofn eins og síldina til manneldis og þannig að hún skili okkur sem mestu. Síld er einhver eggjahvíturíkasti fiskur sem til er og þar af leiðandi afar hentugur og góður til manneldis og var um aldir aðalfæða fátæks fólks á Norðurlöndum. Því miður hefur dregið allverulega úr neyslu síldar og mér fyndist að það ætti að vera eitt af stefnumörkum íslenskra stjórnvalda að kynna síldina miklu betur sem matvöru en nú er gert. Ég vil í því sambandi nefna að ég tel að í Bandaríkjunum sé allnokkur markaður fyrir síld til manneldis. Þar eru milljónir manna sem eru afkomendur þjóða sem þekktu vel til þess hvað hægt er að gera úr síld og þegar ég var þar á ferð í fyrra kom það nokkrum sinnum fyrir að mér var boðið upp á síld bæði á hótelum og í heimahúsum og mér þótti hún vond, mér þótti þar vera um heldur lélegt hráefni að ræða. Ég veit ekki hvaðan hún er komin en mér finnst að þeir sem stunda síldarsölu hér á landi mættu horfa aðeins til Bandaríkjanna og kanna hvort þar sé ekki um markaði að ræða fyrir íslenska síld.
    En meginspurning mín var sú hvernig talan er fundin en jafnframt vil ég taka undir þau sjónarmið að við þurfum að halda vel á málum okkar í samningum við Norðmenn og aðrar þjóðir en við megum aldrei gleyma því að við erum fyrst og fremst strandveiðiþjóð og við verðum ávallt að gæta þess að kröfur okkar og það að við teygjum okkur út á úthöfin komi ekki í bakið á okkur sjálfum þegar við ætlum að reyna að vernda okkar eigin fiskstofna.