Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 16:38:29 (501)


[16:38]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. hefur staðfest að það er rétt með farið að ekkert samráð var haft við fulltrúa flokkanna utan ríkisstjórnarinnar áður en fyrri viðræðufundurinn var í Noregi. Ekkert samráð var haft eftir fyrri viðræðufundinn, það var ekkert samráð haft milli fundanna, það var ekkert samráð haft fyrri fundardaginn hér í Reykjavík, það var ekki haft samráð fyrr en síðdegis seinni fundardaginn hér í Reykjavík þegar ljóst var að samningarnir voru komnir í strand þrátt fyrir það að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna hafa verið tilbúnir til að mæta til samráðsins a.m.k. klukkan 10 29. apríl. Hvers vegna er verið að ræða þetta hér, hæstv. utanrrh.? Það er vegna þess, eins og kom m.a. fram í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að það hafa verið í gangi fullyrðingar af hálfu ýmissa aðila um að upphaflega kröfugerðin eða hugmyndirnar af hálfu íslensku viðræðunefndarinnar bæði í Ósló, milli fundanna, og jafnvel fyrri fundardaginn í Reykjavík, hafi verið með þeim hætti að a.m.k. við teljum að það hafi engan veginn verið hægt að sætta sig við það. Þess vegna sagði ég áðan að nauðsynlegt væri að hreinsa málið vegna þess að engir fulltrúar voru frá öðrum flokkum en ríkisstjórnarflokkunum sem komu að því máli að móta stefnuna fyrir Óslóarfundinn, eftir Óslóarfundinn og meðan aðalviðræðurnar stóðu í Reykjavík. Hvort menn eru kallaðir saman undir lokin þegar málin eru nánast öll komin í strand og það er borið undir þá hvort það á ekki að stranda þeim og láta slitna upp úr þeim er ekki það samráð sem ég er að tala um. Samráðið felst í því að ræða stefnumótunina ítarlega fram og aftur áður en til fundar er haldið og vegna þess að ég tók þátt í því á sínum tíma hvernig haldið var á málum varðandi Jan Mayen-deiluna og loðnudeiluna þá voru það allt önnur vinnubrögð.