Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 16:41:01 (502)


[16:41]
     Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vænti þess að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sé ekki að gagnrýna það að við gátum á engan veginn sætt okkur við þær hugmyndir sem Norðmenn voru með uppi í málinu sem voru fráleitar og hefur verið gerð grein fyrir í utanrmn. En ég spyr hann: Er hann ósammála þeirri niðurstöðu sem varð á þessum samráðsfundi á sínum tíma? Er hann ósammála henni? Hann getur út af fyrir sig haldið langar ræður um það að það hefði átt að kalla menn til miklu fyrr. En ég held að það sé ekki það sem skiptir meginmáli. Er hann ósammála þeim samningi sem var gerður við Færeyinga sem var farið í í samráði við alla aðila? Er hann ósammála því mati að það hafi ekkert getað annað en slitnað upp úr samningunum við Norðmenn? Þetta eru aðalatriðin. Það er þetta sem liggur fyrir til að taka afstöðu um. Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er að ég skil ekki alveg hvað hann er að fara þegar hann segir að það hafi verið haldið á þessu máli með einhverjum allt öðrum hætti fyrr. Ég kannast ekki við það og tel mig hafa verið hér a.m.k. jafnlengi og hv. þm. á Alþingi. Ég man vel eftir Jan Mayen-samningnum líka. Að vísu var sá háttur á þá að talið var rétt að fulltrúar Alþingis tækju beinlínis þátt í viðræðunum. Ég hygg að hann hafi verið einn af þeim sem tók þátt í þeim viðræðum á sínum tíma úti í Ósló. Þessi háttur hefur ekki verið hafður á lengi. En það má að sjálfsögðu taka það upp aftur hvort það sé talið rétt að haldið sé á málum með þeim hætti að fulltrúar Alþingis komi að mikilvægri samningsgerð við erlenda aðila eins og stundum var gert á þeim árum. Það eru atriði sem rétt er að ræða.