Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 16:56:45 (506)


[16:56]
     Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Við byggjum að sjálfsögðu hugmyndir okkar í dag á þeirri dreifingu sem var á sínum tíma á þessum stofnum. Það er það eina sem við getum byggt á. En ég get ekki annað en svarað því í fullri einlægni að það getur tekið alllangan tíma að ganga endanlega frá þessum samningum til langframa og það hljóta allir að skilja miðað við það hvað stutt er síðan aðilar byrjuðu að tala saman að það liggur eiginlega augljóst fyrir. Þess vegna er verið að tala um samninga í mjög skamman tíma, sem hafa það að markmiði að tryggja að ekki verði ofveiði úr stofninum, þannig að hann verði byggður upp og hann taki upp sitt fyrra mynstur. Að því leytinu til er það rétt hjá hv. þm. að það kunna vel að líða 2--3 ár. En það er hægt að ganga frá framtíðarsamningi sem byggir á mynstrinu sem við þekkjum fyrir 25--30 árum, það er hægt. Og það hefur verið það sem við höfum byggt á í viðræðunum. En það er mjög eðlilegt að allir aðilar, sem standa að málinu, vilji fylgjast með hegðun síldarinnar á hverju ári til að fá staðfestingu á því hvort hún tekur upp fyrra mynstur sitt og það er ástæðan fyrir því að Norðmenn hafa ekki viljað koma til samninga, þeir hafa ekki viljað byggja samningana á þessu gamla mynstri fyrr en síldin væri búin að taka upp fyrri hegðan sína og um það er grundvallarágreiningur milli okkar og Norðmanna.