Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 16:59:11 (507)


[16:59]
     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Þetta hefur verið að mörgu leyti fróðleg umræða og ekki síst þær upplýsingar sem hafa komið fram hjá hæstv. utanrrh. í síðustu ræðu hans varðandi þá stefnu sem mér virðist að hann sé að tjá, að sé sú stefna sem lögð er til grundvallar síldveiðum Íslendinga til framtíðar.
    Fyrst vil ég segja það að ég er þakklátur hæstv. utanrrh. fyrir að hann vill hafa gott samstarf um þessi mál. Hann telur nauðsynlegt og heilbrigt að hafa opna umræðu um stefnuna í þessum málum. Ég er sammála honum um það. Það var af þeim sökum sem ég innti hann eftir því hvaða stefnu Íslendingar hefðu haft uppi í kröfugerð sinni í upphafi samninganna og hvernig það hefði þróast.
    Hæstv. utanrrh. virtist svara mér með þeim hætti að segja að það hefði orðið góð og heilbrigð umræða um þessi mál bæði í sjútvn. og utanrmn. Það er rétt hjá hæstv. utanrrh. en það er svo að það hvílir trúnaður á þeim upplýsingum sem þar komu fram samkvæmt gamalli hefð. Ég tel nauðsynlegt að það komi fram í þingsal hvaða kröfur voru uppi. Hæstv. utanrrh. hefur lýst því undanbragðalaust að þær upplýsingar, sem fram komu í fjölmiðlum, m.a. Morgunblaðinu 10. maí, að upphafleg kröfugerð Íslendinga hefði verið 100 þús. tonn, væru rangar. Þá spyr ég, herra forseti: Hverjar voru kröfur eða óskir Íslendinga í fyrstu lotu samningaviðræðnanna við Norðmenn og hvernig þróuðust þær? Ég tel að það sé mjög mikilvægt að það komi fram vegna þess að ég hygg að þau skref, sem þá voru stigin, kunni að reynast afdrifarík þegar er horft til framtíðar.
    Það er alveg rétt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að ég er geysilega ósáttur við það fordæmi sem mér virðist sem íslensk stjórnvöld séu að skapa með samningnum. Mér virðist raunar líka, herra forseti, að stjórnvöld séu ekki sátt við það heldur vegna þess að í 6. gr. samningsins er skýrt tekið fram að samningurinn hafi ekkert fordæmisgildi að því er varðar framtíðarskipan á veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum. Ég hef haldið því fram í umræðunni, herra forseti, að svona samninga sé einfaldlega ekki hægt að gera. Þegar menn setja punkt aftan við samning, þegar menn fallast á einhverjar tölur, er óhjákvæmilegt að það hlýtur að hafa áhrif þegar til framtíðar er horft.
    Mér virðist miðað við þann hluta sem Færeyingar veiða úr þessum 250 þús. tonna kvóta, ef það verður, virðist mér að það sé svona í kringum 16--18% af þeim kvóta sem Alþjóðahafrannsóknaráðið telur sæmilegt að veiða úr stofninum. Ég tel það gersamlega fráleitt. Að sama leyti verð ég að segja, herra forseti, að mér gest ekki að þeirri hugmyndafræði sem ég þykist verða var hjá hæstv. utanrrh. Ég heyrði

ekki betur en hann segði það alveg skorinort að það væri ekki ætlunin að byggja á veiðireynslu liðins tíma vegna þess að það væri svo langt um liðið. Ég skildi hann svo að það ætti fremur að byggja á dreifingu stofnsins og menn væru með einhverjar rannsóknir í gangi á dreifingu stofnsins. Hann talaði sérstaklega um ungsíld við vesturströnd Noregs. Þetta skil ég ekki, herra forseti. Ég sé nefnilega ekki betur en ef þetta er það sem lagt er til grundvallar óskum okkar um veiðikvóta úr stofninum í framtíðinni séu möguleikar okkar gersamlega undirorpnir duttlungum náttúrunnar. Hæstv. utanrrh. benti réttilega á að það eru sérstakar aðstæður í hafinu norðan og austan Íslands. Þar rennur kaldur straumur sem gerir það að verkum að síldin fer ekki á sína hefðbundnu gönguslóð yfir í það svæði sem nú er innan íslensku efnahagslögsögunnar og þar sem hún áður hafði vetursetu marga mánuði á hverju ári. Ef við gefum okkur það, herra forseti, að engar breytingar verði á þessu, á hvaða grunni ætlum við þá að krefjast þess að fá kvóta úr stofninum? Þá getum við ekki bent á það að síldin gangi inn í íslenska efnahagslögsögu og hæstv. utanrrh. er búinn að slá af þann grunn sem við áður stóðum á sem var veiðireynsla okkar. Ég skil þetta svona. Ég tel, herra forseti, að þetta sé afskaplega hæpin aðferð og hún geti leitt til þess að við náum aldrei vopnum okkar í samningunum við Norðmenn. Ég held að nauðsynlegt sé að byggja á veiðireynslunni. Þar stöndum við vel og ég lýsti því í fyrri ræðu minni að ég teldi aldeilis fráleitt að þegar menn horfa til fortíðarinnar og skoða hvað þjóðirnar hafa verið að veiða tel ég útilokað að inn í þá útreikninga verði teknar það sem ég kalla seiðaveiðar Norðmanna, þ.e. veiðar Norðmanna á ungsíld. Þar er um að ræða tvenns konar veiðar, annars vegar veiðar á því sem Norðmenn kalla feitsíld og er 1--4 ára síld og hins vegar veiðar á síld sem er innan við tveggja ára aldur.
    Norðmenn voru að veiða af ungsíldinni upp í 500 þús. tonn, 550 þús. tonn ef ég man rétt, síldarsumarið mikla 1967, en á hverju einasta ári frá 1950 veiddu þeir a.m.k. 100 þús. tonn af því sem er ekki hægt að kalla annað en seiði, þ.e. síld sem er innan við tveggja ára. Ég tel þess vegna að það komi ekki til greina að þegar við förum að skoða veiðireynslu þjóðanna verði þessi hluti aflans tekinn með og þegar hann er frátalinn held ég að ljóst sé að við stöndum a.m.k. jafnfætis Norðmönnum. Ég vísa líka til þess að hinar hefðbundnu veiðar þeirra út alla öldina voru lengi framan af öldinni vetrarveiðar við vesturströnd Noregs, en þær lögðust af. Mig minnir að það hafi gerst milli 1950 og 1960. Þá sóttu þeir hingað til Íslands.
    Ég minni líka á það, herra forseti, að sú staðreynd að síldin gekk á ætisslóðirnar við Ísland gerði hana miklu verðmeiri vegna þess að hún fór hingað til þess að leita að æti og yfir sumarið fitnaði hún og það var ekki síst sú fita sem hún sótti sér á íslenskum miðum sem gerði hana svo verðmæta sem raun ber vitni.
    Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að dvelja aðeins við rányrkju Norðmanna á smásíldinni. Hvað hefði gerst ef þeir hefðu hlýtt viðvörunum og ekki haldið áfram þessum veiðum? Í grein sem þrír norskir fræðimenn rituðu í eitt af tímaritum Alþjóðahafrannsóknastofnunarinnar, þeir Olav Dragesund, Johannes Hamre og Eyvind Ulltang og birtu 1980, komast þeir að eftirfarandi niðurstöðu:
    ,,Eina takmörkunin sem þurfti til að koma í veg fyrir eyðingu stofnsins var að setja á árunum fyrir 1960 reglur um lágmarksstærð síldar í afla sem vernduðu 0 og 1 árganginn.``
    Með öðrum orðum, hefðu þeir einungis látið af þeim hluta smásíldarveiðanna sem varðaði seiðin hefði stofninn verið í góðu lagi. Hversu góðu lagi, herra forseti? Svona góðu lagi samkvæmt því sem þeir segja og bakreikna:
    Í fyrsta lagi hefði hrygningarstofninn orðið 6 millj. tonna strax árið 1966. Hann komst aldrei yfir það eftir 1960. Veiðarnar hefðu náð 2 millj. tonna strax árið 1965 og staðið í því út áratuginn og eftir það telja þessir ágætu fræðimenn að veiðin árlega hefði sveiflast á milli 1 og 2 millj. tonna, sennilega nær 2 millj. tonna. Menn geta ímyndað sér hve gríðarlegur auður hefði safnast inn í íslenska þjóðarbúið ef þessar veiðar hefðu fengið að halda áfram. Þær fengu ekki að halda áfram vegna þess að Norðmenn drápu síldarstofninn. Allt frá 1951 veiddu þeir yfir 75% af ungsíldinni. Stundum var það bara 1‰ sem náði því að fullorðnast, stundum 2, en í 12 ár frá árinu 1951 er hlutfallið sem náði kynþroska undir 10%. Og í 8 ár náðu undir 5% af smásíldinni því að verða fullorðin. Það er líka fróðlegt, herra forseti, að þegar maður skoðar aflaskýrslur úr Noregi þá er ljóst að það voru tveir árgangar sem stóðu undir öllum þessum feikilegu síldveiðum. Það er annars vegar árgangurinn frá 1950 og árgangurinn frá 1959. Eftir árið 1961 komst enginn árgangur upp inn í veiðarnar. Þeim var gereytt. Það er t.d. fróðlegt að skoða árganginn frá 1950. Enn þá 12 árum eftir að hann klekst er hann upp undir 60% af veiðunum eins og árið 1964. Það er engum blöðum um það að fletta, herra forseti, að það voru Norðmenn sem drápu þennan stofn og það þýðir ekki að láta þá komast upp með það að njóta þess núna. Ég held að það sé hættuleg stefna sem hæstv. utanrrh. boðar hér að ekki eigi að byggja kvótaskiptingu á veiðireynslu liðins tíma heldur á dreifingu síldarinnar. Sá möguleiki vofir yfir að hún komi ekki aftur hingað eins og hún gerði áður fyrr ef það verður t.d. framhald á þessari köldu tungu sem er í hafinu norðan og austan Íslands. Það er ákveðin hætta. Ég vil að vísu taka fram að ríkisstjórnin náði góðum árangri í samningnum við Færeyinga að því leyti til að um gagnkvæmar veiðar í efnahagslögsögu Færeyinga er að ræða og það er nákvæmlega það sem gerir það að verkum að við getum veitt okkar kvóta núna. En ef við ætlum í framtíðinni að byggja á dreifingu en ekki veiðireynslu fortíðarinnar er ég hræddur um að ansi lítið kunni að falla í okkar skaut.