Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 17:10:57 (508)


[17:10]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Það er rétt sem hv. 15. þm. Reykv. hefur sagt í umræðunum að ástæðan fyrir hruni norsk-íslenska síldarstofnsins er að langstærstum hluta til Norðmönnum að kenna vegna mikilla veiða þeirra á smásíld eða ungsíld og full ástæða til þess að draga þá staðreynd fram. Íslenskir vísindamenn gagnrýndu Norðmenn mjög harkalega fyrir þessar veiðar á sínum tíma og sú gagnrýni hefur ugglaust haft mest áhrif á það að Norðmenn breyttu um afstöðu í þessu efni og tóku upp skynsamlegri vinnubrögð varðandi nýtingu síldarinnar.
    En að öðru leyti en þessu hafa ræður þeirra hv. þm., hv. 8. þm. Reykn. og hv. 15. þm. Reykv., verið býsna kyndugar. Hv. 15. þm. Reykv. flutti í fyrri ræðu sinni mikla ádrepu á samninginn við Færeyinga en tók svo fram í síðari ræðu sinni að þetta væri býsna góður samningur vegna þess að hann hefði tryggt veiðirétt okkar í færeyskri landhelgi og það er kannski kjarni málsins. Hvar hafa íslensku skipin verið að veiða síldina nema í færeyskri lögsögu? Hvar hefðum við staðið ef við hefðum ekki með samningum tryggt okkur þann rétt?
    Hv. 8. þm. Reykn. gerir svo mikið úr því að samningar skuli ekki enn hafa tekist við Norðmenn í þessu efni og lýsir með mjög dramatískum hætti að allt sé komið í hnút í samningum um síldina og er að gera samanburð um það hvernig staðið væri að verki í þessum viðræðum í fyrri ríkisstjórn sem kom aldrei kom að þessum samningum vegna þess að þessar viðræður við Norðmenn um síldina hófust ekki fyrr en tíð þessarar ríkisstjórnar. Samt sem áður telur hv. 8. þm. Reykn. sér fært að gera samanburð á því hvernig unnið var að málinu í tíð fyrri ríkisstjórnar. Hann gagnrýnir mjög harkalega að það skuli ekki vera kominn samningur við Norðmenn í einu orðinu en í hinu er hann að ýja að því að sýnd hafi verið of mikil linkind í viðræðum við Norðmenn. Hvernig í ósköpunum getur hv. þm. komið þessum fullyrðingum að í einni og sömu ræðunni? Ekki ætla ég að gera honum það upp að hann sé í raun og veru að meina það að við hefðum átt að semja við Norðmenn á þeim forsendum sem þeir lögðu. Ekki ætla ég að gera honum upp þær sakir að hann hefði viljað sjá samning á þeim kostum. Ég veit að hann er ekki að meina það. En hv. þm. verður og það er hægt að gera til hans þær kröfur að það sé nokkurt samræmi á milli setninga í einni og sömu ræðunni sem hann flytur hér.
    Þegar viðræðurnar hófust í Ósló við Norðmenn stóðu þær í tvo daga. Fyrri daginn var rætt fyrst og fremst um þann grundvöll sem leggja mætti í viðræður um framtíðarskiptingu síldarinnar. Síðari daginn var hins vegar rætt um þá hugmynd sem Norðmenn komu þá upp með nokkuð óvænt að gera bráðabirgðasamkomulag um stjórnun veiðanna í sumar út frá stöðu mála eins og hún er nú. Á þessu er auðvitað mjög verulegur munur. Ástæðan fyrir því að Norðmenn hafa ekki viljað koma til viðræðna við okkur um síldina þrátt fyrir það að eftir því hafi verið gengið í mörg ár er fyrst og fremst sú að þeir hafi ekki viljað koma til slíkra viðræðna fyrr en síldin hefði tekið upp sitt gamla munstur. Við höfum hins vegar sagt: Það er skynsamlegt að gera þessa samninga áður þannig að menn lendi ekki í öngþveiti.
    Á þessum fundi fyrri daginn í Ósló var verið að ræða um grundvöll fyrir framtíðarskiptingu og eins og hæstv. utanrrh. hefur sagt, og bæði úthafsveiðinefnd og utanrmn. hefur verið greint frá, var þar verið að ræða um möguleika á því að leggja svokallað Hamre-módel til grundvallar en þar er verið að setja upp möguleika á líffræðilegri dreifingu stofna. Það var lagt til grundvallar skiptingu á loðnustofninum á sínum tíma. Við höfum nefnilega talið alveg þvert á það sem hv. 15. þm. Reykv. er að halda fram að það væri óvarlegt að leggja veiðireynsluna eina til grundvallar heldur yrðum við að leggja líffræðilegt mat á dreifingu stofnsins innan núverandi lögsögumarka okkar vegna þess að með þeim hætti tryggjum við okkur stærri hlut. Það voru vissulega jákvæð viðhorf af hálfu Norðmanna á þessum fundi um að leggja slíkan grunn fyrir áframhaldandi viðræður. Síðan kom upp hugmyndin um að gera bráðabirgðasamkomulag og það er ekki bara af okkar hálfu sem tekið er fram að hér er um að ræða bráðabirgðasamkomulag sem hefur ekki fordæmisgildi vegna framtíðarinnar heldur kemur það fram í forsendum Noðrmanna að þeir tala um slíkt samkomulag vegna þess að síldin er ekki komin inn í íslenska lögsögu og hefur ekki tekið upp sitt gamla munstur. Það er forsendan af hálfu Norðmanna þannig að það er ekki bara einhliða yfirlýsingar af okkar hálfu.
    Við verðum auðvitað einnig að hafa í huga að við þurfum að sýna ábyrgð í afstöðu okkar. Við tókum þessa ákvörðun á þann veg að heildarútgefinn kvóti yrði innan þeirra marka sem ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknastofnunar segir til um að gangi ekki á stofninn en það er ljóst að sú tala er miklu hærri en nemur skynsamlegri nýtingu til lengri tíma ef við ætlum að fá hámarksafrakstur af stofninum. Það hlýtur að vera markmið okkar að stýra veiðunum þannig að síldin taki upp gamla mynstrið og vaxi í þá stærð að við getum haft hámarksafrakstur af veiðunum. Sú nýting, sem við höfum ákveðið í dag ásamt Norðmönnum, er fyrir ofan skynsamlegustu mörk varðandi hagkvæmustu nýtingu þó að hún eigi ekki að leiða til þess að stofninn sé í hættu með þessum veiðum. Innan þeirra marka vildum við að sjálfsögðu halda okkur.
    Það er líka svolítið sérkennilegt í þessari umræðu eftir að samráð var haft við alla stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila þegar dró að lokum viðræðnanna í Reykjavík að fulltrúar Alþb. og Alþfl. skuli koma með þá afstöðu sem þeir lýsa í dag í ljósi þess að á samráðsfundinum lýstu allir því yfir að þeir væru sáttir við það hvernig haldið hefði verið á málum af hálfu þeirra sem stóðu í viðræðunum. Svo koma þessir flokkar nú og lýsa allt öðru viðhorfi. Það bendir til þess að það sé býsna mikið flökt í afstöðu þeirra. Auðvitað er það svo að við höfum verið að gera samning sem hefur skyrkt stöðu okkar á þessari vertíð. Við höfum sýnt út á við ábyrga afstöðu varðandi nýtingu auðlindarinnar, við höfum tryggt íslenskum skipum veiðirétt innan færeyskrar lögsögu þar sem veiðin hefur verið best fram að þessu a.m.k., og þannig auðveldað skipum okkar að ná í síldina.
    Við höfum lagt á það áherslu að þó að samningar hafi ekki náðst enn að umræður geti haldið áfram bæði að því er varðar möguleika á skammtímasamningum og eins framtíðarskiptingu stofnsins. Af hálfu beggja aðila hefur verið lögð á það áhersla að nefna ekki tölur úr þeim viðræðum sem fram hafa farið opinberlega til þess að þrengja ekki möguleika til að taka upp viðræður á nýjan leik. En bæði úthafsveiðinefnd og hv. utanrmn. hefur verið gerð grein fyrir því hvernig umræðurnar gengu fyrir sig. Þannig að engu hefur verið haldið leyndu í því efni fyrir þeim aðilum, ekki á nokkurn hátt. Vitaskuld er mikið keppikefli fyrir okkur að það náist samningar um stjórnun á veiðum úr stofninum milli þeirra þjóða sem eiga á sögulegum grundvelli þennan stofn, okkar, Norðmanna, Færeyinga og Rússa. Við vitum að aðrar þjóðir eru að gera tilraunir til þess að eigna sér hlut í þessum veiðum. Við vitum af afstöðu Evrópusambandsins sem ætlar að gera tilkall til veiða úr stofninum. En það eru þrátt fyrir deilur okkar við Norðmenn sameiginlegir hagsmunir þeirra þjóða, sem veiddu úr þessum stofni á sínum tíma, að byggja upp sameiginlega stjórnun og ákvörðun um nýtingu á stofninum. Ef við höldum þannig á málum að við útilokum slíka samninga erum við að greiða götu annarra inn í veiðarnar og rýra hlut okkar og hinna þjóðanna sem eiga hlut að máli. Þess vegna veltur á mjög miklu að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að ná slíkum samningum en auðvitað verður það að vera á þeim forsendum sem ásættanlegar eru. Ég hef ekki heyrt nein rök færð fram fyrir því að á þann veg hafi verið haldið á þessu máli til þessa að við höfum veikt stöðu okkar eða samið af okkur í samtölum við Norðmenn um þetta efni.