Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 17:26:03 (511)


[17:26]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. sjútvrh. að engin möguleiki var til þess í stuttum andsvarstíma að fara efnislega ítarlega út í þau fjölmörgu atriði sem hann tók til umfjöllunar en það verður gert á sínum tíma, hæstv. ráðherra. En m.a. sakaði hæstv. ráðherra okkur fulltrúa Alþfl. og Alþb. í úthafsveiðinefnd annars vegar og hér í umræðunum hins vegar um að vera flöktandi í afstöðu okkar. Það var orðið sem hæstv. ráðherra notaði. Flöktandi í afstöðu okkar. Hæstv. ráðherra kom hér upp og fór með fullyrðingar um að ekki væri samræmi milli þeirrar afstöðu sem fulltrúar þessara tveggja flokka hefðu haft hér í dag og í úthafsveiðinefnd. Það eru mjög stór orð, hæstv. sjútvrh., í máli af þessu tagi. Ég tel það ekki vera léttvæg orð þegar hæstv. sjútvrh. ber það hér á fulltrúa tveggja flokka að þeir séu flöktandi í hagsmunagæslu Íslendinga varðandi síldveiðarnar og samskiptin við Norðmenn. Það má vel vera að það eigi kannski ekki að taka hæstv. ráðherra alvarlega. Hann hafi e.t.v. verið í þessari ræðu í þeim gamla Verslunarskólastíl sem hann bregður stundum fyrir sig hér í þingsalnum. En ég skora þá á hæstv. ráðherra að svara loksins þeirri spurningu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson er búinn að bera upp aftur og aftur og aftur og ekkert svar hefur fengist við: Hver var sú tala sem fulltrúar hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh. fóru með í upphafi viðræðnanna við Norðmenn? Hver var talan? Það hefur verið sagt að fréttafrásagnir Morgunblaðsins um það hafi verið rangar. En hæstv. ráðherra svaraði því ekki hver talan hefði verið en fór í staðinn þá leið að bera hv. þm. og mig ásökunum í ræðu sinni. Til þess hefur hann auðvitað fullan rétt.
    En ég vil segja það að lokum við hæstv. ráðherra að þessi samningur við Færeyinga er vegna tölunnar sem í honum er vandræðasamningur. Við í stjórnarandstöðunni höfum rætt það hvernig við gætum leitað leiða varðandi afgreiðslu málsins á þinginu til þess að þetta yrði sem minnst til skaða gagnvart framtíðinni. Málflutningur hæstv. sjútvrh., loksins þegar hann talar í umræðunni, er hins vegar með þeim hætti að það kann að vera nokkuð snúið að finna þann flöt.