Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 17:29:13 (513)


[17:29]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég ítreka að ég var ekki með neinar ásakanir í garð hv. þm. eða fulltrúa þeirra tveggja flokka sem ég vék hér að þó ég gæti auðvitað ekki annað en vakið athygli á því sem fram kom í ræðum hv. þm. sem hér töluðu og þeir geta ekki kveinkað sér undan því. Það fer þeim hv. þm. síst að saka aðra um að vera að bera mönnum á brýn að standa ekki saman í mikilvægum málum að því er varðar hagsmuni okkar út á við.
    Vegna fyrirspurnar hv. þm. þá hefur það komið fram áður og frá því hefur verið skýrt í utanrmn. hvernig að þessum viðræðum var staðið. En af hálfu beggja ríkjanna og samningamanna beggja ríkjanna hefur ítrekað verið tekið fram að hvorug þjóðin vildi draga opinberlega fram þær tölur sem nefndar voru á viðræðufundinum í þeim tilgangi að þrengja ekki stöðuna til þess að taka upp viðræður á nýjan leik. Ég hef ekki orðið var við annað en að allir þeir sem fylgst hafa með þessum viðræðum hafi haft á því fyllsta skilning enda mjög eðlilegt í ljósi þess að við höfum það að markmiði að koma viðræðum á aftur og ljúka samningum eins og hv. þm. lagði mikla áherslu á að gera þyrfti og þá hljóta menn líka að virða þá afstöðu.