Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 17:33:59 (515)


[17:33]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Auðvitað er það svo að við eigum býsna mikið undir náttúruöflunum. Hvort tveggja það að stofninn vaxi í þá stærð að hann af þeim sökum taki upp sitt gamla munstur og eins að aðstæður í sjónum hér við land geri það að verkum að það verði kleift. Auðvitað eigum við mikið undir þessu. Það er alveg augljóst. Við þurfum á hinn bóginn að huga að því hvernig við tryggjum best langtímahagsmuni okkar og þar höfum við fyrst og fremst horft á þennan þátt vegna þess að það liggur í augum uppi að það er líklegast að hann skili okkur mestum árangri og stærstri hlutdeild. Ég held við hljótum að verða sammála um það að við hljótum að leggja á það kapp að til grundvallar samningum verði lögð þau viðmið, sem tryggja stöðu okkar best, og það þarf auðvitað ekki að fara í mikið karp um það því að við getum í rólegheitum farið yfir þær tölur sem fyrir liggja í því efni og gefa okkur gleggstar vísbendingar. Þá veit ég að hv. 15. þm. Reykv. tekur skýrum rökum í þeim efnum eins og aðrir.