Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 17:51:03 (522)


[17:51]
     Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Nei, það er engin samstaða milli Íslendinga og Norðmanna í þessu máli enn þá enda hafa engir samningar náðst og það er engin samstaða um það á hvaða líkönum skuli byggt í þessu sambandi. En ég er eingöngu að benda á þá staðreynd að óeðlilegt væri að byggja eingöngu á veiðireynslu og ég veit að hv. þm. mun komast að sömu niðurstöðu með því að kynna sér þær tölur. Þær eru afar misjafnar. Stundum veiddum við Íslendingar aðeins lítið brot úr stofninum og á öðrum árum veiddum við meira. Það var mjög misjafnt á þeim árum hvaða aðstöðu við höfðum til að nýta hana vegna fiskiskipaflota okkar og aðstöðu að öðru leyti í landinu þannig að það verður að sjálfsögðu að taka tillit til þessara staðreynda.
    En svo að ég svari spurningunni beint er ekkert samkomulag milli Norðmanna og Íslendinga um þetta efni. Sá samningur sem var til umræðu að hugsanlega yrði gerður og er enn til umræðu að komi til greina er eingöngu samningur til bráðabirgða, bráðabirgðasamningur til þess að tryggja það að við missum stjórn þessara veiða ekki úr böndum og getum tryggt að stofninn verði byggður upp en ekki verði um ofveiði að ræða. Ef það gerist að við missum algerlega stjórn á veiðunum þá getur tekið áratugi að byggja hann upp á nýjan leik. Þá er það ekki núverandi kynslóð á Íslandi sem mun njóta afrakstursins eða sú kynslóð sem er nú að vaxa úr grasi heldur verður ný kynslóð sem þá mun njóta þess og það er alveg ljóst að hún verður ekki ánægð með þá frammistöðu ráðamanna þessarar þjóðar ef svo fer.