Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 18:07:12 (526)

[18:07]

     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Árni R. Árnason) :
    Herra forseti. Ég geri grein fyrir nál. meiri hluta sjútvn. og brtt. meiri hlutans sem liggja frammi á þskj. 56 og 57.
    Ef ég mætti útskýra tillögur meiri hluta nefndarinnar áður en ég vík að nál. þá tek ég fram að um 1. lið tillagnanna, sem fjallar um réttindi skipa sem komu til veiða í atvinnuskyni fyrir 1. jan. 1986, er samstaða í nefndinni. Um aðrar tillögur meiri hlutans ríkir ekki full samstaða eins og koma mun fram í máli annarra nefndarmanna sem hér tala á eftir. Í þeim tillögum koma fram ákvæði sem eiga að gera það kleift að leggja grunn að nýju stjórnkerfi fyrir fiskveiðar krókabáta með því að þeim bjóðist frjáls valkostur sem sambærilegur verði við það valfrelsi sem ríkir um veiðar báta og smærri skipa á aflamarki. Með því móti teljum við flestir nefndarmenn, sem telja þetta viðunandi að þessu sinni, að þeim gefist kostur á að taka þátt með sambærilegum hætti og aðrir sjómenn á Íslandsmiðum í uppbyggingu okkar helsta og mikilvægasta veiðistofns og sitja ekki undir gagnrýni annarra um að þeir fari þar fram með öðrvísi en viðunandi geti talist.
    Í þessum tillögum koma fram bráðabirgðaákvæði um gildistöku valkostsins sóknardagar en að öðru leyti eðlileg ákvæði um gildistöku annarra atriða, svo sem vegna nýrra og mjög strangra ákvæða um endurnýjun krókabáta. Þau ákvæði sem eru í 1. gr. frv. eru til þess gerð að bregðast við mjög hraðri og mikilli aukningu í sóknargetu þeirra með sífelldri endurnýjun og uppbyggingu. Við teljum nauðsynlegt vegna þeirra sem fyrir eru í greininni að setja hömlur á svo þar geti menn haldið sínu án þess að sífellt aukist hlutur annarra.
    Herra forseti. Í kosningabaráttunni birtist okkur mjög skýrt miklar og almennar áhyggjur fólks af afkomu og rekstrarmöguleikum allra smærri fiskiskipa, báta og smábáta. Það á bæði við um þá sem fiska í kerfi krókabátanna og hinna smærri sem veiða við stjórn aflamarksins. Um allt land lýstu kjósendur við sjávarsíðuna áhyggjum sínum af þessari útgerð og af framgangi fiskveiða við þær aðstæður sem skapast hafa við mjög skertar veiðiheimildir úr þorskstofninum, okkar helsta nytjastofni. Menn lýstu takmörkuðum möguleikum smárra skipa og báta með litla flutningsgetu og lítið vélarafl til að sækja á ný og jafnvel fjarlæg mið eða beita öðrum veiðarfærum til að nýta aðra veiðistofna. Menn lýstu útkasti fiskjar frá borði, miklum fjárfestingum í litlum bátum og harðnandi sóknarkapphlaupi krókabáta án tillits til burðar þeirra eða sjólags og veðra með sívaxandi hættu fyrir áhafnir og báta.
    Við þessum áhyggjum, sem menn lýstu fyrir okkur, er verið að bregðast með þeim ákvæðum sem koma fram í frv. og brtt. meiri hluta sjútvn. við frv. sem er til 2. umr.
    Eins og fram kemur í nál. meiri hlutans leggur meiri hlutinn til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram á þskj. 57 og ég hef gert lítillega frekari grein fyrir en er tilbúinn til að gera það frekar í þeim umræðum sem fara fram á eftir ef þess verður óskað.