Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 20:53:37 (536)


[20:53]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er alveg ljóst að róðrardagakerfið er engin allsherjarlausn sem m.a. sést af því að róðrardagar eftir frjálsu vali verða færri heldur en þegar þeir koma út sem afleiðing af fyrir fram ákveðnum banndögum. Þess vegna er m.a. gert ráð fyrir þessum valkosti í því frv. sem hér liggur fyrir, að menn geti valið á milli þaks í þorski eða aflahámarks varðandi þorskveiðar og svo róðrardagakerfis.
    Auðvitað geta mörg sjónarmið komið fram varðandi það hvernig á að dreifa takmörkuðum fjölda róðrardaga og því miður eru þeir allt of fáir vegna fjölda báta. En eitt af þeim sjónarmiðum sem ég tel eðlilegt að hafa í huga er það að menn geti dreift veiðunum yfir lengri tímabil en bara yfir hásumarið, m.a. vegna þess að það er löng hefð fyrir því í mörgum byggðum sem byggja að talsverðu leyti á afla þessara báta og það yfir lengri tíma en bara sumarmánuðina. Þess vegna er ekki óeðlilegt að tekið sé tillit til slíkra sjónarmiða og auðvitað verða menn í umfjöllun um þetta að horfa á mörg sjónarmið.
    Ég get tekið undir það með hv. þm. að það er ekkert algilt svar og enginn einn algildur sannleikur í þessu efni en ég held að það fari ekki fram hjá neinum að menn hafa verið að reyna að horfa á fjölbreytta og fjölþætta hagsmuni við útfærslu á mjög vandasömu viðfangsefni.