Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 21:28:36 (543)


[21:28]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar og fannst fróðlegt að heyra hann lýsa afstöðu sinni til einstakra efnisþátta frv. En mér fannst vanta að hann skýrði hvernig hann ætlar að greiða atkvæði. Ég vil því spyrja hann í fyrsta lagi: Mun hann styðja tillögur meiri hluta sjútvn. eða mun hann greiða atkvæði gegn þeim? Í öðru lagi: Mun hann styðja 1. gr. frv. um yfirstuðla úreldingu eða mun hann greiða atkvæði gegn þeirri tillögu? Hann lýsti afstöðu sinni þannig að hann væri í raun á móti henni nema sett væri gólf í yfirstuðulinn sem ekki er í tillögunni og þar af leiðandi geti hann ekki greitt atkvæði með frumvarpsgreininni eins og hún er nema vera ósammála sjálfum sér.
    Í þriðja lagi spyr ég þingmanninn hvort hann miði afstöðu sína til frv. varðandi hagsmuni krókabáta við að stjórnkerfið skili því að sá floti veiði minna eða sé undir þeim hámörkum, sem honum er ætlað, eða hvort hann er í raun að tala um að krókaflotinn fái að veiða meira en þau 20 þúsund tonn sem honum er ætluð samkvæmt núgildandi lögum og þetta frv. byggir á.