Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 21:53:10 (550)


[21:53]
     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fær 10 fyrir viðleitni og hann fær líka 10 fyrir hreinskilni vegna þess að það er afar sjaldgæft að menn tali eins opinskátt og hv. þm. gerði hér áðan. Hv. þm. lýsti því af einlægni hjarta síns að félagar hans í sjútvn. hefðu góða sannfæringu fyrir því að það væri hægt að taka upp eftirlit þegar í stað með róðrardagakerfinu. Hann lýsti því jafnframt að hann sjálfur hefði sannfæringu fyrir því að það væri hægt að gera það þegar í stað.
    En hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur gott hjarta og stórt. Hann veit að í nærveru viðkvæmra sála bera að sýna aðgát. Svo vill til að í þessum þingsal er ein slík sál. Sem nú er að kæla sig með því að drekka vatn úr glasi. Og hv. þm. lýsir því yfir að af einskærri skilningssemi við hæstv. sjútvrh., svo ég noti orð hv. þm., sem telur þá tilhugsun óbærilega að slíkt kerfi yrði samþykkt núna, þá ætlar hann að greiða atkvæði með frv. hæstv. sjútvrh. en gegn þeirri tillögu sem honum þykir þó betri, tillögu minni hlutans í nefndinni.
    Herra forseti. Hér er fallega mælt og ekki dreg ég í efa að góður og drenglyndur vilji liggur á bak við. En mig langar að spyrja hv. þm: Hvað með tillitið við fólkið sem hann lofaði allt öðru fyrir kosningarnar? Hvað með tillitið og trúnaðinn við sjálfan sig og sín eigin orð? Hv. þm. lýsti því í kjarnyrtu máli hversu slæmt banndagakerfið er. Ég er sammála því. Hann lýsti því af mikilli rökfimi hvaða óskaplegu afleiðingar það hefði fyrir smábátasjómenn í hans eigin kjördæmi. En hv. þm. ætlar af tillitssemi við hina viðkvæmu sál, sem enn er á meðal vor, að greiða atkvæði gegn hagsmunum sinna eigin umbjóðenda sem hann lofaði svo miklu af því, herra forseti, að hann vill sýna hæstv. sjútvrh. tillitssemi. Hvers konar tillit er þetta, hv. þm.? Er það ekki nóg fyrir hæstv. sjútvrh. allt það tillit og jafnvel augnatillit Kristjáns Ragnarssonar stöðugt í hnakkanum? Er það ekki nóg? Fær hann ekki nógan stuðning þar? Þarf hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, ekki bara að brjóta odd af sínu oflæti heldur brjóta sín eigin orð til þess að sýna hæstv. sjútvrh. tillitssemi? Það þætti mér svakalegt.