Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 22:38:04 (558)


[22:38]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vandinn er sá að málflutningur stjórnarliða er ekki mjög samstilltur, svo ákaflega kurteislega og vægt sé til orða tekið. Það verð ég að segja í framhaldi af þessari síðustu ræðu að það sem

við höfum verið að hlusta á og það sem ég var að vekja athygli á áðan voru ræður ekki færri en þriggja eða fjögurra stjórnarþingmanna með stuttu millibili, hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, Kristjáns Pálssonar, Guðjóns A. Kristjánssonar og jafnvel hv. þm. Hjálmars Árnasonar. Ætli þurfi að nefna fleiri dæmi? Það var út frá þeim ræðum sem hér voru fluttar sem ég lét mín orð falla af því að ég tek mark á því sem menn eru að segja. Þegar menn ítreka jafnvel við 2. umr. máls það sem þeir sögðu við þá 1. að þeirra vilji standi til þess að taka upp tiltekið fyrirkomulag og ganga frá því og það sem fyrst þá sé ástæða til að taka mark á því.
    Varðandi það sem hv. þm. sagði að tillaga meiri hlutans opni krókaveiðimönnum fleiri valkosti þá benti ég á þann möguleika að það mætti hugsanlega sameina það með því annars vegar að taka þessa aflahámarksleið með ef það er mönnum keppikefli að halda henni inni og koma einhverjum hluta af flotanum undir það, eða bjóða mönnum a.m.k. upp á að velja það, en hafa hinn valkostinn, það sem allir eru sammála um að þeir vilji. Það liggur alveg fyrir afstaða sjómanna sjálfra í því efni, þeir vilja róðrardagakerfi. Það liggur fyrir afstaða minni hlutans, við viljum róðrardagakerfi. Og það virðist liggja hér fyrir afstaða fjölmargra stjórnarþingmanna að þeir vilji róðrardagakerfið. Hvers vegna gera menn það þá ekki ef það er það sem menn meira og minna allir vilja? ( Gripið fram í: Ráðherrann vill það ekki.) Nema kannski ráðherrann af því að honum finnst einhver tilhugsun óbærileg í þessu sambandi að mér skilst, að hafa ekki fullkomið gervihnattaeftirlit í hendi áður en frá því er gengið. Ég held að við eigum bara aðeins að útskýra það betur fyrir ráðherranum að það sé ekki svo skelfilegt og þá sé hægt að ganga frá málinu og menn þurfi ekki að hrökklast frá sannfæringu sinni af eintómri manngæskunni og tillitsseminni við það hvað hæstv. ráðherra er bærilegt og ekki bærilegt.
    Þessi orð voru látin falla í fullri alvöru og ég ítreka það að ég tel að það eigi í ljósi umræðunnar, ef menn vilja taka eitthvað mark á því sem hér er sagt og hafa orð manna að einhverju, að skoða þetta mál betur og lýsi yfir vilja til að sjútvn. geri það milli 2. og 3. umr.